Af vettvangi í október 2014

SA fréttabréf header

 

NÚNA er tækifærið – höftin burt

     
 

Aðstæður til afnáms gjaldeyrishafta eru nú svo góðar að ákvörðun um að afnema þau ekki felur í sér ákvörðun um að búa við gjaldeyrishöft um ókomna tíð. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í leiðaranum. Hann segir viðvarandi gjaldeyrishöft uppskrift að nýrri kreppu og lökum lífskjörum. "Þjóð í höftum mun aldrei njóta lífskjara á borð við nágrannaþjóðirnar og innan Íslandsmúrsins verður atvinnulífið fábreyttara en annars gæti orðið. Tækifæri glatast og fólkið í landinu mun líða fyrir það."

Það verður að vanda vel til verka við afnám gjaldeyrishafta enda verkefnið flókið. Þorsteinn bendir á að lengja þurfi afborgunarferil svokallaðs Landsbankabréfs og búa svo um hnútana að uppgjör þrotabúa gömlu bankanna raski ekki þjóðhagslegum stöðugleika. Sex ár eru liðin frá því gjaldeyrishöftum var komið á til bráðabirgða en þau eru hér enn og ógna íslensku efnahagslífi. "Því verður að nýta góða stöðu þjóðarbúsins og afnema höftin áður en að tækifærið rennur okkur úr greipum."

 

Gjaldeyrishöftin eru skaðleg þar sem þau brengla sýn og stuðla að rangri verðlagningu krónunnar og helstu eignamarkaða.

 

  FRÉTTIR  

 

Íslendingar húða tilskipanir ESB með gulli

     
 

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins telja allt of langt gengið í frumvarpi um breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum – mun lengra en þörf er á samkvæmt tilskipun ESB. Í umsögn samtakanna til Alþingis er bent á að verði frumvarpið samþykkt muni leyfisveitingar flækjast, tími lengjast sem tekur að fá leyfi, kærum fjölga og kostnaður við framkvæmdir aukast. Samtökin benda á að þessu sé vel lýst í greinargerð með frumvarpinu en umhverfis- og auðlindaráðuneytið leggur til að nánast allar framkvæmdir í landinu verði tilkynningarskyldar. Að mati SA og SI er frumvarpið gott dæmi um hvernig tilskipanir ESB eru gullhúðaðar hér á landi (e. goldplating).

Sjá nánar

 

 


 

Öflugt menntakerfi stærsta efnahagsmálið

     
 

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands hafa gefið út rit um stöðu menntamála hér á landi og tillögur til úrbóta. Ritið ber heitið "Stærsta efnahagsmálið – Sóknarfæri í menntun". Til að bæta lífskjör og efla enn frekar samkeppnishæfni Íslands er grunnurinn öflugt menntakerfi.

Í ritinu er lýst sýn atvinnulífsins á mikilvægi menntunar og þau sóknarfæri sem í henni felast til verðmætasköpunar í hagkerfinu. Í ritinu kemur fram að þrátt fyrir að Ísland verji hlutfallslega miklum fjármunum til menntamála stendur það höllum fæti gagnvart nágrannalöndunum í flestum lykilmælikvörðum.

Tillögum að úrbótum er skipt í þrjá kafla. Leiðir sem stuðla að auknum árangri, auknu valfrelsi og meiri ráðdeild. 

Sjá nánar 

   

 

Viltu fá lánaðan fræðslustjóra?

     
 

Menntahópur Húss atvinnulífsins býður til hádegisfundar þriðjudaginn 21. október. Fundurinn fer fram í salnum Kviku á 1. hæð kl. 12-13. Á fundinum færðu að vita hvernig fyrirtækið þitt getur fengið lánaðan fræðslustjóra.

Verkefnið byggist á að lána fyrirtækjum mannauðsráðgjafa. Ráðgjafinn fer yfir fræðslu- og þjálfunarmál fyrirtækisins, dregur fram það sem vel er gert, gerir eða dýpkar greiningu á þörfum fyrirtækisins og býr til, í samráði við stjórnendur og starfsfólk, fræðsluáætlun sem er sérsniðin að þörfum fyrirtækisins. Að verkefninu standa ýmsir starfsmenntasjóðir.

Vinsamlegast skráið þátttöku með því að senda póst sa@sa.is  

 
Félagsmenn SA sem komast ekki á fundinn geta fylgst með útsendingu á vefnum. Slóð verður send út á mánudag.
 

 

Nýjar áherslur Samgöngustofu

     
 

Miðvikudaginn 22. október mun Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu,kynna nýjar áherslur Samgöngustofu fyrir félagsmönnum í Húsi atvinnulífsins. Fundurinn hefst stundvíslega kl. 8:30 og áætluð fundarlok eru klukkutíma síðar. Boðið verður upp á kaffi og brauðmeti. Fundurinn er opinn aðildarfyrirtækjum SA.

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku með tölvupósti á lisbet@svth.is.

 

   

  VINNUMARKAÐUR  


 

Umtalsverður ávinningur fyrirtækja og heimila

     
 

Á undanförnum mánuðum hefur mikill árangur náðst á vinnumarkaði sem kemur bæði fyrirtækjum og heimilum til góða. Á tæpu ári hefur verðbólgan hjaðnað hratt og er nú aðeins 1,8% á ársgrunni. Undanfarna átta mánuði hefur hún verið undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans sem er lengsta samfellda tímabil verðstöðugleika frá árinu 2003. Þessi hraða hjöðnun verðbólgu ber árangri síðustu kjarasamninga glöggt vitni. Þar lögðu aðilar vinnumarkaðar upp með að hóflegar launahækkanir myndu stuðla að lægri verðbólgu og meiri kaupmáttaraukningu en ella. Minna gæti orðið meira. Þetta hefur gengið eftir.

 


Kaupmáttur launa í september er 4% hærri en fyrir ári. 

 

 

VIRK hjálpar fólki og styrkir samfélagið

     
 

Talnakönnun hf. kemst að þeirri niðurstöðu í nýútkominni skýrslu að starfsemi VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs sé mjög arðbær. Um 10 milljarða ávinningur hafi verið af starfsemi VIRK árið 2013 sem skili sér til Tryggingarstofnunar, lífeyrissjóða og ríkisins að ótöldum ábata fjölda einstaklinga.

Ávinningur lífeyrissjóða af starfi VIRK  nam nærri fimm milljörðum árið 2013, ávinningur Tryggingastofnunar var hátt á fjórða milljarð króna og skatttekjur opinberra aðila jukust um 1,5 milljarða króna. Síðast en ekki síst batnaði hagur fólks sem nýtti sér þjónustu VIRK og lífsgæði jukust.

Sjá nánar 

 

 

 

Tekjur forstjóra í tekjublaði Frjálsrar verslunar 2014 hækkuðu að jafnaði um 4,8% - ekki 13%

     
 

Í frétt sem birtist á vef útgáfufélagsins Heims í tengslum við útgáfu tekjublaðs Frjálsrar verslunar í lok júlí 2014 var fullyrt að verulegt launaskrið hefði átt sér stað árið 2013 meðal forstjóra. Bornar voru saman meðaltekjur 200 hæstu forstjóranna á mánuði hvort árið og fékkst sú niðurstaða að þau hefðu hækkað úr 2,3 m.kr. í 2,6 m.kr. eða um 13%. Við þetta mat á launabreytingum hóps forstjóra er ýmislegt að athuga því meðaltekjur þeirra forstjóra sem taldir eru upp í tekjublaðinu og voru í sömu störfum bæði árin hækkuðu um 4,8%.

Sjá nánar 


 
 
 

  SJÁVARÚTVEGSDAGURINN  

 

Ferskur og sterkur

     
 

Samtök atvinnulífsins, Deloitte, LÍÚ og SF stóðu að Sjávarútvegsdeginum í Hörpu 8. október. Þar voru málefni sjávarútvegsins rædd frá ýmsum áhugaverðum hliðum. Gögn frá ráðstefnunni má nálgast hér á vef SA, glærukynningar frummælenda, fréttir frá deginum og nýjan bækling Deloitte þar sem er að finna lykiltölur úr íslenskum sjávarútvegi. Þar kemur m.a. fram að heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða nam 273 milljörðum króna á árinu 2013 og beint framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu nam 11% árið 2013.

SA, Deloitte, LÍÚ og SF þakka þeim fjölmörgu sem tóku þátt í Sjávarútvegsdeginum 2014 – sjáumst að ári!

Sjá nánar 


 


Allt frá hausaþurrkun til húðkrema.

 



  EFNAHAGSMÁL  

 

Íslenskur sjávarútvegur skilar miklu til þjóðfélagsins

     
 

Í nýrri greiningu efnahagssviðs SA kemur fram að íslenskur sjávarútvegur greiddi um þriðjung af hagnaði sínum til ríkisins á árinu 2013 á meðan aðrar atvinnugreinar greiddu almennt um 20%. Íslenskur sjávarútvegur nýtur sérstöðu á alþjóðavettvangi því það er nánast ófrávíkjanleg regla að sjávarútvegur njóti ríkisstyrkja annars staðar.

Ísland er eina landið innan OECD þar sem skattar á sjávarútveg eru meiri en ríkisstyrkir. Þetta kom m.a. fram í máli ÓIafs Garðars Halldórssonar, hagfræðings, sem kynnti niðurstöðurnar á Sjávarútvegsdeginum. Hann benti t.d. á að sjávarútvegsstyrkir alls í heiminum hafa verið metnir um 35 milljarðar Bandaríkjadala, þar af tæpir 9 milljarðar í Evrópu.

Sjá nánar 
 

 

Mikilvægt er að eyða óvissu sem ríkt hefur um álagningu veiðigjalda.

 

 

Framleiðni í sjávarútvegi hátt í tvöfaldast frá 1997

     
 

Í greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins um sjávarútveginn kemur fram að framleiðni í greininni hefur hátt í tvöfaldast frá árinu 1997. Eins og bent hefur verið á af aðilum á borð við McKinsey er framleiðni á Íslandi lág samanborið við önnur lönd en hún væri enn lakari ef ekki væri fyrir góða framleiðni í sjávarútvegi. Þetta skiptir landsmenn miklu máli því framleiðnivöxtur er undirstaða bættra lífskjara. Til langs tíma geta raunlaun t.d. ekki hækkað umfram framleiðni.

Sjá nánar 

 

 



  ATVINNULÍFIÐ  

 

Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna telja aðstæður góðar í atvinnulífinu

     
 

Mun fleiri stjórnendur telja núverandi aðstæður góðar í atvinnulífinu en að þær séu slæmar og hefur munurinn aukist mikið frá síðustu könnun Capacent meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins. Helmingur stjórnenda telur að aðstæður batni á næstu sex mánuðum og jafn stór hópur telur þær verða óbreyttar. Nægt framboð er af starfsfólki en helst skortir starfsmenn í byggingarstarfsemi. Stjórnendur gera ekki ráð fyrir fjölgun starfsmanna næstu sex mánuði þegar á heildina er litið.

Fjárfestingar aukast á árinu, einkum í flutningum og ferðaþjónustu. Að jafnaði vænta stjórnendur 3,0% verðbólgu næstu 12 og 24 mánuði en þó vænta þeir að jafnaði aðeins 1% hækkun á vörum og þjónustu eigin fyrirtækja næstu sex mánuði. Flestir stjórnendur búast við að gengi krónunnar verði stöðugt næstu 12 mánuði og að stýrivextir Seðlabankans verði óbreyttir. Þetta eru helstu niðurstöður könnunar á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækjanna, sem gerð var í september 2014 fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands. Niðurstöður voru birtar 3. október.

Sjá nánar 


 
 


Væntingar eru um aukna eftirspurn bæði innanlands og erlendis

 

  NEYTENDUR  

 

Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vill betri upprunamerkingar matvæla

     
 

Það skiptir meira en fjóra af hverjum fimm Íslendingum máli að upplýsingar um upprunaland séu á umbúðum matvæla við ákvörðun um kaup. Þar af telur tæpur helmingur (48%) að það skipti miklu máli og rúmur þriðjungur (35%) að það skipti nokkru máli. Aðeins 17% telja að það skipti litlu eða engu máli.

Þetta kemur fram í könnun Capacent Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Bændasamtök Íslands og Neytendasamtökin sem eru í samstarfi um bættar upprunamerkingar matvæla. Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga telur að bæta þurfi upprunamerkingar.

Sjá nánar 

 


Áhersla Íslendinga á upprunamerkingar hefur aukist umtalsvert 

 

  SJÓNVARP ATVINNULÍFSINS  

 

Íslensk þorsklifur í stað foie gras?

     
 



 

Með nýsköpun og góðri markaðssetningu er hægt að færa heiminum nýjar spennandi vörur úr hafinu umhverfis Ísland. 

 

 

Hvað á að elda í kvöld?

     
 


 

Agnar Sverrisson er eini íslenski kokkurinn sem hefur hlotið Michelin stjörnuna eftirsóttu. Hann hjálpar þér með kvöldmatinn. 


 

Samtök atvinnulífsins | Borgartúni 35 | IS-105 Reykjavík | Sími: 591 0000 | Netfang: sa@sa.is
Email Marketing af Outcome frttabrf
[ + ] [ + ]