Af vettvangi í janúar 2014

LEIÐARI

Höldum ótrauð áfram

"Niðurstöður atkvæðagreiðslna um kjarasamningana í desember voru þær að 25 félög samþykktu samningana en 24 felldu. Á kjörskrám voru rúmlega 75 þúsund manns og 52% þeirra eru félagsmenn í félögum sem samþykktu samningana en 48% í félögum sem felldu þá, 36.520. Einungis 9% atkvæðisbærra greiddu atkvæði gegn þeim. Ekki er unnt að draga neinar afgerandi ályktanir á grundvelli svo lítillar þátttöku.


Niðurstöðurnar valda vonbrigðum því markmið samninganna um bætt lífskjör landsmanna samfara efnahagslegum stöðugleika skilar meiri ávinningi fyrir heimili og atvinnulíf en aðrir kostir. Margvíslegar skýringar á niðurstöðunni hafa verið nefndar; lítil þátttaka í atkvæðagreiðslum, óánægja með framlag ríkisins til samninganna í formi breytinga á tekjuskatti og gjaldskrám, miklar kröfugerðir ýmissa stéttarfélaga, andróður gegn samningunum, neikvæð fjölmiðlaumfjöllun framan af og áform nokkurra fyrirtækja um verðhækkanir um áramótin." Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, í upphafi leiðarans þar sem hann fjallar um stöðu og horfur á vinnumarkaði.

Sjá nánar »


FRÉTTIR

Heilbrigðari húsnæðismarkaður byggir á lægra lóðaverði, byggingar- og fjármagnskostnaði

Vaxandi þörf er fyrir íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og þá ekki síst húsnæði til langtímaleigu. Forsenda nauðsynlegrar uppbyggingar er lækkun lóðaverðs, minni kvaðir sem hækka byggingarkostnað af hálfu hins opinbera og lækkun fjármagnskostnaðar. Hár byggingarkostnaður kemur í veg fyrir byggingu lítilla íbúða sem mikil eftirspurn er eftir.

Sjá nánar »

Ný kaupgjaldskrá fyrir samþykkta samninga

Ný kaupgjaldsskrá hefur verið birt á vef Samtaka atvinnulífsins og gildir fyrir félagsmenn þeirra 25 stéttarfélaga sem samþykktu kjarasamningana sem undirritaðir voru 21. desember 2013. Laun félagsmanna þeirra stéttarfélaga sem samþykktu kjarasamningana hækka, en laun annarra verða óbreytt.

Kaupgjaldsskráin gildir ekki fyrir félagsmenn þeirra 24 stéttarfélaga sem felldu kjarasamningana. Laun viðkomandi starfsmanna hækka ekki fyrr en samningar komast á milli Samtaka atvinnulífsins og stéttarfélaga sem felldu samningana.

Sjá nánar »

Samtök atvinnulífsins samþykkja nýja kjarasamninga

Rafræn atkvæðagreiðsla um nýja kjarasamninga sem Samtök atvinnulífsins undirrituðu við aðildarsamtök ASÍ þann 21. desember 2013 fór fram meðal aðildarfyrirtækja SA dagana 16.-21. janúar. Samningarnir voru samþykktir með 98,3% greiddra atkvæða, 0,4% atkvæða voru greidd gegn samningunum en 1,3% tóku ekki afstöðu. Kosningaþátttaka var 58%. Greidd voru atkvæði um alla samningana í einu á grundvelli atkvæðavægis aðildarfyrirtækja SA.

Sjá nánar »

59 10 000 ... Hús atvinnulífsins góðan daginn!

Nýtt sameiginlegt símanúmer fyrir Hús atvinnulífsins er 59 10 000. Þar er svarað í símann fyrir Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök verslunar og þjónustu og Samtök fjármálafyrirtækja á opnunartíma frá kl. 8.30-16.30.

Sjá nánar »

Menntaverðlaun atvinnulífsins

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða veitt í fyrsta sinn mánudaginn 3. mars 2014 til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála.
Menntaverðlaunin verða afhent á menntadeginum á Hilton Reykjavík Nordica. Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður þar í kastljósinu.

Menntafyrirtæki ársins og Menntasproti ársins verða verðlaunuð en óskað er tilnefningum. Þrjú fyrirtæki verða tilnefnd í hvorum flokki en frestur til að senda inn tilnefningar er til 31. janúar 2014.

Sjá nánar »

EFNAHAGSMÁL

Verðbólguálag skuldabréfa hefur lækkað um 0,5% í janúar

Verðbólguálag skuldabréfa hefur lækkað hratt það sem af er árinu. Verðbólguálagið er mismunur vaxta á óverðtryggðum og verðtryggðum skuldabréfum með sama líftíma og endurspeglar verðbólguvæntingar aðila á skuldabréfamarkaði. Verðbólguálagið á skuldabréfum til fimm ára var 4,22% í ársbyrjun en hafði lækkað í 3,71% um miðjan mánuðinn. Skýring þessarar snörpu lækkunar liggur bersýnilega í markmiði kjarasamninganna sem gerðir voru 21. desember síðastliðinn um hjöðnun verðbólgu.

Í janúar hafa samningsaðilar, fyrirtæki og stjórnvöld efnt til kynningarátaks um ávinning stöðugs verðlags með það að markmiði að verðbólgumarkmið Seðlabankans, 2,5%, náist á næstu mánuðum. Þá hefur styrking krónunnar undanfarna mánuði haft verulega þýðingu fyrir hjöðnun verðbólguvæntinga.

Sjá nánar »

Bein erlend fjárfesting mikilvæg fyrir Ísland

Það þarf að efla útflutningsgreinar á Íslandi til að bæta hag landsmanna en til að svo megi verða þarf að fjárfesta í þeim. Skaðleg gjaldeyrishöft draga hins vegar úr áhuga erlendra fjárfesta en bein erlend fjárfesting er mikilvæg litlu hagkerfi eins og því íslenska. Þetta er meðal þess sem kom fram á fjölsóttum fundi Samtaka atvinnulífsins um beina erlenda fjárfestingu sem haldinn var á Icelandair hótel Reykjavík Natura. Karim Dahou, framkvæmdastjóri skrifstofu fjárfestinga og atvinnulífs hjá Efnahags- og framfarastofnuninni - OECD og Frank Barry, prófessor í alþjóðaviðskiptum við Trinity háskólann í Dublin greindu stöðu Íslands og settu í alþjóðlegt samhengi auk íslenskra stjórnenda.

Til að auka fjárfestingar þarf einnig að vera gagnsæi í starfsumhverfinu, stöðugleiki í efnahagslífinu og samkeppnishæft skattaumhverfi.

Sjá nánar »

STJÓRNARHÆTTIR

Konur 31% stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 starfsmenn eða fleiri

Samkvæmt nýrri úttekt Creditinfo sem unnin var fyrir Samtök atvinnulífsins taka lög um kynjakvóta í stjórnum til 287 fyrirtækja um þessar mundir. Í árslok 2013 voru konur 31% stjórnarmanna og karlar 69% í þessum fyrirtækjum. Árið 2009 var hlutfall kvenna 20% í stjórnum fyrirtækja með a.m.k. 50 heilsárstarfsmenn og hlutfall karla 80%. Rúmlega helmingur þessara fyrirtækja uppfylla skilyrði laganna um kynjahlutföll.

Sjá nánar »

SAMFÉLAGSÁBYRGÐ

Landsvirkjun undirritar sáttmála S.Þ. um samfélagsábyrgð

Landsvirkjun hefur undirritað UN Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Fyrirtækið bætist þar með í hóp yfir 10.000 fyrirtækja og stofnana í 130 löndum sem hafa skrifað undir sáttmálann en Samtök atvinnulífsins eru tengiliður við Global Compact á Íslandi. Með undirskriftinni skuldbindur Landsvirkjun sig til að virða og innleiða tíu reglur um mannréttindi, vinnurétt, umhverfismál og varnir gegn spillingu.

Sjá nánar »

 
 Hús atvinnulífsins
Hús atvinnulífsins 
Borgartúni 35 - 105 Reykjavík
 
 
 
 
 
 

 
Á DÖFINNI:
Menntadagur atvinnulífsins 3. mars
Iðnþing SI - 6. mars
Aðalfundur SA  - 3. apríl

Aðalfundur SAF - 10. apríl


Samtök atvinnulífsins | Borgartúni 35 | IS-105 Reykjavík | Sími: 591 0000 | Netfang: sa@sa.is
Smelltu hér til að afskrá þig.
Email Marketing af Outcome frttabrf