LEIÐARI
Vöndum til verka - vinnum saman
Verkefni haustsins eru ærin hjá þingmönnum og aðilum vinnumarkaðarins. Afar mikilvægt er að vel takist til við úrlausn þeirra til að koma á efnahagslegum stöðugleika með lágri verðbólgu og vöxtum og skapa þannig kjöraðstæður til að framleiða aukin verðmæti, bæta lífskjör fólks og skapa ný störf. Með sköpun 10.000 nýrra starfa á næstu árum nemur árlegur ávinningur hins opinbera 40 milljörðum króna og því til mikils að vinna.
Til að árangur náist þurfa bæði þingmenn og aðilar vinnumarkaðarins að vanda til verka og vinna saman. Takist það ekki bíða Íslendinga vel þekktar og djúpar efnahagssveiflur og lakari lífskjör en nágrannaþjóðir okkar búa við. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, m.a. í leiðaranum þar sem hann fjallar um verkefni og áskoranir næstu mánaða. Hann segir SA reiðubúin til samstarfs við að leita lausna sem aukið geta samkeppnishæfni þjóðarinnar og bætt lífskjör á næstu árum.
Sjá nánar »
FRÉTTIR
Versló verði þriggja ára skóli
Á fundi skólanefndar Verzlunarskóla Íslands í vor var samþykkt að hefja vinnu við endurskipulagningu skólans með það að markmiði að stytta skólann um eitt ár. "Þessi vinna fer á fullt í ágúst og er miðað við að Verzlunarskólinn verði tilbúinn að innrita fyrstu nemendurna í þriggja ára nám vorið 2015," segir Ingi Ólafsson, skólastjóri Verzlunarskóla Íslands í samtali við Morgunblaðið sem greindi frá málinu.
Sjá nánar »
Styrkir til fyrirtækja vegna vinnustaðanáms og starfsþjálfunar
Rannís auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Vinnustaðanámssjóði. Umsóknarfrestur er til 16. ágúst 2013. Vinnustaðanámssjóður veitir styrki til fyrirtækja og stofnana vegna vinnustaðanáms og starfsþjálfunar sem er skilgreindur hluti af starfsnámi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Markmið sjóðsins er að hvetja fyrirtæki og stofnanir til að taka við nemendum sem stunda vinnustaðanám sem hluta af námi á framhaldsskólastigi og gera þeim kleift að ljúka tilskildu vinnustaðanámi.
Sjá nánar »
Sumarlokun skrifstofu SA
Vegna sumarleyfa verður skrifstofa Samtaka atvinnulífsins lokuð dagana 22. júlí til 5. ágúst (að báðum meðtöldum), en svarað verður í símann og brugðist við áríðandi erindum. Skrifstofan verður opnuð á ný þriðjudaginn 6. ágúst.
VINNUMARKAÐURINN
Kjarasamningar og vinnumarkaður á Norðurlöndum - ensk og sænsk samantekt
Vinnuhópur aðila vinnumarkaðarins kynnti í maí skýrslu um vinnumarkað og skipulag kjarasamninga í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Ensk og sænsk samantekt skýrslunnar er nú aðgengileg á vef SA.
Markmið með úttektinni er að leita fyrirmynda í nágrannaríkjum Íslands sem geti nýst við að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga hér á landi þannig að þeir stuðli að stöðugu verðlagi, auknum kaupmætti launa og samkeppnishæfni atvinnulífsins.
Ensk samantekt
Sænsk samantekt
Skýrsluna á íslensku má nálgast hér»
LÍÚ
Kolbeinn Árnason ráðinn framkvæmdastjóri LÍÚ
Kolbeinn Árnason lögmaður hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna og hefur störf í næsta mánuði. Kolbeinn lauk laganámi frá Háskóla Íslands 1997 og stundaði framhaldsnám lögfræði við University of Leuven 2006. Kolbeinn var skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu sjávarútvegsráðuneytisins og síðar fiskveiðistjórnarskrifstofu ráðuneytisins í samtals rúm sex ár. Á þeim tíma var hann m.a. formaður samninganefnda Íslands um deilistofna og sendinefnda Íslands hjá alþjóðlegum fiskiveiðistjórnarstofnunum.
Þá var Kolbeinn fulltrúi sjávarútvegsráðuneytisins í fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu í tvö ár. Kolbeinn á sæti í samninganefnd Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og er formaður samningahóps um sjávarútvegsmál.
Sjá nánar »
SAMÁL
Pétur Blöndal ráðinn framkvæmdastjóri Samáls
Pétur Blöndal hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álfyrirtækja á Íslandi. Hann mun hefja störf í næsta mánuði. "Það er spennandi áskorun að takast á við þetta starf, enda er áliðnaðurinn ein af grunnstoðum íslensks atvinnulífs," segir Pétur.
"Það sýnir vel mikilvægi áliðnaðarins fyrir íslenskt þjóðarbú að hann skapar yfir 220 milljarða í gjaldeyristekjur og heildarkostnaður sem til fellur hér á landi er um 100 milljarðar. Það starfa um 2.100 manns hjá álfyrirtækjunum og áætlað er að um 5 þúsund manns hafi framfæri sitt af álframleiðslu með beinum hætti."
Sjá nánar »
ERLENT
Samkeppnishæf orku- og loftslagsstefna fyrir Evrópu
BUSINESSEUROPE, Evrópusamtök atvinnulífsins, hafa gefið út nýja stefnumörkun í orku- og loftslagsmálum til ársins 2030. Samtökin segja að tryggja verði fyrirtækjum í Evrópu samkeppnishæft orkuverð og öruggt framboð orku um leið og sett eru markmið í loftslagsmálum. BUSINESEUROPE telja rétt að setja strax ákveðið markmið um að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030.
Sjá nánar »
MENNTAMÁL
IÐAN útskrifar 80 manns
Í vor útskrifuðust 80 manns úr raunfærnimati frá IÐUNNI fræðslusetri. Um er að ræða ófaglærða iðnaðarmenn, 25 ára og eldri sem hafa í það minnsta 5 ára starfsreynslu og hafa hug á því að ljúka námi í sínu fagi. Aldrei áður hefur IÐAN útskrifað svo stóran hóp í einu. Starfsvettvangur útskriftarhópsins er mjög fjölbreyttur og má þar t.d. nefna iðngreinar eins og pípulagnir, múraraiðn, málaraiðn, húsasmíði, bifvélavirkjun, bifreiðasmíði, bílamálun og vélstjórn.
Sjá nánar »
STJÓRNARHÆTTIR
Mannvit og Stefnir til fyrirmyndar
Mannvit og Stefnir luku nýverið við að endurnýja úttekt á stjórnarháttum sínum og er fyrirtækjunum því heimilt að nota merki úttektarinnar næsta árið til marks um árangurinn. Úttektarferlið var sett á laggirnar árið 2011 með með samstarfssamningi Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins, NASDAQ OMX Iceland og Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands.
Sjá nánar »
SAMFÉLAGSÁBYRGÐ
Átak gegn svartri atvinnustarfsemi
Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Ríkisskattstjóri standa í sumar að sérstöku átaki til að hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að standa rétt að samningum sín í milli.
Fulltrúar aðilanna þriggja heimsækja vinnustaði, kanna aðstæður, veita ráðgjöf og fræðslu um viðeigandi reglur og lagaramma og hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að gera nauðsynlegar úrbætur ef þurfa þykir. Yfirskrift átaksins er Leggur þú þitt af mörkum?
Sjá nánar »
Share with Your Friends