Af vettvangi í desember 2014

SA fréttabréf header
 

Miklu meira aðhalds er þörf

     
 

"Alþingi afgreiddi fjárlög ársins 2015 í vikunni. Gert er ráð að heildarútgjöld ríkissjóðs á árinu verði 650 milljarðar króna og að afgangur á rekstri ríkissjóðs verði 3,5 milljarðar króna. Það yrði annað hallalausa árið í röð, sem er fagnaðarefni þó það beri ekki vitni um aðhald í ríkisfjármálum." Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, í leiðaranum. 

Þorsteinn bendir á að árið 2014 er fjórða árið í röð með ágætan hagvöxt og því hafi tekjur ríkissjóðs aukist um 130 milljarða króna. "Útgjöld ríkissjóðs hafa að sama skapi aukist verulega og eru nærri 90 milljörðum króna hærri en 2012." Þorsteinn segir svo mikla aukningu útgjalda á aðeins þremur árum ekki bera vott um aðhald í ríkisfjármálum.

Sjá nánar 

 


Það er ekki nóg að ríkissjóður sé rekinn hallalaus. Ríkissjóður skuldar 1.500 milljarða króna ...

 

  FRÉTTIR  
 

Tryggingagjald hækkað um milljarða

     
 

Nú hafa fjárlög ársins 2015 verið samþykkt. Þar með er staðfest stefna undanfarinna ára þar sem ríkisvaldið tekur til sín sífellt stærri hluta af tryggingagjaldi, sem lagt er á öll greidd laun í landinu. Gjaldinu er meðal annars ætlað að standa straum af kostnaði vegna atvinnuleysis. Frá 2008 hefur þessi skattur hækkað um 3,015% af launum eða um 30 milljarða króna á ári. Frá síðustu alþingiskosningum er hækkun gjaldsins um 9 milljarðar króna á ári þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi farið minnkandi. Ríkisstjórnin eykur því skattheimtu á atvinnulífið verulega og heldur áfram á sömu braut og fyrri ríkisstjórn sem núverandi stjórnarflokkar gagnrýndu harkalega fyrir skattpíningu.

Sjá nánar

 


Hátt tryggingagjald hefur sérstaklega slæm áhrif á lítil fyrirtæki.

 

 

Menntaverðlaun atvinnulífsins 2015 – óskað eftir tilnefningum

     
 

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 19. febrúar. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála fyrir 19. janúar.

Menntafyrirtæki og menntasproti ársins 2015 verða útnefnd en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

Sjá nánar

 

Menntadagur atvinnulífsins
er 19. febrúar á Hilton Reykjavík Nordica

 

 

Göran Persson á Ársfundi atvinnulífsins 2015

     
 

Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, mun ávarpa Ársfund atvinnulífsins 2015 sem fram fer í Hörpu fimmtudaginn 16. apríl. Yfir 500 manns mættu til fundarins sl. vor en þá var aukin samkeppnishæfni Íslands og leiðir til að bæta lífskjör þjóðarinnar til umfjöllunar. Þar settu Samtök atvinnulífsins fram þá stefnu að Ísland verði meðal 10 samkeppnishæfustu þjóða heims innan 10 ára (10/10).

Persson var bæði menntamálaráðherra og fjármálaráðherra áður en hann varð forsætisráðherra, en hann gegndi því embætti frá 1996 til 2006. Persson var mjög farsæll stjórnmálamaður en hann var fjármálaráðherra þegar Svíar tókust á við sína bankakreppu árið 1992.

Sjá nánar

 

 

  EFNAHAGSSVIÐ SA  

 

Fjárlög 2015: Hefur umfang ríkisins aukist til frambúðar?

     
 

Nýsamþykkt fjáraukalög og fjárlög fyrir árin 2014 og 2015 gefa tilefni til að ætla að stjórnvöld telji nógu langt hafa verið gengið í samdrætti ríkisútgjalda. Gert er ráð fyrir afgangi af rekstri ríkissjóðs en árið 2014 er hann að mestu tilkominn vegna einskiptistekna og árið 2015 er hann hverfandi. Auknum tekjum er mætt með auknum útgjöldum. Þetta kemur fram í nýrri greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Í greiningunni kemur fram að ríkisútgjöld lækkuðu lítið eftir hrun ef frá er talinn einskiptiskostnaður og var halla snúið í afgang að mestu leyti með hækkun skatta. Bæði frumvörp gera ráð fyrir auknum umsvifum ríkisins. Raunar stefnir í að árin 2014 og 2015 verði ríkisútgjöld orðin hærra hlutfall af landsframleiðslu en nokkru sinni fyrir bankahrun.

Sjá nánar

 


 
Með hliðsjón af fyrri reynslu er óábyrgt að haga ríkisfjármálum eins og framtíðin sé fyrirséð, björt og fögur.

 

  SKATTAMÁL  

 

Skattadagurinn 

     
 

Hinn árlegi Skattadagur Deloitte, í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands  verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 13. janúar 2015 kl. 8.30-10.00

Sjá nánar

 


 

  VINNUMARKAÐUR  
 

Minnsta verðbólga í 60 ár

     
 

Verðbólgan hefur farið hjaðnandi frá gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fyrr á árinu og er nú innan við 1%. Verðbólga ársins 2014 verður sú minnsta í 60 ár á Íslandi og verðtryggðar skuldir heimilanna hækka minna á þessu ári en á nokkru ári frá því verðtryggingin var tekin upp fyrir 35 árum. Á þetta benti Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, á fjölmennum félagsfundi SA þar sem rætt var um stöðuna á vinnumarkaði og komandi kjarasamninga.

Sjá nánar

 

 

 

 

Yfirgnæfandi stuðningur þjóðarinnar við efnahagslegan stöðugleika

     
 

Tveir af hverjum þremur sem taka afstöðu styðja áherslu á efnahagslegan stöðugleika í stað þess að leggja áherslu á miklar launahækkanir í næstu kjarasamningum. Þetta kemur fram í könnun Capacent fyrir Samtök atvinnulífsins. Fleiri telja að svigrúm til launahækkana sé lítið en að það sé mikið. Tveggja ára kjarasamninga njóta mests stuðnings. Yfirgnæfandi meirihluti hefur áhyggjur af mikilli verðbólgu. Þá telur meirihluti að kaupmáttur launa sinna hafi minnkað þrátt fyrir óvenju mikla kaupmáttaraukningu á árinu.

Sjá nánar

 



 

  EFNAHAGSLÍFIÐ  
 

Verðbólguvæntingar stjórnenda minnka

     
 

Fleiri stjórnendur telja að aðstæður í atvinnulífinu séu góðar en slæmar samkvæmt könnun Capacent meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins. Tæplega helmingur stjórnenda telur að aðstæður batni á næstu sex mánuðum og álíka stór hópur telur þær verða óbreyttar. Nægt framboð er af starfsfólki en helst skortir starfsmenn í iðnaði og byggingarstarfsemi. Stjórnendur gera ráð fyrir fremur lítilli fjölgun starfsmanna næstu sex mánuði. Að jafnaði vænta stjórnendur 2,5% verðbólgu næstu 12 mánuði og hafa verðbólguvæntingar þeirra ekki verið minni síðastliðin  fjögur ár

Sjá nánar

 



 

 

Jákvæð lækkun stýrivaxta

     
 

Seðlabankinn tilkynnti í desember um 0,5 prósenta lækkun stýrivaxta bankans. Þetta er jákvætt skref sem mun koma fyrirtækjum og heimilum til góða en þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem bankinn lækkar vexti. Lækkunin er í takt við hagstæða verðbólguþróun á árinu en verðbólgan hefur farið hjaðnandi frá gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fyrr á árinu. 

Sjá nánar

 



 

  MENNTAMÁL  

 

Barbapabbi og menntakerfið

     
 

Menntakerfið er í sífelldri þróun þótt mörgum finnist það ekki slá taktinn nægilega fast í samræmi við þarfir einstaklinga, umhverfi og samfélag. Það hefur hins vegar mikið vatn runnið til sjávar frá því að elstu menntaskólar landsins voru í raun starfsmenntastofnanir líkt og Dr. Jón Torfi Jónasson hefur bent á. Í upphafi var menntun þar til að undirbúa starfsmenntun þeirra sem þá var talin mest þörf fyrir, presta og lækna og lögfræðinga.

Sjá nánar

 



 

 

Ert þú búin(n) að taka samtalið?

     
 

Þær eru margar ræðurnar sem haldnar hafa verið um mikilvægi iðn- og verknáms fyrir einstaklinga, fyrirtæki og samfélag. Er umhugsunarefni hvað veldur að orðin breytast ekki í athafnir. Of fáir sækjast eftir starfsmenntun og enn færri ljúka námi en brotthvarf nemenda er mikið innan iðn- og verkgreina. Þar kemur margt til, meðal annars að ekki er búið að tryggja nemendum starfsnám á vinnustað

Sjá nánar

 



 

  UMSAGNIR TIL ALÞINGIS  

 

Flutningur raforku til heimila og fyrirtækja gæti hækkað um 50%

     
 

Samtök atvinnulífsins hafa sent Alþingi umsagnir um þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og lagafrumvarps um kerfisáætlun við lagningu raflína. Málin eru tengd og varða uppbyggingu raforkukerfisins hér á landi til langs tíma.

Bent er á að verði heimilað að jarðstrengir megi verða 50% dýrari en loftlínur geti heildarhækkun gjaldskrár á flutningi raforku til almennra fyrirtækja og heimila orðið um 50% og um 36% til stórnotenda.

Sjá nánar

 


 

  NÝSKÖPUN  

 

Samtök atvinnulífsins bakhjarl Gulleggsins

     
 

Samtök atvinnulífsins og Klak Innovit hafa skrifað undir samstarfssamning um að SA verði einn af bakhjörlum Gulleggsins sem er frumkvöðlakeppni Klak Innovit. Keppnin er haldin að fyrirmynd MIT háskóla í Bandaríkjunum og VentureCup á Norðurlöndunum. Meginmarkmið keppninnar er að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja

Sjá nánar

 


 

Samtök atvinnulífsins | Borgartúni 35 | IS-105 Reykjavík | Sími: 591 0000 | Netfang: sa@sa.is

Email Marketing af Outcome frttabrf
[ + ] [ + ]