Af vettvangi í júní 2016

SA fréttabréf header
 

Áfram Ísland

     
 

Langflest fyrirtæki á Íslandi eru lítil eða örsmá. Þau mynda hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi. Þau byggja á því að veita þjónustu, framleiða vörur og uppfylla þarfir sem eigendur þeirra hafa komið auga á. Reksturinn gengur út á að gera sífellt betur og að tekjur séu umfram kostnað. Að því leyti eiga litlu fyrirtækin margt sameiginlegt með heimilunum þar sem ráðdeild, hagsýni og hugkvæmni skila fjölskyldunum smám saman ábata.

Íslenskt efnahagslíf er smám saman að jafna sig eftir hrunið 2008. Fyrirtækjum hefur fjölgað, umsvifin aukist, rekstur þeirra batnað og skuldir lækkað. Það á stóran þátt í því að laun hafa hækkað umfram verðlag og með öðru ýtt undir betri afkomu heimilanna.

Sjá nánar

 

Árangur
samfélagsins er árangur heildarinnar

 

  FRÉTTIR  
 

Mótframlag í lífeyrissjóði hækkar um 3,5% til 2018

     
 

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa gert með sér samkomulag um hækkun  á framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði. Mótframlag hækkar um 3,5% í þremur áföngum til 2018 en gengið var frá samkomulaginu í dag.

  • 1. júlí 2016 hækkar mótframlag atvinnurekenda um 0,5% stig
  • 1. júlí 2017 hækkar mótframlag atvinnurekenda um 1,5% stig
  • 1. júlí 2018 hækkar mótframlag atvinnurekenda um 1,5% stig
     
  • Hækkun um 0,5% þann 1. júlí nk. mun renna í samtryggingu sjóðsfélaga
  • Frá 1. júlí 2017 getur fólk ráðstafað allt að 2% stigum í bundinn séreignarsparnað
  • Frá 1. júlí 2018 getur fólk ráðstafað allt að 3,5% stigum í bundinn séreignarsparnað

Sjá nánar

   

  LITLA ÍSLAND  

 

Stóra lausnin er smá

     
 

Litla Ísland er vettvangur þar sem smá fyrirtæki vinna saman óháð atvinnugreinum. Litla Ísland efndi til vel heppnaðrar fundaraðar í maí og júní um farsælan rekstur lítilla fyrirtækja. Nokkrir lykilþættir einkenna vel rekin fyrirtæki en fjallað var um bókhald, markaðsmál, markmið, samninga- og starfsmannamál  og skipulag. 

Góðir gestir fluttu fræðandi fyrirlestra og stjórnendur og eigendur lítilla fyrirtækja tóku þátt í kraumandi umræðum en fundirnir fóru fram í Kviku í Húsi atvinnulífsins. Inga Jóna Óskarsdóttir frá Bókhaldi og kennslu, Þóranna K. Jónsdóttir frá Markaðsmálum, Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir hjá Attentus, Símon Þorleifsson frá Capacent, Inga Björg Hjaltadóttir frá Attentus og Thomas Möller  frá Ofnasmiðjunni Rými fluttu stórskemmtileg erindi. Litla Ísland þakkar fyrirlesurunum kærlega fyrir en Litla Ísland mun taka upp þráðinn á ný næsta haust – gleðilegt sumar!

   

  EFNAHAGSMÁL  

 

Þjóðhagsráð kemur saman

     
 

Fulltrúar ríkisstjórnar Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands komu saman á fyrsta fundi Þjóðhagsráðs í júní. Stofnun Þjóðhagsráðs er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí í fyrra, en hún var gefin út til að greiða fyrir gerð kjarasamninga. Einnig er kveðið á um stofnun Þjóðhagsráðs í rammasamkomulagi aðila á vinnumarkaði frá því í október. Forsætisráðherra stýrir fundum Þjóðhagsráðs.

Sjá nánar

 

Markmið Þjóðhagsráðs er að styrkja samhæfingu hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði.  

 

 

Af hverju sitja bara karlar við borðið?

     
 

Eins og glöggt má sjá á myndinni hér að ofan sátu eingöngu karlar við borðið á fyrsta fundi Þjóðhagsráðs.  Að því tilefni beindi Jafnréttisstofa fyrirspurn til forsætisráðuneytisins um hvernig staðið var að tilnefningum og skipan í Þjóðhagsráð og hvort og hvernig skipan ráðsins samrýmdist ákvæðum jafnréttislaga.  

Í svari forsætisráherra segir að forsætisráðherra hvorki skipi né óski eftir tilnefningum í Þjóðhagsráð. Þjóðhagsráðið sé samstarfsverkefni en ekki ráð sem skipað er af ráðherra. Stjórnvöld hafi einungis með höndum hluta hagstjórnar, þ.e. ákvarðanir um opinber fjármál, en Þjóðhagsráði sé ætlað að vera vettvangur umræðu um samspil ólíkra þátta hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði. Í Þjóðhagsráði sitji forsvarsmenn  ráðuneyta, stofnana og samtaka stöðu sinnar vegna. Skipting kynja í Þjóðhagsráði til framtíðar muni fara eftir því hvaða einstaklingar komi til með að fara fyrir þeim samtökum, stofnunum og ráðuneytum sem aðild eigi að ráðinu.

Sjá bréf forsætisráðherra til Jafnréttisstofu

 

Gerist fjögur heildarsamtök launafólks aðilar að Þjóðhagsráði yrðu við núverandi stöðu tvær konur í níu manna Þjóðhagsráði.

 

 

Trúverðugleiki peningastefnunnar bíður hnekki

     
 

Þann 2. júní síðastliðinn samþykkti Alþingi breytingar á lögum um gjaldeyrismál sem veita Seðlabanka Íslands víðtækar heimildir til að hefta innflæði fjármagns til landsins. Breytingunum er beint gegn svonefndum vaxtamunarviðskiptum og eru liður í undirbúningi stjórnvalda fyrir afnám hafta á gjaldeyrisútflæði sem verið hafa við lýði undangengin átta ár. Breytingunum fylgja viðamiklar og fordæmalausar valdheimildir Seðlabanka, sem er sjálfstætt áhyggjuefni.

Sjá nánar


 



Þvert á tilætluð áhrifa vaxtahækkana eykur styrking krónunnar kaupgetu almennings og ýtir enn frekar undir þenslu.

 

 

Stjórnendur 400 stærstu: Góðar aðstæður verða enn betri

     
 

Niðurstöður könnunar Gallup meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins endurspeglar góðar aðstæður í atvinnulífinu. Stjórnendur eru almennt sammála um að staðan í atvinnulífinu verði jafngóð eða betri eftir sex mánuði. Stjórnendur búast við mikilli aukningu eftirspurnar innanlands en einnig erlendis frá. Þeir búast við 3,0% verðbólgu á næstu 12 mánuðum sem er athyglisvert í ljósi þess að spár opinberra aðila gera ráð fyrir að hún verði 4%. Niðurstöður voru birtar 2. júní.

Sjá nánar

   

  EFNAHAGSSVIÐ SA  

 

Stefna ríkisins til næstu fimm ára: Áskorun í uppsveiflu

     
 

"Við upplifum nú sterka uppsveiflu í efnahagslífinu. Íslenska hagkerfið hefur vaxið hratt frá árinu 2011 og gangi hagspár eftir verður áframhaldandi vöxtur á komandi árum. Þó eðli máls samkvæmt sé auðveldara að reka ríkissjóð á tímum góðæris en á tímum samdráttar þá fylgja betri tímum einnig áskoranir." Þetta segir m.a. í nýrri umfjöllun efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins sem birt var 1. júní.

Sjá nánar

 


Hið opinbera er umsvifamikið í íslensku hagkerfi og tekur til sín stærri hluta verðmæta-sköpunar en gengur og gerist í flestum öðrum þróuðum ríkjum.

 

  VINNUMARKAÐUR  

 

Samið verði við flugumferðarstjóra fyrir 24. júní

     
 

Ríkisstjórnin samþykkti í síðustu viku að skipa gerðardóm til að útkljá kjaradeilu Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Isavia hafi aðilar ekki náð samningum 24. júní næstkomandi. Alþingi samþykkti lagafrumvarp þess efnis miðvikudaginn 8. júní. Það felur í sér að verkfallsaðgerðir Félags íslenskra flugumferðarstjóra gagnvart Isavia svo og aðrar vinnustöðvanir eða aðgerðir til að knýja fram kjarasamning eru óheimilar.

Sjá nánar

   

 

Tryggingagjald lækki í samræmi við samkomulag

     
 

Að óbreyttu mun tryggingagjald ekki lækka í ársbyrjun 2017 eins og til stóð og samkomulag var um. Samtök atvinnulífsins trúa ekki öðru en að stjórnvöld standi við fyrirheit sín og að lækkun á tryggingagjaldi verði bundin í lög á þessu ári og taki gildi um næstu áramót. Gjaldið er mun hærra en það ætti að vera þar sem atvinnuleysi hefur minnkað hratt. Tryggingagjald kemur harðast niður á litlum og meðalstórum fyrirtækjum og takmarkar nýsköpun. Því er  brýnt að það lækki þar sem góðar aðstæður í efnahagslífinu bjóða upp á það.

Sjá nánar

 

  SÍÐAST EN EKKI SÍST  

 

TEDxReykjavík 2016

     
 

Samtök atvinnulífsins eru bakhjarl  TEDxReykjavík sem haldinn var í sjötta skipti laugardaginn 28. maí. Á viðburðinum gafst þátttakendum tækifæri til að heyra erindi áhugaverðra hugsuða, frumkvöðla og listafólks. 

Í ár var kastljósinu beint að hugmyndum sem hafa gefist vel á heimavelli og gætu virkað vel á útivelli, þ.e. hugmyndum sem eiga sér uppsprettu á Íslandi, en geta haft áhrif utan landsteinanna. Upptökur frá erindunum eru nú aðgengilegar á vefnum.

Sjá nánar á Facebook-síðu TEDxReykjavík

   

Samtök atvinnulífsins | Borgartúni 35 | IS-105 Reykjavík | Sími: 591 0000 | Netfang: sa@sa.is
Email Marketing af Outcome frttabrf