Af vettvangi í febrúar 2017

SA fréttabréf header
 

Kaupmáttaraukning heils áratugar tekin út á einu ári

     
 

"Frá því að skrifað var undir kjarasamninga í maí 2015 hefur kaupmáttur aukist um 15%. Það er fáheyrt því í áratugi hefur kaupmáttur launa að jafnaði aukist um 1,0 - 1,5% á ári sem er nokkurn veginn takt við aukningu framleiðni. Á þessu rúma eina og hálfu ári sem liðið er af samningstímanum hefur kaupmáttur launa aukist tífalt meira en að jafnaði mætti búast við. Ástæðan? Styrking krónunnar."

Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, m.a. í leiðara nýs fréttabréfs samtakanna.

Sjá nánar

 

Frá gerð kjarasamninganna í maí 2015 hefur meðalgengi krónunnar styrkst um 25%.

 

  FRÉTTIR  
 

Kjarasamningar halda gildi sínu

     
 

Þrátt fyrir að ein af þremur forsendum kjarasamninga SA og aðildarsamtaka ASÍ hafi brostið varð niðurstaða aðila sú 28. febrúar að fresta viðbrögðum vegna forsendubrests þar til í febrúar 2018. Kjarasamningum aðila verður því ekki sagt upp að þessu sinni.

Sjá nánar

   

 

Ársfundur atvinnulífsins 2017 – tryggðu þér sæti

     
 

Ársfundur atvinnulífsins 2017 verður haldinn miðvikudaginn 29. mars í Hörpu. Mikill áhugi er á fundinum en sérstakur gestur fundarins er aðalritstjóri tímaritsins Economist sem mun fjalla um stöðu efnahagsmála á alþjóðlegum vettvangi og horfurnar framundan. Zanny  Minton Beddoes er sautjándi ritstjóri Economist og fyrsta konan til að gegna stöðunni í 174 ára sögu blaðsins.

Sjá nánar

 

 

 

Auglýst eftir stjórnarmönnum 

     
 

Leitað er eftir einstaklingum með fjölbreytta reynslu og þekkingu m.a. á lífeyrismálum, stjórnun, stefnumótun, áætlanagerð og reikningshaldi, lögfræðilegum málefnum og fjármálamarkaði.

Sjá nánar

   

 

Hvað segir Google um Ísland?

     
 

Á morgunverðarfundi Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins og Samtaka atvinnulífsin verður kynntur til sögunnar sá Íslendingur sem þekkir hvað best til nýsköpunar tæknirisanna Google og Apple.

Guðmundur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá Google Assistant, mun lýsa því nýsköpunarumhverfi sem hann býr við hjá Google í Kísildalnum í Kaliforníu og hvað Íslendingar geta gert betur. Jafnframt rýnir hann í áskoranir Íslands gagnvart þeirri tæknibyltingu sem stendur yfir á sviði raddstýringar alls kyns tækja og tóla.

Sjá nánar

 

 

 

Hvatning til fjárfestinga?

     
 

Á síðasta ári samþykkti mikill meirihluti þingmanna lög til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti. Flækjustig laganna er hátt en þau þarf að einfalda til að þau nái markmiði sínu.

Ef forsendur vegna ívilnana breytast geta fjárfestar sætt refsingu t.d. að endurgreiða skattafrádrátt vegna þess að fyrirtækið vex of hratt. Tilgangur laganna er einmitt að gera sprotafyrirtækjum kleift að fá inn fjármagn til að vaxa og dafna og það er mótsagnakennt að refsa þeim sem njóta velgengni. Ef ekkert er að gert er hætta á að nýsköpunarfyrirtæki leita út fyrir landsteinana í staðinn fyrir að byggja upp starfsemi sína hér á landi.

Sjá nánar

   

 

Umræðufundur með umhverfis- og auðlindaráðherra

     
 

Fundaröðin Umhverfi og atvinnulíf heldur áfram miðvikudaginn 15. mars 2017. Sérstakur gestur er Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra. Björt mun ræða áherslumál sín og helstu verkefni ráðuneytisins auk þess að svara fyrirspurnum. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA setur fundinn.

Skráning á vef SA

   

 

Íslendingar eru forystuþjóð í jafnréttismálum

     
 

Íslendingar eru í forystu þegar kemur að jafnrétti, en það er hægt að gera betur. Margar og ólíkar skoðanir eru á því hvernig það er hægt en í bókinni Forystuþjóð eru málin skoðuð frá ýmsum sjónarhornum.

Um er að ræða viðtalsbók sem Edda Hermannsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir gefa út í samstarfi við Samtök atvinnulífsins. 

Sjá nánar á Facebook

   

  VINNUMARKAÐUR  

 

Er betur heima setið?

     
 

Öll getum við verið sammála um að launamunur vegna kynferðis á ekki að líðast á Íslandi. Ef grunur leikur á að hann sé til staðar þá getum við verið ósammála um leiðirnar sem taka á þeim vanda. Til stendur að leggja fram frumvarp um lögfestingu jafnlaunastaðalsins en í því felst að ríflega 1.200 fyrirtæki verða skikkuð til að taka upp vinnubrögð sem krafist er í staðlinum. Engin önnur þjóð hefur farið þessa leið og hvergi í heiminum eru staðlar lögfestir.

Sjá nánar

 

Jafnlaunavottun innan fyrirtækja mun engin áhrif hafa á kynbundinn vinnumarkað og einungis skapa aukinn kostnað

 

 

Óþekk(t)i embættismaðurinn

     
 

Við Reykjavíkurtjörn horfir óþekkti embættismaðurinn í verki Magnúsar Tómassonar yfir fuglagerið með skjalatösku í annarri hendi. Hann er í þungum þönkum, áhyggjufullur og íhugar um þessar mundir óheillaþróun launa æðstu embættismanna ríkisins. Hann áttar sig á því að úrskurður kjararáðs um laun æðstu embættismanna ríkisins veldur því að landsmenn allir vildu gjarnan fá sömu launhækkanir. Hann hugsar sinn gang enda veit hann að hið opinbera er leiðandi í launaþróun í landinu.

Sjá nánar

 

Mynd Viðskiptablaðið

 

  MENNTADAGUR ATVINNULÍFSINS  

 

Upptökur frá menntadegi atvinnulífsins 2017

     
 

Menntadagur atvinnulífsins 2017 fór fram á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 2. febrúar. Máltækni og framtíð íslenskunnar í stafrænum heimi var í kastljósinu en yfir 300 manns úr atvinnulífi, stjórnmálum og menntakerfinu tóku þátt. Tungumálið er í hættu vegna nýrrar tækni en fólk mun nota röddina í auknum mæli til að stýra hvers kyns tækjum og tólum á næstu árum en vandinn er sá að tækin skilja ekki íslensku.

Sjá nánar

 

Horfðu á svipmyndir frá deginum í Sjónvarpi atvinnulífsins

 

 

Alcoa Fjarðaál er menntafyrirtæki ársins 2017

     
 

Alcoa Fjarðaál er menntafyrirtæki ársins 2017. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti  menntaverðlaun atvinnulífsins á menntadegi atvinnulífsins sem haldinn var í fjórða sinn á Hilton Reykjavík Nordica. Fjarðaál á Reyðarfirði er stærsta iðnfyrirtæki landsins en þar vinna um 530 starfsmenn auk fjölda verktaka.

Sjá nánar

   

 

Keilir er menntasproti ársins 2017

     
 

Keilir – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, er menntasproti ársins 2017. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin. Keilir var stofnaður árið 2007 og starfar á Ásbrú í Reykjanesbæ á gamla varnarsvæði Bandaríska hersins. Keilir er alhliða menntafyrirtæki í eigu háskóla, fyrirtækja og almannasamtaka. Á aðeins tíu árum hefur tekist að breyta yfirgefinni herstöð í þekkingarþorp.

Sjá nánar

   

 

Fer lyklaborðið sömu leið og telexið og vídeótækin?

     
 

Formaður Samtaka atvinnulífsins, Björgólfur Jóhannsson, flutti opnunarerindi á Menntadegi atvinnulífsins þar sem hann fjallaði um máltækni og atvinnulífið og hvernig styrkja þarf innviði til að tæki og tól skilji íslensku, bæði skrifað og mælt mál.

"Máltækni er svið sem er dæmigert fyrir svokallaðan markaðsbrest það er ekkert eitt fyrirtæki og engin ein stofnun er í stakk búin til að ráðast í þetta umfangsmikla verkefni. Það mun taka tíma að komast jafnfætis öðrum þjóðum og það mun kosta samfélagið töluvert fé."

Sjá nánar

 

Tungumál tækjanna er í flestum tilvikum enska ...

 

 

Á íslensku má alltaf finna svar

     
 

"Á íslensku má alltaf finna svar ... var ort. Og líkast til er það alveg hárrétt, en sennilega ekkert einstakt eða stórmerkilegt ef grannt er skoðað. Ætla má að þetta gildi líka um flest önnur tungumál, sennilega öll.

Ég skildi að orð er á Íslandi til,

um allt sem er hugsað á jörðu.

Svo kvað Einar Benediktsson um móður sína og mál hennar og sitt, móðurmálið. Það er líka alveg áreiðanlega hárrétt."

Sjá nánar

 

... en hvað ef ekki er lengur hægt að spyrja á íslensku? Fær maður þá nokkurt svar yfirleitt?

 

  ERLEND FJÁRFESTING  
 

Erlend fjárfesting jákvæð fyrir Íslendinga

     
 

Á undanförnum árum hefur erlend fjárfesting á Íslandi aukist og skapað fjölbreytt störf í ólíkum atvinnugreinum. Gera þarf betur því aukin erlend fjárfesting styrkir efnahagslífið og bætir lífskjör landsmanna. Þetta kom fram á opnum fundi Samtaka iðnaðarins, Íslandsstofu og Samtaka atvinnulífsins þar sem leitað var svara við því hvort erlend fjárfesting væri böl eða blessun?

A.m.k. 6.500 starfsmenn  starfa í dag fyrir fyrirtæki á Íslandi sem eru í erlendri eigu. Þrátt fyrir að erlend fjárfesting hafi aukist eru Íslendingar eftirbátar nágrannaþjóðanna og mikilvægt að bregðast við og skapa hér samkeppnishæft og eftirsóknarvert rekstrarumhverfi sem getur laðað að erlent fjármagn.

Sjá nánar

 


Ávinningurinn snýst um þekkingu, tengsl og framfarir sem streyma inn í atvinnulífið með auknu samstarfi og samvinnu við alþjóðleg fyrirtæki og fjárfesta

 

 

Erlend fjárfesting styrkir stöðu Íslands og bætir lífskjör

     
 

Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins kynnti nýja greiningu um erlenda fjárfestingum á fundinum. Helstu niðurstöður greiningarinnar má nálgast á vef SA ásamt greiningunni í heild sem Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður sviðsins kynnti.

Eftir miklu er að slægjast en Ásdís tók dæmi af íslensku fyrirtæki sem flokkast sem erlend fjárfesting. 90 krónur af hverri 100 króna veltu verður eftir í landinu aðeins 10 krónur fara úr landi sem arður. Virðisaukinn af fjárfestingunni verður að mestu leyti eftir í formi launa, fjárfestinga, kaupa á innlendum aðföngum auk skatta og gjalda.

Sjá nánar

   

  DAGATAL ATVINNULÍFSINS  

 

Ársfundir framundan ...

     
 

2. mars
Opinn ársfundur Samorku. Harpa – Norðurljós kl. 15-17.

9. mars
Iðnþing 2017. Harpa - Silfurberg kl. 14-16.30.

16. mars
Ferðaþjónustudagurinn 2017. Harpa kl. 14-16.

23. mars
Ársfundur SVÞ 2017. Hilton Reykjavík Nordica kl. 14-16.

29. mars
Ársfundur atvinnulífsins 2017. Harpa - Silfurberg kl. 14-16.


   

  EFNAHAGSLÍFIÐ  

 

Vonbrigði með vaxtaákvörðun

     
 

Á vaxtaákvörðunarfundi 8. febrúar tilkynnti peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands  óbreytta stýrivexti. Ákvörðunin kom á óvart. Ekki síst vegna þess að vextir voru lækkaðir á síðasta fundi nefndarinnar og horfurnar hafa batnað síðan. 

Batnandi verðbólguhorfur og minnkandi verðbólguvæntingar markaðsaðila eru einar og sér gild rök fyrir vaxtalækkun. Við bætist hverfandi útlánavöxtur og aukinn þjóðhagslegur sparnaður.

Sjá nánar

Tengt efni:

Hljóð og mynd verða að fara saman hjá Seðlabankanum

   

 

Er ábyrgt að treysta á eitt lengsta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar?

     
 

Nýleg fjármálastefna gerir ráð fyrir afgangi á rekstri hins opinbera, en verulega takmörkuðum og nánast innan skekkjumarka. Sést það t.a.m. á því hversu lítið má út af bregða í tekjuáætlunum hins opinbera til þess að sá litli afgangur sem fyrirhugaður er á næstu árum snúist í umtalsverðan halla. Er það sérstaklega mikið áhyggjuefni vegna þeirrar alvarlegu skuldastöðu sem enn blasir við en opinberar skuldir eru tvöfalt hærri nú en þær voru í aðdraganda bankakreppunnar síðustu.

Þetta kemur fram í greiningu efnahagssviðs SA

   

  UMHVERFISMÁL  

 

Kuðungurinn – tilnefningar óskast

   
 

Úthlutunarnefnd á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins óskar eftir tilnefningum um fyrirtæki eða stofnun, sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári, er þess verðug að hljóta umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn fyrir árið 2016. Óskað er eftir því að stutt greinargerð fylgi með tilnefningunni. Fyrirtæki og stofnanir geta hvort heldur tilnefnt sig sjálf eða verið tilnefnd af öðrum.

Sjá nánar

   

  SAMFÉLAGSÁBYRGÐ  

 

Ráðstefna hjá Volvo í Gautaborg

     
 

Fyrirtæki á Norðurlöndum sem hafa skrifað undir Global Compact - sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð eiga stefnumót í höfuðstöðvum Volvo í Gautaborg 8.-9. maí.  Yfirskrift ráðstefnunnar er The Changing Role of Business en hún er opin fyrirtækjum sem hafa skrifað undir sáttmálann og eru aðilar að norrænu tengslaneti Global Compact. 

Netið skipuleggur tvær ráðstefnur á hverju ári þar sem stjórnendur framsækinna fyrirtækja miðla ráðum og reynslusögum en ráðstefnan verður haldin á Íslandi næsta haust. Samtök atvinnulífsins eru tengiliður Íslands við Global Compact.

Vefur Global Compact

 

 

 

Árangur og ábyrg fyrirtæki

     
 

Árleg ráðstefna Festu og SA um samfélagsábyrgð fyrirtækja fór fram í Hörpu undir lok janúar. Ráðstefnan var fjölsótt og heppnaðist vel en sérstakur gestur ráðstefnunnar var Georg Kell fyrsti framkvæmdastjóri Global Compact – sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, setti ráðstefnuna fyrir hönd samtakanna og sagði frá auknum áhuga íslenskra fyrirtækja á því að taka samfélagsábyrgð föstum tökum með því að skrifa undir Global Compact. 

Samantekt á vef Festu

 

SA eru tengiliður Íslands við Global Compact - sáttmála S.Þ. um samfélagsábyrgð

 

  SJÓNVARP ATVINNULÍFSINS  

 

Allir sérfræðingar hjá Fjarðaáli

     
 

Hjá Fjarðaáli er metnaður er lagður í menntun, þjálfun og fræðslu starfsfólks á hverjum degi. Fyrirtækið rekur stóriðjuskóla sem er samstarfsverkefni Fjarðaáls, Austurbrúar og Verkmenntaskóla Austurlands en um 50 nemendur stunda nám við skólann á hverjum tíma. Innan Fjarðaáls starfar fjölbreyttur hópur starfsmanna sem eru allir sérfræðingar á sínu sviði. 

Alcoa Fjarðaál og sveitarfélagið Fjarðabyggð  hafa á undanförnum árum unnið að því að efla áhuga ungs fólks á Austfjörðum á verk- og tæknimenntun. Verkefnið heppnaðist mjög vel en fjöldi þeirra sem völdu verk- og tækninám að loknum grunnskóla tvöfaldaðist á aðeins þremur árum. Eitthvað sem atvinnulífið hefur lengi kallað eftir.

Kveiktu á varpinu


 

 

 

Flippuð kennsla hjá Keili

     
 

Á aðeins tíu árum hefur tekist að breyta yfirgefinni herstöð í þekkingarþorp á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þar hefur Keilir lyft grettistaki, innleitt nýjar hugmyndir og kennsluhætti og lagt sig fram um að hlusta á þarfir atvinnulífsins og mennta starfsfólk sem eftirspurn er eftir þegar námi lýkur. Hlutfall háskólamenntaðra íbúa í Reykjanesbæ sem eru eldri en 25 ára hefur meira en tvöfaldast frá 2007 og 85% þeirra sem ljúka námi við Háskólabrú Keilis halda áfram í háskóla en margir þeirra hafa flosnað upp úr hefðbundnu háskólanámi.

Kveiktu á varpinu

 

 

  SAMFÉLAGSMIÐLAR  

 

Fylgdu SA á Twitter og Facebook @atvinnulifid

     
 

Samtök atvinnulífsins stigu inn á samfélagsmiðlana í upphafi ársins þar sem eru sagðar fréttir af atvinnulífinu og birtar ýmsar áhugaverðar upplýsingar. Þar er einnig fjallað um fundi og ráðstefnur SA. Verum í sambandi og sjáumst á vefnum @atvinnulifid.

SA á Facebook

SA á Twitter

   

Samtök atvinnulífsins | Borgartúni 35 | IS-105 Reykjavík | Sími: 591 0000 | Netfang: sa@sa.
Email Marketing af Outcome frttabrf
[ + ] [ + ]