Af vettvangi í september 2014

SA fréttabréf header

Þéttum raðirnar

 Á undanförnum þremur áratugum hefur þróast uppbyggilegt þríhliða samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í tengslum við gerð kjarasamninga. Traust og tíð samskipti hafa byggst upp og skilað ótvíræðum árangri. Víðtæk sátt hefur verið um að tryggja vinnufrið og efnahagslegan stöðugleika. Forsenda árangursríks þríhliða samstarfs er traust milli forystumanna ríkisstjórna á hverjum tíma og forystumanna heildarsamtaka á vinnumarkaði. Þar skortir á nú um stundir og það þarf að laga. Brýnt er stjórnvöld sýni vilja til uppbyggilegs samráðs með skýrum hætti á næstunni. Verkefnin eru enn þau sömu og áður; að auka kaupmátt og bæta lífskjör með hóflegum launahækkunum, lágri verðbólgu og efnahagslegum stöðugleika."

Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, m.a. leiðaranum sem fjallar um stöðuna á vinnumarkaði og þann árangur sem hefur náðst í efnahagsmálum á árinu. Það megi aldrei missa sjónar á honum í kappi dagsins.  "Það getur vart verið markmið ASÍ að kollvarpa þeim mikla árangri sem náðst hefur vegna óánægju með samstarf við stjórnvöld og forgangsröðun fjárlaga. Uppbygging kaupmáttar á grundvelli stöðugleika hlýtur að vera meginmarkmiðið. Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld þurfa að þétta raðirnar til að nýta þá bættu stöðu launafólks sem við blasir."

Sjá nánar

Verðlag er stöðugt og verðbólga hefur verið undir 2,5% frá því í febrúar síðastliðnum og horfur á því að svo verði áfram næstu mánuði.

FRÉTTIR

Regluleg laun stjórnenda hækkað minna en launavísitala 2006-2014

Umræða um launaþróun stjórnenda hefur verið fyrirferðamikil, ekki síst í kjölfar birtingar tekjublaðs Frjálsrar verslunar. Því hefur verið haldið fram að launaskrið meðal stjórnenda hafi verið mikið á síðasta ári og að laun þeirra hækkað umfram aðra. Þessar staðhæfingar koma ekki heim og saman við niðurstöður Hagstofunnar um launabreytingar stjórnenda í samanburði við aðra.

Sjá nánar

Vörugjöldin út í hafsauga og þó fyrr hefði verið

Það er þjóðþrifaverk hjá ríkisstjórn Íslands að koma almennum vörugjöldum fyrir kattarnef enda hafa þau verið skaðleg neytendum og fyrirtækjum í allt of langan tíma. Vörugjöld hafa verið lögð á ýmsar innfluttar nytjavörur og framleiðslu innanlands allt frá árinu 1971 þegar Ísland gekk í EFTA en vörugjaldakerfið er flókið, órökrétt og ósanngjarnt. Það felur auk þess í sér margvíslega mismunun og hækkar verðlag.

Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að bæta kerfið en án árangurs. Vörugjöld af matvælum voru t.d. afnumin árið 2007 í viðleitni til að lækka matarverð en árið 2009 voru þau sett á að nýju í óbreyttri mynd en upphæðir tvöfaldaðar enda trú margra að aukin gjöld bæti lífskjör á Íslandi.

Sjá nánar

Er breytinga að vænta í fjármálum ríkisins?

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands efndu til morgunverðarfundar um ríkisfjármálin í morgun. Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður efnahagssviðs SA, sagði á fundinum að fjárlagafrumvarpið 2015 beri ekki vott um róttækar breytingar á útgjaldahliðinni. Gert sé ráð fyrir afgangi á rekstri ríkisins en lítið megi út af bregða - afgangurinn gæti hæglega horfið gangi áætlanir ekki fyllilega eftir. "Eftirfylgni fjárlaga er ábótavant og aga skortir við afgreiðslu fjárlaga. Umframkeyrsla ríkisútgjalda einskorðast ekki við erfið rekstrarár. Það virðist vera regla fremur en undantekning að eytt sé umfram fjárheimildir," sagði Ásdís ennfremur.

Sjá nánar


SAMTÖK ATVINNULÍFSINS

Aðalfundur SA 2015

Aðalfundur Samtaka atvinnulífsins árið 2015 verður haldinn að morgni fimmtudagsins 16. apríl 2015 í salnum Kviku í Húsi atvinnulífsins. Þetta er í fyrsta skipti sem fundurinn er haldinn í Húsi atvinnulífsins en dagskrá og nákvæm tímasetning fundarins verður send út til félagsmanna með góðum fyrirvara.

SA logo small

Ársfundur atvinnulífsins 2015 – taktu daginn frá!

Ársfundur atvinnulífsins 2015 fer fram í Hörpu fimmtudaginn 16. apríl í Silfurbergi.  Yfir 500 manns mættu til fundarins sl. vor en þá var  aukin samkeppnishæfni Íslands og leiðir til að bæta lífskjör þjóðarinnar til umfjöllunar. Fundurinn fer fram eftir hádegið en við hvetjum þig til að taka daginn nú þegar frá.

Ef þú vilt rifja upp efni fundarins frá því í vor getur þú horft á hann á Vimeo-reikningi SA.

HÚS ATVINNULÍFSINS

59 10 000 ... Góðan daginn!

Við minnum á sameiginlegt símanúmer fyrir Hús atvinnulífsins sem er 59 10 000. Þar er svarað í símann fyrir Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök verslunar og þjónustu og Samtök fjármálafyrirtækja á opnunartíma frá kl. 8.30-16.30.

SAMKEPPNISHÆFNI

SA og SI mótmæla auknu eftirliti


Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins telja fyrirhuguð lagaákvæði  um aukið eftirlit með flutningum á landi óþörf og að önnur lög nægi til að tryggja hag neytenda og almennings. Með frumvarpinu sé enn verið að auka kostnað fyrirtækjanna við að halda uppi eftirlitsstarfsemi án þess að nokkur sjáanlegur ávinningur verði af eftirlitinu. Þetta kemur fram í nýrri umsögn samtakanna til innanríkisráðuneytisins. 

Sjá nánar


EFNAHAGSSVIÐ SA

Ófullnægjandi aðhald ríkisfjármála

Íslenska ríkið hefur í kjölfar fjármálahrunsins glímt við talsverðan hallarekstur og háar skuldir. Þrátt fyrir að nú sex árum síðar stefni í afgang af rekstri ríkissjóðs hefur aðhald á útgjaldahlið ekki verið fullnægjandi. Þetta kemur fram í greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins frá 27. ágúst þar sem m.a. er fjallað um hvort breytinga er að vænta í fjárlögum 2015?

Sjá nánar

Fleiri greiningar má nálgast á vefsvæði efnahagssviðs SA.

EFNAHAGSMÁL

Verð innfluttrar neysluvöru hækkar minna en gengi krónunnar segir til um

Styrking gengis krónunnar skilar sér mishratt í verði innfluttrar neysluvöru eftir vöruflokkum. Í sumum tilvikum skila gengisbreytingar sér hratt, t.d. í beinum innflutningi smásala á dagvörum þar sem vöruvelta er mikil. Í öðrum tilvikum, þar sem veltan er hægari, skila breytingarnar sér á lengri tíma.

Verslun á Íslandi er reglulega sökuð um að styrking gengis krónunnar skili sér seint og illa til neytenda í lækkuðu verði á innfluttum vörum. Því sé hins vegar öfugt farið þegar gengi krónunnar veikist, þá sé verslunin fljót að hækka verð á innfluttum vörum. Slíkar staðhæfingar eru ekki í samræmi við gögn Hagstofunnar um verðþróun innfluttra neysluvara undanfarin ár. 

Sjá nánar

MENNTAMÁL ATVINNULÍFSINS

Samtal um starfsmenntamál

Á grunni bókunar síðustu kjarasamninga eru Samtök atvinnulífsins í samvinnu við launþegahreyfingarnar að vinna að einföldun starfsmenntakerfisins með það að markmiði að gera það gegnsærra og aðgengilegra.  Slík breyting getur m.a. stuðlað að hærra menntunarstigi  innan fyrirtækja en aðilar vinnumarkaðarins hafa átt gott samstarf um uppbyggingu starfsmenntamála á síðustu misserum. Það eru í senn hagsmunir fyrirtækja sem einstaklinga að hækka menntunarstig og efla þekkingu og færni innan atvinnulífsins á Íslandi.

Sjá nánar

AÐILDARFÉLÖG SA

Nýr framkvæmdastjóri SI

Almar Guðmundsson var í ágúst ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Almar er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá London Business School. Almar hefur undanfarin fimm ár verið framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda en áður starfaði hann við ýmis stjórnunarstörf innan Íslandsbanka. Almar er formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar í Garðabæ. Hann hefur einnig á undanförnum árum fengist við kennslu við Háskólann í Reykjavík. Almar er kvæntur Guðrúnu Zoega, hjúkrunarfræðingi, og eiga þau fimm börn.

Sjá nánar 

SJÁVARÚTVEGSDAGURINN

Sjávarútvegsdagurinn 2014 í Hörpu

Miðvikudaginn 8. október  munu SA, LÍÚ, SF og Deloitte standa að Sjávarútvegsdeginum í Hörpu. Þetta er í fyrsta sinn sem dagurinn er haldinn en þar verða málefni sjávarútvegsins rædd frá ýmsum áhugaverðum hliðum. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, flytur opnunarerindi en m.a. verða nýjar tölur um afkomu greinarinnar birtar á ráðstefnunni en það eru fyrstu mögulegu tölur sem hægt er að birta úr ársreikningum fyrir sjávarútveginn í heild fyrir árið 2013.

Nánari upplýsingar og dagskrá má nálgast á vef SA.

SAMFÉLAGSÁBYRGÐ

Samfélagsábyrgð rædd í Stokkhólmi

Stjórnendur fyrirtækja á Norðurlöndunum sem hafa skrifað undir Global Compact – Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð munu hittast á reglulegri ráðstefnu í Stokkhólmi 4.-5. nóvember næstkomandi, bera saman bækur sínar og læra hver af öðrum. Norræna nálgunin út frá 10 viðmiðum Global Compact verður þar í forgrunni.

Aukinn áhugi er á Íslandi á Global Compact og hefur fjölgað hratt í hópi þeirra sem hafa skrifað undir sáttmálann en alls hafa 14 aðilar skrifað undir á Íslandi. Nýjasti meðlimur Global Compact á Íslandi er lögmannsstofan Réttur. Samtök atvinnulífsins eru tengiliður á Íslandi við Global Compact.

Rannsókn á forystu og gildum í atvinnulífinu

Nú stendur yfir fjölþjóðleg langtímarannsókn á forystu og gildum fólks í viðskiptalífinu. Viðhorf til æskilegrar leiðtogahegðunar eru könnuð og þau borin saman milli landa. Markmið rannsóknarinnar er að ýta undir árangur í alþjóðaviðskipum en könnunin er send til stjórnenda aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins.

SA hvetja sem flesta stjórnendur til að taka þátt, en fleiri en einn geta svarað könnuninni í hverju fyrirtæki. Tengiliður rannsóknar á Íslandi er Inga M. Snæbjörnsson, doktorsnemi við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Fjallað verður um niðurstöðurnar á vef SA en það verður forvitnilegt að sjá hvar íslenskir stjórnendur standa í alþjóðlegum samanburði.

Samtök atvinnulífsins | Borgartúni 35 | IS-105 Reykjavík | Sími: 591 0000 | Netfang: sa@sa.is
Email Marketing af Outcome frttabrf
[ + ] [ + ]