Af vettvangi í júlí 2015

SA fréttabréf header
 

Jákvæð þróun á vinnumarkaði

     
 

Mikilvæg skref hafa verið stigin á almennum vinnumarkaði með samþykkt nýrra kjarasamninga. Í kjölfar þess að meginþorri iðnaðarmanna samþykkti samningana í gær hefur náðst samkomulag sem nær til nánast allra þeirra sem starfa á almenna vinnumarkaðnum. Skýr og samræmd launastefna til næstu ára hefur verið staðfest. Samningarnir leggja grunn að stöðugleika til næstu ára og takist vel til um stjórn efnahagsmála munu þeir tryggja aukinn kaupmátt og bættan hag heimila í landinu.

Launastefnan verður fordæmi í kjaraviðræðunum framundan við þá sem eiga eftir að semja og einnig þá sem fellt hafa samningana. Ekkert svigrúm er til að kvika frá þessari stefnu til þess að ekki komi til endurskoðunar kjarasamninga í febrúar á næsta ári. Forsenduákvæði samninganna er skilyrði þess að unnt væri að semja til lengri tíma en laun munu hækka um 17-20% til ársloka 2018.

Sjá nánar 
 

 
Aðilar vinnumarkaðarins, bæði á almennum og opinberum markaði, verða strax í haust að setja í forgang að endurskoða hvernig samið er um kaup og kjör á Íslandi
 
  FRÉTTIR  
 

Uppfærð kaupgjaldsskrá eftir samþykkt iðnaðarmannasamninga

     
 

Kjarasamningar fyrir meginþorra starfsmanna á almenna vinnumarkaðnum sem gilda til ársloka 2018 hafa verið samþykktir. Kjarasamningarnir sem tekið hafa gildi ná til rúmlega 68 þúsund launamanna í stéttarfélögum verslunarmanna, verkafólks og iðnaðarmanna. Samningar sem felldir voru í atkvæðagreiðslum taka til um tvö þúsund iðnaðarmanna. Uppfærða kaupgjaldsskrá má nú nálgast á vef SA.

Sjá nánar

   

 

Samningar 2015

     
 

Á kjarasamningasíðu Samtaka atvinnulífsins er að finna yfirlit yfir þá samninga sem gerðir hafa verið á árinu 2015 og samþykktir. Þar er einnig að finna reiknivél vegna launaþróunartryggingar til að nota við útreikning launa.

Sjá nánar

   
 

Sumarlokun skrifstofu SA – símsvörun

     
 

Vegna sumarleyfa verður skrifstofa Samtaka atvinnulífsins lokuð dagana 20. júlí til 31. júlí (að báðum meðtöldum), en svarað verður í símann og brugðist við áríðandi erindum. Skrifstofan verður opnuð á ný þriðjudaginn 4. ágúst.

   

  DAGATALIÐ  

 

30. september: Umhverfisdagur atvinnulífsins

     
 

Að deginum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Umhverfisfyrirtæki ársins 2015 verður útnefnt auk þess sem Framtak ársins 2015 í umhverfismálum verður verðlaunað.

   

 

8. október: Sjávarútvegsdagurinn

     
 

Samtök atvinnulífsins, Deloitte og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi standa að Sjávarútvegsdeginum í Hörpu. Þetta er í annað sinn sem dagurinn er haldinn en þar verða málefni sjávarútvegsins rædd frá ýmsum áhugaverðum hliðum.

   

 

7. apríl: Ársfundur atvinnulífsins 2016

     
 

Ársfundur atvinnulífsins 2016 fer fram í Hörpu fimmtudaginn 7. apríl kl. 14-16. Þar verða brýn hagsmunamál samfélagsins rædd en dagskrá og yfirskrift fundarins verður birt þegar nær dregur. Aðalfundur SA fer fram fyrr um daginn.

   

  VINNUMARKAÐUR  

 

Kjarasamningar auki kaupmátt þrátt fyrir aukna verðbólgu

     
 

"Kjarasamningarnir sem voru undirritaðir fyrir skömmu fara talsvert út fyrir það svigrúm sem er til launahækkana," segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtali við Fréttablaðið. Þorsteinn segir hættu á að samningarnir auki verðbólgu en segist vona að fyrirtæki bregðist við á annan hátt en með verðhækkunum.

Sjá nánar

   

 

Hvenær lýkur "leiðréttingu launa"?

     
 

Undangenginn vetur hefur einkennst af harðvítugri kjaradeilum en um áratugaskeið. Boðað var til verkfalla sem náð hefðu til tugþúsunda launamanna með tilheyrandi tjóni fyrir fyrirtæki og launafólk. Með nýgerðum kjarasamningum tókst að afstýra verkföllum á almennum vinnumarkaði en inngrip Alþingis þurfti til að stöðva verkfall BHM og hjúkrunarfræðinga. Þetta segir, framkvæmdastjóri SA, m.a. í grein í Fréttablaðinu þar sem hann veltir því fyrir sér hvenær "leiðréttingu launa" ljúki.

Sjá nánar

   

  EFNAHAGSSVIÐ SA  

 

Er Seðlabankinn að draga úr virkni peningastefnunnar?

     
 

Nú þegar ferðamannastraumurinn er sem mestur berast tíðindi af verulegum gjaldeyriskaupum Seðlabanka Íslands. Í raun hefur innflæði gjaldeyris verið með þeim hætti að Seðlabankinn hefur meira og minna legið á kauphliðinni frá því í september 2013, þ.e. keypt gjaldeyri í skiptum fyrir íslenskar krónur til að koma í veg fyrir verulega styrkingu krónunnar. Ef fram fer sem horfir þá er útlit fyrir að gjaldeyriskaup Seðlabankans á þessu ári einu og sér geti numið vel yfir 200 mö.kr. 

Sjá nánar

   

 

Hvers vegna er hægt að losa um höft á Íslandi?

     
 

Fjallað er um aðgerðaáætlun stjórnvalda um losun hafta í grein eftir Ásdísi Kristjánsdóttur forstöðumann efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins og Jón Daníelsson prófessor við London School of Economics sem birtist á vefsíðunni VOX. Að mati greinarhöfunda ber að fagna áætlun stjórnvalda um losun hafta enda feli fjármagnshöft í sér mikinn efnahagslegan skaða.

Sjá nánar

   

 

Lánshæfismat ríkissjóðs hækkar

     
 

Matsfyrirtækið Moody´s hefur hækkað lánshæfismat ríkissjóðs Íslands um einn flokk úr Baa3 í Baa2 og færðist ríkissjóður við það tveimur flokkum fyrir ofan ruslflokk. Aukinheldur metur Moody´s horfur á Íslandi áfram stöðugar og með tilliti til bættrar stöðu ríkissjóðs má leiða að því líkur að innistæða sé fyrir enn frekari hækkunum lánshæfis á komandi misserum. Engum blöðum er um það að fletta að meginástæða endurmats Moody's er nýsamþykkt áætlun um afnám fjármagnshafta á Íslandi og mun frekari endurskoðun lánshæfismatsins að miklu leyti hvíla á framgangi hennar.

Sjá nánar

   

 

Veruleg búbót fyrir neytendur

     
 

Við síðustu áramót voru felld niður almenn vörugjöld af innfluttum vörum en þau lögðust á ýmsar vörur, allt frá kexi til gírkassa. Þyngst vógu vörugjöld á raftæki og byggingavörur en 15-25% vörugjald lagðist á slíkar vörur við komu til landsins með tilheyrandi verðhækkunum í útsöluverði til kaupenda. Niðurfelling vörugjaldanna hefur reynst veruleg búbót fyrir íslenska neytendur. Verðlag á Íslandi er hátt í alþjóðlegum samanburði en verðmunurinn dróst þó verulega saman við afnám vörugjaldanna.

Sjá nánar
 

   

  MENNTAMÁL  

 

Starfsmenntakerfið verði einfaldað

     
 

Samtök atvinnulífsins hafa ásamt Alþýðusambandi Íslands unnið að því að endurskoða starfsmenntakerfið með einföldun og gegnsæi í huga. Vinnan byggir á bókun í kjarasamningi en sérstaklega er horft til hagsmuna fyrirtækja. Áhersla er lögð á að koma upp sameiginlegri vefgátt sem einfaldar m.a. umsóknarferli fyrirtækja í starfsmenntasjóði og fræðslustofnanir. 

Einnig verður farið í átak sem miðar að því að kynna starfsmenntasjóðina og fræðslustofnanir og möguleika fyrirtækja til að hækka menntunarstig innan sinna raða með því að ýta undir færni og þekkingu starfsmanna. Stefnt er að því að verkefnið fari af stað á haustmánuðum og verður það kynnt fyrir starfsmanna- og mannauðsstjórum þegar nær dregur.

   

  HEILBRIGÐISMÁL  

 

Er skynsamlegt að byggja sjúklingahótel við Landspítalann?

     
 

Samtök atvinnulífsins og Samtök verslunar og þjónustu telja að áður en bygging sjúklingahótels á Landspítalalóð verði boðin út þurfi að liggja fyllri upplýsingar um hvaða þjónustu eigi að veita á hótelinu, hvernig háttað verði greiðslufyrirkomulagi sjúklinga og hverjum sé ætlað að reka hótelið. Þá eigi að kanna nánar hagkvæmni þess að leysa sömu þörf með því að nýta betur núverandi byggingar Landspítalans og samning við rekstraraðila núverandi sjúkrahótels.

Rannsóknarstofnun atvinnulífsins á Bifröst hefur unnið skýrslu fyrir Samtök atvinnulífsins og SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu þar sem athygli er beint að fyrirhugaðri byggingu sjúklingahótels á lóð Landspítalans. Úttektin vekur upp margar spurningar.

Sjá nánar

   

  SKATTAMÁL  

 

Fasteignamat hækkar skattbyrði fyrirtækja um 1,3 milljarða

     
 

Þjóðskrá Íslands hefur birt nýtt fasteignamat sem taka á gildi í janúar 2016. Hækkun mats á atvinnuhúsnæði er 2,4%. Á síðasta ári hækkaði fasteignamat atvinnuhúsnæðis um 12,4% en ennþá meira á stórum hluta verslunar- og skrifstofuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu eða um 18%. Fasteignagjöld hefðu hækkað um sambærilegt hlutfall, eða alls um 1.300 milljónir króna á landinu öllu, en vegna þess að ákveðið var að hækkun síðasta árs taki gildi í áföngum  munu fasteignaeigendur ekki finna að fullu fyrir hækkuninni fyrr en með álagningu gjaldanna á árinu 2016.

Samtök atvinnulífsins benda fasteignaeigendum á að kynna sér breytingar á mati eigna sinna og að nýta sér heimild til að gera athugasemdir vegna þess fyrir 1. september nk.

Sjá nánar

   

 

Matvælaverð hækkaði í takt við skattbreytingar og hrávöruverð

     
 

Umfangsmiklar breytingar voru gerðar á skattaumhverfi smásölu á Íslandi síðastliðin áramót. Breytingarnar snertu smáseljendur matvæla á þann hátt að virðisaukaskattur á mat- og drykkjarvörur hækkaði úr 7% í 11% en um leið voru felld niður vörugjöld á sykur, svonefndur sykurskattur. Hækkun VSK prósentunnar nemur 3,7% og hlutfalls innheimts sykurskatts af heildarkostnaði heimila við matarinnkaup var um 1,7%.

Sjá nánar

   

  TJALD ATVINNULÍFSINS  

 

Öflugt atvinnulíf forsenda góðra lífskjara

     
 


Hús atvinnulífsins flutti í Vatnsmýrina í júní og reisti Tjald atvinnulífsins. Uppátækið var hluti af Fundi fólksins sem fram fór í Norræna húsinu og næsta nágrenni þess. Boðið var upp á 23  fjölbreytta og skemmtilega viðburði á þremur dögum um samspil öflugs atvinnulífs og góðra lífskjara.

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Frumtök, Samtök álframleiðenda og Litla Ísland voru gestgjafar í Tjaldi atvinnulífsins. Við þökkum þeim fjölmörgu sem litu við.

   

  SÍÐAST EN EKKI SÍST ...  

 

Barátta ljóss og skugga

     
 

Samtök atvinnulífsins voru einn bakhjarla TEDxReykjavík 2015 í Tjarnarbíó. Að þessu sinni var kastljósinu beint að ýmsu sem samfélagið kýs að horfa framhjá en upptökur frá erindum fjölbreytts hóps fólks eru nú aðgengilegar á YouTube.

Kveiktu á varpinu hér

 
Samtök atvinnulífsins | Borgartúni 35 | IS-105 Reykjavík | Sími: 591 0000 | Netfang: sa@sa.is
Email Marketing af Outcome frttabrf
[ + ] [ + ]