LEIÐARI
Verðmæt framlög Reykjavíkurborgar og hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar
"Borgarráð Reykjavíkurborgar ákvað í dag að hætta við áformaðar hækkanir á gjaldskrám sem taka áttu gildi um næstu áramót. Hætt verður við hækkanir á gjaldskrám vegna leikskóla, skólamáltíða, frístundaheimila, bókasafnsskírteina, sundlaugakorta og þjónustu velferðarsviðs. Áformaðar hækkanir borgarinnar, og sambærilegar hækkanir annarra sveitarfélaga, hefðu hækkað vísitölu neysluverðs um allt að 0,2% um næstu áramót.
Ákvörðunin er tekin eftir viðræður forystumanna borgarinnar og aðila vinnumarkaðarins þar sem kallað var eftir því að borgin styddi við tilraunir til þess að skapa víðtæka samstöðu samningsaðila á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga um það meginmarkmið að kveða niður verðbólgu og stuðla að stöðugu verðlagi. Ákvörðun borgarinnar er eðlilega tekin með þeim fyrirvara að náist ekki sá árangur sem að er stefnt muni Reykjavíkurborg taka gjaldskrár til endurskoðunar á síðari hluta árs 2014.
Frumkvæði Reykjavíkurborgar er stórt framlag til komandi kjarasamninga og mikilvægt fordæmi fyrir önnur sveitarfélög. Næsta skref í þessu ferli er að ríkisstjórnin endurskoði áform um gjaldahækkanir í fjárlagafrumvarpi og um hækkanir ríkisstofnana á gjaldskrám sínum."
Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, m.a. í leiðaranum.
Sjá nánar »
FRÉTTIR
Er hin fullkomna manneskja hálfur Svíi og hálfur Íslendingur?
Hlutfallslega fleiri Íslendingar en Svíar stofna eigið fyrirtæki um ævina og meiri frumkvöðlakraftur virðist búa í ungum Íslendingum en Svíum. Íslendingar eru mjög jákvæðir í garð lítilla fyrirtækja líkt og Svíar. Slæmu fréttirnar fyrir Íslendinga eru þær að það er mat almennings í Svíþjóð að viðskiptaumhverfið þar í landi sé mun hagstæðara en á Íslandi og að tækifæri ungra Svía til að hasla sér völl í stórum fyrirtækjum sem starfa út um allan heim eru meiri en Íslendinga.
Svíar hafa líka sýnt meiri hugkvæmni í að nýta kosti einkareksturs í opinberri þjónustu. Kannski gætu þjóðirnar lært hvor af annarri?
Sjá nánar »
Verkefnamiðlun tengir fyrirtæki og nemendur
Á hverju ári leita hundruð háskólanemenda að spennandi og hagnýtum lokaverkefnum. Til að auðvelda leitina hafa Samstök atvinnulífsins skrifað undir samstarfssamning við Íslenska sjávarklasann um að taka þátt í að byggja upp hugmyndabanka um lokaverkefni á vefnum. Þar geta fyrirtæki sett inn verkefni sem þau vilja gjarnan láta vinna og nemendur komist í bein tengsl við fyrirtæki sem þau hafa áhuga á að vinna fyrir.
Sjá nánar »
Stefnumót Litla Íslands 20. nóvember
Litla Ísland efnir til stefnumóts, miðvikudaginn 20. nóvember kl. 8.30-10 á Grand Hótel Reykjavík, til að fylgja eftir Smáþingi sem haldið var þann 10. október 2013. Taktu því tímann frá og skráðu þig til leiks en á þessum opna vinnufundi verða teknar ákvarðanir um helstu áherslur og markmið í starfi Litla Íslands - nýs vettvangs þar sem lítil fyrirtæki vinna saman óháð atvinnugreinum. Ljóst er að hlúa þarf vel að þessum fyrirtækjum því tækifærin eru mikil ef þau fá að blómstra. Þannig sýnir könnun Samtaka atvinnulífsins sem birt var á Smáþingi að lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi áforma fjölgun um 17.500 störf næstu 3-5 árin. Lítil fyrirtæki með allt að 50 starfsmenn áforma fjölgun um 14 þúsund störf og munar um minna.
Sjá nánar »
Betri lífskjör á Facebook
Samtök atvinnulífsins hafa opnað nýjan vettvang á Facebook þar sem er að finna hugmyndir og tillögur að því hvernig fólk og fyrirtæki geta bætt lífskjör á Íslandi.
SA hvetja áhugasama um bætt lífskjör að slást í hópinn.
Betri lífskjör á Facebook
VINNUMARKAÐURINN
Formaður SA: Við eigum val
Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á að gerðir verðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði til eins árs og að í þeim felist upphaf nýs stöðugleikatímabils þar sem áhersla verði lögð á að stilla saman strengi og væntingar allra aðila. Í kjölfarið fylgi svo samningar til lengri tíma þar sem kjarabætur og kaupmáttaraukning byggi á aukinni verðmætasköpun atvinnulífsins, útflutningstekjum, betri samkeppnishæfni og almennum stöðugleika í efnahagsmálum. Þessu fylgir aukin fjárfesting í atvinnulífinu, hagvöxtur og smám saman batna lífskjör almennings og nálgast að nýju þau sem best gerast í samkeppnislöndunum.
Sjá nánar »
Besta leiðin er fær
Á fjölmennum félagsfundi Samtaka atvinnulífsins sem fram fór 7. nóvember ríkti mikill einhugur um að fara þá leið sem aðilar vinnumarkaðarins hafa bent á að sé farsælust fyrir Ísland. Leiðin felst í gerð kjarasamninga sem tryggi efnahagslegan stöðugleika, lægri vexti og verðbólgu, aukna atvinnu og meiri kaupmátt atvinnutekna í stað áherslu á miklar launahækkanir. Fundurinn fór fram fyrir fullum sal í Hörpu en hann var auk þess sendur út beint til félagsmanna um land allt.
Sjá nánar »
Tveir þriðju Íslendinga vilja þjóðarsátt á vinnumarkaði
Ný könnun Capacent Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins leiðir í ljós að 66,3% landsmanna, eða tveir af hverjum þremur eru hlynntir því að gerð verði þjóðarsátt á vinnumarkaði, þar sem lögð yrði meiri áhersla á stöðugt verðlag og stöðugt gengi krónunnar en í stað þess lögð minni áhersla á launahækkanir.
Tæp 17% landsmanna eru andvíg þessari leið og jafn stór hópur er hvorki hlynntur né andvígur slíkri þjóðarsátt.
Sjá nánar »
67% landsmanna hafa miklar áhyggjur af verðbólgunni
Ný könnun Capacent fyrir Samtök atvinnulífsins sýnir að 67,4% landsmanna hafa miklar áhyggjur af verðbólgunni, aðeins 10,5% hafa litlar áhyggjur en 22% segja að verðbólgan valdi þeim hvorki miklum né litlum áhyggjum. Áhyggjur fólks af verðbólgu hafa vaxið frá árinu 2005 þegar Samtök atvinnulífsins gerðu sambærilega könnun en þá höfðu 54% landsmanna miklar áhyggjur af verðbólgunni.
Sjá nánar »
Ný úttekt aðila vinnumarkaðarins á efnahagsumhverfi og launaþróun
Heildarsamtök vinnumarkaðarins kynntu 18. október nýja úttekt á efnahagsumhverfi Íslands og launaþróun í aðdraganda kjarasamninga. Í henni kemur fram að sameiginleg sýn samningsaðila í atvinnu- og efnahagsmálum á svigrúm til launabreytinga auðveldi gerð kjarasamninga. Samkeppnishæft atvinnulíf sé úrslitaatriði um efnahagslegan vöxt og viðgang lítils og opins hagkerfis eins og hins íslenska.
Sjá nánar »
Skrifstofa SA
Bergþóra Halldórsdóttir til SA
Bergþóra Halldórsdóttir hefur verið ráðin til Samtaka atvinnulífsins sem lögfræðingur á vinnumarkaðssviði samtakanna. Bergþóra er með M.L. gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík auk þess sem hún hefur lokið diplómaprófi í frönsku frá Aix-Marseille Université.
Bergþóra hefur áður starfað sem saksóknarfulltrúi á sviði skattamála hjá Embætti sérstaks saksóknara, sem sérfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu og sinnt lögfræðiaðstoð fyrir kosningaeftirlitsnefnd Öryggis- og samvinnuráðs Evrópu.
EFNAHAGSMÁL
Staða og horfur í íslensku efnahagslífi út frá nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans
Á fundi Samtaka atvinnulífsins 7. nóvember fór Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, yfir stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi út frá nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt var deginum áður. Jafnframt fór Ásdís yfir aðhald peningastefnunnar.
"Þrátt fyrir að Seðlabankinn sé að spá áframhaldandi hagvexti á komandi árum þá eru óvissuþættirnir margir og batinn brothættur."
Sjá nánar »
SAMKEPPNISHÆFNI
Formaður SA og VÍ: Leggjumst saman á árarnar og bætum lífskjör
Mikil samstaða ríkir um það markmið að lífskjör almennings á Íslandi verði sambærileg við það sem best gerist í nálægum ríkjum. Undanfarin ár hefur Ísland þó færst neðar á alþjóðlegum listum yfir þá mælikvarða sem endurspegla lífskjör. Mikilvægt er að snúa þeirri þróun við. Til að svo geti orðið þarf að bæta skilyrði til verðmætasköpunar.
Sjá nánar »
UMHVERFISMÁL
Atvinnulífið er hluti af lausninni
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ávarpaði 8. Umhverfisþing sem fram fór í Hörpu. Hann lagði þar áherslu á sívaxandi hlutverk umhverfismála í rekstri fyrirtækja. Þar ráði mest hagrænir hvatar. Fyrirtækin taki upp formlega umhverfisstjórn og innleiði umhverfismerki sem leiði til betri nýtingar aðfanga og betri afkomu en ella. Einnig leggi viðskiptavinir fyrirtækjanna stöðugt meiri áherslu á umhverfisvænar vörur og þjónustu.
Sjá nánar »
LÍFEYRISMÁL
Konur meirihluti stjórnarmanna SA í lífeyrissjóðum
Samtök atvinnulífsins hafa á undanförnum misserum unnið markvisst að því að jafna kynjahlutföll fulltrúa SA í stjórnum lífeyrissjóða. Af 27 aðalmönnum sem SA skipa í stjórnir níu sjóða eru nú 15 konur en 12 karlar. Að loknum aðalfundum sjóðanna vorið 2012 skipuðu konur 46% sæta sem SA skipuðu í en nú er hlutfallið orðið 56% eftir að nýir stjórnarmenn voru skipaðir. Verkalýðshreyfingin tilnefnir einnig 27 aðalmenn í stjórnir sjóðanna.
Sjá nánar »
AÐILDARFÉLÖG SA
Saga Travel hlaut nýsköpunarverðlaun SAF
Ragnheiður Elín Árnadóttir, ferðamálaráðherra afhenti nýsköpunarverðlaun SAF – Samtaka ferðaþjónustunnar 2013 á Center Hótel Arnarhvoli, Reykjavík í vikunni. Saga Travel hlaut verðlaunin á 15. afmælisdegi Samtaka ferðaþjónustunnar en þetta er í tíunda sinn sem samtökin veita verðlaunin.
Saga Travel er alhliða ferðaskipuleggjandi og ferðaskrifstofa sem lagt hefur metnað sinn í vöruþróun í samvinnu við fjölda fyrirtækja í landinu öllu og heimafólk á Norðurlandi. Fyrirtækið hefur skapað sér verðugan sess í íslenskri ferðaþjónustu norðan heiða með því að bjóða upp á fjölbreytta afþreyingu, nýjar ferðavörur, á öllum tímum ársins og jafnvel á öllum tímum sólarhringsins
Sjá nánar á vef SAF
Innflutningsbann á fersku kjöti andstætt EES-samningnum
Eftirlitsstofnun EFTA telur innflutningsbann stjórnvalda á fersku kjöti, mjólk og eggjum ganga gegn ákvæðum EES-samningsins. Fjallað er um málið á vef SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu en samtökin sedu þann 6. desember 2011 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á reglugerð ESB um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla.
Sjá nánar »
Ályktanir aðalfundar LÍÚ 2013
Aðalfundur LÍÚ sem haldinn var í Reykjavík 24. og 25. október 2013, skorar á stjórnvöld að endurskoða lög nr. 74/2012 um veiðigjöld, en í ályktun fundarins segir að álögð veiðigjöld feli í sér verulega mismunun þar sem fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum sem nýti náttúruauðlindir séu ekki skattlögð með sama hætti. "Þessi skattlagning hefur dregið mátt úr greininni, en ljóst er að mörg fyrirtæki hafa ekki og munu ekki standa undir þeim gríðarlegu álögum sem stjórnvöld hafa lagt á. Þá leiðir þessi skattlagning til þess að íslenskur sjávarútvegur mun dragast aftur úr erlendum keppinautum sínum."
Sjá nánar »
ÍSLENSKT ATVINNULÍF - Í MYND
Sýning um íslenskt atvinnulíf í Háskólanum á Bifröst
Háskólinn á Bifröst undirbýr sýningu um íslenskt atvinnulíf sem opnuð verður í skólanum í maí 2014. Sýningunni er ætlað að draga upp jákvæða mynd af íslenskum fyrirtækjum á öllum sviðum og jafnframt að styrkja mjög tengsl á milli atvinnulífs og skóla. Útbúin verður sérstök skólaútgáfa af sýningunni sem farið verður með á milli skóla og samhliða skipulagðar sérstakar kynningar á atvinnulífinu.
Kappkostað verður að segja sögur af þeim verðmætum sem sköpuð eru á hverjum degi innan fyrirtækja landsins með viðtölum við starfsfólk og stjórnendur. Einblínt verður á framtíðarsýn fyrirtækisins og nýjungar og eiga sýningargestir að ná þar góðri snertingu við íslenskt nútímaatvinnulíf.
Allar nánari upplýsingar um sýninguna og þátttöku gefur María Ólafsdóttir, sýningarstjóri, mariao@bifrost.is, s. 822 9457.
|
Share with Your Friends