LEIÐARI
Norræn velferð
"Á undanförnum 15 árum hafa laun á Íslandi hækkað um 7% á ári að jafnaði. Verðmætasköpun á hverja vinnustund hefur á sama tíma vaxið að jafnaði um 2%. Framleiðniaukning, aukin skilvirkni og bætt frammistaða, er forsenda aukins kaupmáttar launa og betri lífskjara. Launahækkanir umfram framleiðniaukningu valda hins vegar óhjákvæmilega verðbólgu. Það kemur því ekki á óvart að verðbólga er langt umfram markmið stjórnvalda og Seðlabankans þegar laun hækka margfalt meira en framleiðnin ár eftir ár."
Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, m.a. í leiðaranum þar sem hann ber saman launaþróun á Íslandi og Norðurlöndunum. Hann segir fulla ástæðu til fyrir Íslendinga að leita fyrirmynda á Norðurlöndunum þegar kemur að gerð kjarasamninga og læra af reynslu nágrannaríkja okkar á undanförnum árum. Lykilinn að norrænni velferð, sé blanda af hóflegum launahækkunum,
stöðugu verðlagi, auknum kaupmætti, hagvexti og betri lífskjörum.
Sjá nánar »
FRÉTTIR
Kjarasamningar til þriggja ára í Svíþjóð
Í byrjun apríl var skrifað undir kjarasamning til þriggja ára í Svíþjóð milli samtaka iðnfyrirtækja og tíu verkalýðsfélaga. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2013 til 31. mars 2016, en heimilt er að segja honum upp á síðasta árinu. Kostnaðarhækkanir atvinnulífsins á þessum þremur árum verða samtals 6,8%.
Í Svíþjóð er almenn samstaða um að þessir samningsaðilar semji fyrstir og móti það svigrúm sem er til launabreytingar á grundvelli þess hversu miklar kostnaðarhækkanir atvinnugreinar í alþjóðlegri samkeppni þoli án þess að atvinnuleysi og verðbólga aukist.
Sjá nánar »
Ný þjóðhagsspá Hagstofunnar: Lítill hagvöxtur og mikil verðbólga
Ný þjóðhagsspá er ekki uppörvandi fyrir atvinnulífið og almenning í landinu. Fjárfestingar eru allt of litlar og hagvöxturinn gefur ekki tilefni til bætts hags atvinnulífs og heimila. Spár um launabreytingar, gengi og verðbólgu fela í sér að óstöðugleiki muni áfram einkenna efnahagsumhverfið. Brýnt er að koma í veg fyrir að þessar spár verði að veruleika. Þá er vandséð að spá Hagstofunnar um aukinn kaupmátt launa eigi sér efnahagslegar forsendur í þeirri lægð sem er og verður næstu misseri.
Sjá nánar »
Átak SA og Blóðbankans gengur vel
Samtök atvinnulífsins og Blóðbankinn hafa undanfarnar vikur hvatt stjórnendur fyrirtækja og starfsfólk þeirra til að bretta upp ermar og gefa blóð. Markmið átaksins er að fjölga blóðgjöfum sem koma reglubundið í Blóðbankann og auðvelda starfsfólki að gefa blóð á vinnutíma. Það tekur aðeins stutta stund og getur bjargað mannslífum.
Átakið hefur gengið vel og segir Blóðbankinn að greinileg vitundarvakning hafi orðið í atvinnulífinu en átakið hófst 3. mars. Fyrirtæki bæði stór og smá hafa í auknum mæli óskað eftir því að fá Blóðbankabílinn til sín og búið er að bæta við dögum sem bíllinn er á ferðinni til að mæta aukinni eftirspurn.
Sjá nánar »
SAMTÖK ATVINNULÍFSINS
Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri SA
Stjórn Samtaka atvinnulífsins réð í mars Þorstein Víglundsson sem framkvæmdastjóra samtakanna og tók hann þegar til starfa. Þorsteinn hefur víðtæka reynslu úr íslensku atvinnulífi og hefur undangengin 15 ár starfað á sviði fjármálamarkaða og iðnaðar, nú síðast sem framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda á Íslandi þar sem hann leiddi stofnun og mótun samtakanna.
Þorsteinn segir það mjög spennandi að takast á við þau fjölmörgu krefjandi verkefni sem framundan eru á vettvangi Samtaka atvinnulífsins. Langvarandi doði í efnahagslífinu, hátt vaxtastig og örar breytingar á skattaumhverfi fyrirtækja hafi haft mikil áhrif á rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja undangengin ár. Mikilvægt sé að örva fjárfestingu og hagvöxt og ná þurfi skynsamlegri lendingu við gerð kjarasamninga til næstu ára.
Sjá nánar »
Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst
Vilhjálmur Egilsson hefur verið ráðinn rektor Háskólans á Bifröst frá 1. júlí næstkomandi og lætur því af störfum hjá SA. Vilhjálmur hefur verið framkvæmdastjóri SA frá 15. mars 2006 eða í sjö ár sem hefur verið viðburðaríkur tími í sögu samtakanna og íslensks atvinnulífs.
Samtök atvinnulífsins færa Vilhjálmi þakkir fyrir störf hans og óska góðs gengis í nýju starfi. SA telja starfsemi Háskólans á Bifröst afar mikilvæga fyrir íslenskt atvinnulíf. Samtökin eru meðal bakhjarla Háskólans á Bifröst og munu styðja hann áfram, sérstaklega til uppbyggingar rannsókna í þágu atvinnulífsins.
Sjá nánar »
AÐALFUNDIR AÐILDARFÉLAGA SA
Ályktun Iðnþings 2013
"Á næstu árum og áratugum verða miklar breytingar í efnahagslegu umhverfi Íslands, bæði af völdum náttúrunnar og mannlegs samfélags. Margt í þeirri þróun getur orðið til hagsbóta fyrir Íslendinga, ef stjórnvöld og atvinnulíf taka höndum saman til að greina tækifærin og nýta þau." Þetta segir í upphafi ályktunar Iðnþings 2013 sem fram fór á Hótel Nordica 14. mars. Ályktunina má lesa í heild á vef SA og nánari umfjöllun um þingið má nálgast á vef SI.
Sjá nánar »
Hægt að lækka matarkörfuna um 16 milljarða
Tækifærin til að auka kaupmátt 130.000 heimila eru stórkostleg. Athugun SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu hefur leitt í ljós að með því að draga úr innflutningshöftum og auka viðskiptafrelsi megi lækka matarútgjöld hvers íslensks heimilis um tugi þúsunda. Ef það tækist að lækka meðaltalsmatarreikning hvers heimilis um 10% kæmu um 16 milljarðar í vasa landsmanna sem þeir gætu nýtt til að borga niður skuldir eða til kaupa á annarri vöru og þjónustu. Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ, segir það lífsnauðsynlegt fyrir heimilin í landinu að lækka matarverð og auka þannig kaupmáttinn.
Sjá nánar »
Samtök ferðaþjónustunnar opna á náttúrupassa
Ferðaþjónustan er reiðubúin til viðræðna við stjórnvöld um útgáfu náttúrupassa til fjármögnunar framkvæmda við ferðamannastaði. Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar hvetur stjórnvöld til þess að gera sveitarfélögum kleift að vinna að skipulagsmálum með beinum framlögum úr ríkissjóði og að setja samgönguyfirvöld í forsvar fyrir göngustíga- og útsýnispallagerð á sama hátt og gert er við akvegi, reiðvegi og hjólastíga. Þetta kemur fram í ályktun aðalfundar SAF sem fram fór 11. apríl.
Sjá nánar »
EFNAHAGSMÁL
Atvinnulíf og stjórnvöld vinni saman
"Framundan eru snúnir tímar," segir Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, í ítarlegu viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins 4.apríl. "Nánast allir kjarasamningar verða lausir á haustmánuðum. Það er brýnt að semja með farsælum hætti og til að svo verði þarf að vinna að því hörðum höndum."
Annað mikilvægt verkefni, að hans sögn, er að koma aftur á góðum tengslum við stjórnvöld. "Það er ótækt ef hér á að vera heilbrigt atvinnulíf að SA og stjórnvöld talist ekki við. Það eru hátt í tvö ár síðan SA sagði sig frá samtalinu og ASÍ fylgdi í kjölfarið," segir Björgólfur í viðtalinu.
Sjá nánar »
Ný peningamálastefna forsenda efnahagslegs stöðugleika
"Töluverður ágreiningur hefur verið um það undanfarin ár hvernig hátta skuli fyrirkomulagi peningamála hér á landi til framtíðar. Tekist hefur verið á um þrjá meginkosti: Inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru, einhliða upptöku annars gjaldmiðils eða sjálfstæða en endurskoðaða peningamálastjórn með krónu." Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, m.a. í grein í Vísbendingu. Hann segir ljóst að breytinga sé þörf - um það séu flestir sammála óháð því hvaða leiðir menn kjósa að fara. Ný peningamálastefna sé forsenda efnahagslegs stöðugleika.
Sjá nánar »
Gögn frá frá ráðstefnu um framtíð fasteignalána
Ríflega 200 gestir sóttu ráðstefnu Alþýðusambands Íslands, Íbúðalánasjóðs og Samtaka fjármálafyrirtækja um framtíð fasteignalána á Íslandi í morgun. Á ráðstefnunni fóru sérfræðingar yfir stöðu mála á fasteignalánamarkaðnum út frá mismunandi sjónarhornum og vörpuðu ljósi á framtíðarhorfurnar. Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri Grænna tóku síðan þátt í pallborðsumræðum um áherslur stjórnmálaflokkanna í þessum málum.
Sjá nánar »
Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna: Útlit fyrir minnkandi fjárfestingar og óbreyttan starfsmannafjölda
Flestir stjórnendur telja aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar samkvæmt könnun Capacent meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins sem birt var 18. mars. Þeim fjölgar þó mikið sem búast við að þær verði betri eftir sex mánuði. Framboð af starfsfólki er nægt en helst vottar fyrir skorti á starfsfólki í samgöngum, ferðaþjónustu og sérhæfðri þjónustu.
Í heild gera stjórnendur ráð fyrir óbreyttum starfsmannafjölda næstu sex mánuði en að fjárfestingar á þessu ári verði minni en á árinu 2012. Verðbólguvæntingar stjórnenda eru óbreyttar, 4% næstu 12 mánuði og 5% eftir tvö ár og búist er við áframhaldandi veikingu krónunnar.
Sjá nánar »
Fjárfestingar fjölga störfum
Til að fjölga störfum á Íslandi þarf að auka umsvif í atvinnulífinu og fjárfesta í aukinni framleiðslu- og þjónustugetu. Undanfarin fjögur ár hafa fjárfestingar í heild og fjárfestingar atvinnulífsins verið í sögulegu lágmarki. Litlar fjárfestingar undanfarinna ára valda því að störfum fjölgar hægt, það dregur hægt úr atvinnuleysi og fólk heldur áfram að leita betri afkomu með því að flytja úr landi. Tækifærin til að snúa við blaðinu blasa hins vegar við.
Sjá nánar »
BUSINESSEUROPE
Emma Marcegaglia nýr forseti
Emma Marcegaglia, fyrrverandi formaður ítölsku atvinnulífssamtakanna Confindustria, tekur við sem forseti BUSINESSEUROPE, evrópusamtaka atvinnulífsins, þann 1. júlí nk. Hún tekur við af Jürgen Thumann frá Þýskalandi sem hefur verið forseti BUSINESSEUROPE í tæp fjögur ár.
Emma Marcegaglia er forstjóri stálframleiðandans Marcegaglia S.p.A. á Ítalíu. Hún hefur ítrekað verið valin ein mesta áhrifakonan í evrópsku athafnalífi á undanförnum árum. Árið 2008 var Emma Marcegaglia fyrsta konan í sögu Confindustria til að vera kjörin formaður samtakanna.
SA og SI eiga aðild að BUSINESSEUROPE ásamt leiðandi atvinnuvegasamtökum í 35 löndum.
Sjá nánar »
BYGGÐAMÁL
Styrkir innviðir forsendur öflugs atvinnulífs og blómlegrar byggðar
Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á að atvinnulífinu séu sköpuð sem best skilyrði um land allt þannig að frumkvæði og kraftur sem í fyrirtækjum og einstaklingum býr fái að njóta sín. Þannig geti atvinnulífið best staðið undir kröfum um aukinn kaupmátt og betri lífskjör. Þetta kom m.a. fram í erindi Péturs Reimarssonar, forstöðumanns hjá SA, á ráðstefnu Byggðastofnunar um stefnumótandi byggðaáætlun 2014-2017. Hann segir styrka innviði forsendur öflugs atvinnulífs og blómlegrar byggðar.
Sjá nánar »
SAMFÉLAGSÁBYRGÐ
Síminn skrifar undir Global Compact
Síminn hf. er nú meðal þeirra fyrirtækja sem ritað hafa undir UN Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja. "Þannig tileinkar Síminn sér tíu viðmið Global Compact um samfélagsábyrgð og mun árlega greina frá árangri sínum í verkefnum þeim tengdum," segir Fanney Karlsdóttir, sérfræðingur Símans í samfélagsábyrgð.
"Með því að skoða og greina það sem við gerum tryggjum við að skuldbinding Símans til samfélagslegrar ábyrgðar verði samfélaginu, viðskiptavinum fyrirtækisins og starfsfólki þess til hagsbóta."
Sjá nánar »
Norræn ráðstefna um samfélagsábyrgð fyrirtækja í Reykjavík í maí
Norræn ráðstefna um samfélagsábyrgð fyrirtækja fer fram í Reykjavík dagana 14.-15. maí nk. Um er að ræða ráðstefnu norrænna fyrirtækja sem hafa skrifað undir Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð.
Samtök atvinnulífsins eru tengiliður á Íslandi við Global Compact en samtök atvinnulífsins á Grænlandi verða einnig gestgjafar á ráðstefnunni ásamt SA. Fulltrúar margra framsæknustu fyrirtækja Norðurlanda munu eiga fulltrúa á ráðstefnunni.
Sjá nánar »
Share with Your Friends