LEIÐARI
150 milljarða spurningin?
"Undangengna tvo áratugi hefur að jafnaði verið rúmlega 5% vaxtamunur milli Íslands og helstu viðskiptalandanna. Að teknu tilliti til verðbólgu hafa raunvextir að jafnaði verið þremur prósentum hærri hér en í viðskiptalöndunum. Þetta samsvarar 150 milljarða króna viðbótar fjármagnskostnaði á hverju ári fyrir íslensk fyrirtæki og heimili." Á þetta bendir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í leiðaranum og segir lykilatriði við mótun peningastefnu til framtíðar hvernig íslenskum fyrirtækjum verði sköpuð samkeppnishæf rekstrarskilyrði.
Í aðildarumsókn Íslands að ESB hafi falist sú framtíðarsýn á peningamálastefnu að stefnt væri að aðild að myntbandalagi Evrópu og upptöku evru. Sé þeirri leið hafnað verði að benda á aðra kosti til að íslensk fyrirtæki búi við sambærileg rekstrarskilyrði og í nágrannalöndunum. Losa verði Íslendinga undan þeim mikla kostnaði sem fylgi krónunni til að hægt sé að bæta lífskjör fólks. Þorsteinn ítrekar að innan SA séu skiptar skoðanir um hvort Ísland eigi að gerast aðili að ESB eða ekki. Samtök atvinnulífsins taki ekki afstöðu til þess en telji rétt að ljúka aðildarviðræðunum með málefnalegri niðurstöðu. Mikilvægasta viðfangsefnið í þessum efnum sé framtíðarskipan peningamála og líkt og í öðrum málum vilji SA eiga góð samskipti við stjórnvöld um þá vinnu sem þar sé framundan.
Sjá nánar »
FRÉTTIR
Íslensk heimili og fyrirtæki bera 150 milljarða aukakostnað árlega vegna hærri raunvaxta en í viðskiptalöndunum
Árið 1995 voru gjaldeyrishöft hér á landi afnumin að loknu aðlögunartímabili en það var ófrávíkjanlegur hluti EES-samningsins. Gjaldeyrishöft höfðu þá verið við lýði í rúma sex áratugi. Tímabil frjálsra fjármagnsflutninga stóð yfir í 13 ár, eða frá 1995 til septemberloka 2008. Á þessu tímabili voru millibankavextir til þriggja mánaða 3,4% að meðaltal í viðskiptalöndum okkar en 8,6% á Íslandi. Þar munar 5,2%.
Sjá nánar »
Verðbólgan undir markmið á ný í fyrsta sinn í tvö og hálft ár
Verðlag hækkaði um 0,67% í febrúar sl. og var hækkunin í takti við spá greiningaraðila.
Ársverðbólgan mælist nú 2,1% og er því komin undir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans í fyrsta skipti í tvö og hálft ár.
Sjá nánar »
Verðbólgumælingin styrkir kjarasamninga
Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, segir í samtali við fréttastofu RÚV jákvætt að verðbólgan sé komin undir verðbólgumarkmið Seðlabankans en verðbólgan hefur ekki mælst minni í þrjú ár. "Þetta styrkir mjög kjarasamningana sem gerðir hafa verið á undanförnum vikum og mánuðum. Þeirra megin markmið var á líta fram á veginn, að við myndum ná verðbólgumarkmiðinu á þessu ári og værum að semja um launahækkanir sem styrktu kaupmáttinn í hægum en öruggum skrefum."
Sjá nánar »
Sterkar skoðanir á aðildarviðræðum Íslands við ESB
Mjög góð þátttaka var í könnun Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja samtakanna um viðhorf stjórnenda þeirra til aðildarviðræðna Íslands við ESB. Aðeins var hægt að svara könnuninni í fjóra sólarhringa, frá hádegi fimmtudagsins 20. febrúar til hádegis mánudagsins 24. febrúar. Alls bárust rúmlega 700 svör og ef litið er til stærðar fyrirtækjanna þá vinna 60% starfsfólks aðildarfyrirtækja SA hjá þeim sem svöruðu.
Sjá nánar »
Menntadagur atvinnulífsins er á mánudaginn!
Samtök atvinnulífsins ásamt SAF, SVÞ, SI, SF, SFF, LÍÚ og Samorku og efna til Menntadags atvinnulífsins mánudaginn 3. mars en þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar ólíkra atvinnugreina halda sameiginlegan menntadag. Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður þar í kastljósinu.
SMELLTU HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞIG
Smelltu á dagskrána og skelltu þér á Menntadag atvinnulífsins.
Yfirmaður menntamála hjá OECD á Menntadegi atvinnulífsins
Mánudagurinn 3. mars 2014 er Menntadagur atvinnulífsins. Þá fer fram áhugaverð ráðstefna á Hilton Reykjavík Nordica um menntun og fræðslu sem nýtist öllu atvinnulífinu.
Sérstakur gestur menntadagsins er Dr. Andreas Schleicher, yfirmaður menntamála hjá Efnahags- og framfarastofnuninni OECD. Mikill fengur er að komu hans til landsins en Schleicher er sérstakur ráðgjafi Angel Gurría, framkvæmdastjóra OECD,á sviði stefnumótunar í menntamálum.
Sjá nánar »
Tilnefningar til Menntaverðlauna atvinnulífsins 2014
Menntaverðlaun atvinnulífsins verða veitt í fyrsta sinn mánudaginn 3. mars á Hilton Reykjavík Nordica til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fjögur fyrirtæki eru tilnefnd sem Menntafyrirtæki ársins og fjögur fyrirtæki eru tilnefnd sem Menntasproti ársins.
Eftirfarandi fyrirtæki eru tilnefnd sem Menntafyrirtæki ársins 2014:
Isavia, Landsbankinn, Rio Tinto Alcan á Ísland og Samskip.
Eftirfarandi fyrirtæki eru tilnefnd sem Menntasproti ársins 2014:
Codland, Landsnet, Leikskólinn Sjáland og Nordic Visitor.
Sjá nánar »
Menntadagurinn í beinni útsendingu
Menntadagur atvinnulífsins verður sendur út í beinni útsendingu í gegnum vef SA. Slóð á útsendinguna verður birt á vefnum kl. 12.30 á mánudaginn og hvetjum við alla áhugasama sem eiga ekki kost á því að mæta á Nordica til að horfa!
Kjarasamningar undirritaðir
Kjarasamningar hafa verið undirritaðir við öll þau stéttarfélög sem felldu kjarasamninginn frá 21. desember 2013, að Verkalýðsfélagi Akraness og Félagi leiðsögumanna undanskildum. Samningarnir byggja á sáttatillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram til lausnar deilunni.
Sjá nánar »
Share with Your Friends