Af vettvangi í júní 2017

SA fréttabréf header
 

Tvíhöfði: Íslenskir hagsmunir í Brexit og brokkgengur Alþjóðagjaldeyrissjóður

     
 

Formlegar viðræður milli Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu Breta úr ESB (Brexit) eru hafnar. Mikilvægt er að tryggja íslenska viðskiptahagsmuni í kjölfar samninga Bretlands við ESB.

Markaðsaðgangur Íslands að Bretlandi hefur byggst á aðild Íslands að innri markaði EES. Óljóst er hvernig samskiptum ríkjanna verður háttað í kjölfar útgöngu Breta. Um verulega hagsmuni er að ræða fyrir íslenskt atvinnulíf enda er Bretland einn mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslendinga og náin viðskiptatengsl eru á milli ríkjanna," segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA m.a. í leiðaranum. Hann fjallar einnig um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem hann segir á villigötum og um fjármála- og gjaldeyriseftirlitið.

Sjá nánar

 


Það er með öllu óskiljanlegt að ekki hafi farið fram umfangsmikil endurskipulagning og hagræðing gjaldeyriseftirlitsins.

 

  FRÉTTIR  
 

Brexit: Íslenskir hagsmunir í forgrunni

     
 

Samtök atvinnulífsins hafa tekið saman greiningu og helstu atriði sem máli skipta fyrir íslensk fyrirtæki vegna Brexit. Samantektina má nálgast á vef SA. Jafnframt bjóða samtökin félagsmönnum upp á að skrá sig á sérstakan Brexit póstlista en SA munu leitast við að veita reglulega upplýsingar um framvindu mála og þýðingu atburða fyrir íslenska hagsmuni.

Sjá nánar

 Íslendingar fluttu út vörur til Bretlands árið 2015 fyrir 73 milljarða króna og til landsins fyrir 35 milljarða króna. 

 

 

Hækkun mótframlags í lífeyrissjóði

     
 

Mótframlag launagreiðenda gegn iðgjaldi starfsfólks í lífeyrissjóði á almennum vinnumarkaði hækkaði um 1,5% af tekjum þann 1. júlí. Samið var um hækkunina í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands í janúar 2016. Framlag launagreiðenda verður 10% í stað 8,5% áður og heildariðgjaldið því 14%.

Samkvæmt kjarasamningnum eiga sjóðsfélagar að geta ráðstafað heildariðgjaldi umfram 12% í séreignarsparnað í stað samtryggingar, svokallaða tilgreinda séreign. Samþykktir lífeyrissjóðanna hafa nú verið uppfærðar til samræmis við kjarasamninginn.

Sjá nánar

 

 

 

Nýr framkvæmdastjóri SI

     
 

Sigurður Hannesson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Hann tekur við starfinu af Almari Guðmundssyni sem lét af störfum fyrir skömmu.

Sigurður hefur sinnt margvíslegum störfum á fjármálamarkaði undanfarin tíu ár, nú síðast sem framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku banka. Sigurður var varaformaður framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta og kynnti áætlun stjórnvalda um losun þeirra árið 2015.

Sjá nánar á vef SI

   
 

Svigrúm til launahækkana verði skilgreint

     
 

OECD bendir á í nýrri úttekt að lífskjör séu góð á Íslandi, fátækt lítil og lífeyriskerfið sjálfbært. Vel hafi tekist að vernda lægst launuðu hópana á krepputímum en verkföll ýmissa starfsstétta og miklar launahækkanir hafi aukið verðbólguþrýsting og ógnað alþjóðlegri samkeppnishæfni landsins. Því skipti máli að efla traust meðal aðila á vinnumarkaði. 

Fjallað er um málið á mbl.is en þar segir að til að byggja upp traust þurfi all¬ir aðilar að taka virkan þátt í Þjóðhagsráði og semja um svigrúm til launahækkana í upphafi hverrar samningalotu og halda sig innan þess.

Sjá nánar á mbl.is 

   

  ÍSLENSK MÁLTÆKNI  

 

Íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi

     
 

Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra kynnti í júní nýja verkáætlun um máltækni fyrir íslensku. Markmið hennar er að íslensku verði að finna í öllum tækjabúnaði og í hugbúnaði stærstu tæknifyrirtækja heims.

Þegar verður hafist handa við fjölmörg verkefni á þessu ári en meginþungi vinnunnar fer fram á árunum 2018-2022. Tími til stefnu er naumur vegna þess að gervigreind og máltækni í heiminum þróast á ógnarhraða og mikilvægt að Ísland sitji ekki eftir.

Sjá nánar

 Það er mikilvægt að á íslensku megi alltaf finna svar og að íslensku verði viðhaldið sem megintungu í atvinnulífinu.

 

  VINNUMARKAÐUR  

 

Stöðvum kennitöluflakk - tillögur SA og ASÍ

     
 

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands kynntu í júní sameiginlegar tillögur sem er ætlað að berjast gegn kennitöluflakki. Ætla má að tjón samfélagsins vegna kennitöluflakks hlaupi á milljörðum króna á hverju ári. Kennitöluflakk er meinsemd í íslensku samfélagi sem er hægt að lágmarka með breytingu laga í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndunum.

Kennitöluflakk felur í sér að félag hættir starfsemi eftir gjaldþrot en rekstur þess heldur áfram í gegnum annað félag með nýrri kennitölu til að komast undan einhverjum eða öllum lagalegum skuldbindingum félagsins, s.s. greiðslu skatta og opinberra gjalda, lífeyris- og launagreiðslum.

Sjá nánar

 


SA og ASÍ leggja til að hægt verði að banna þeim sem verða uppvísir að kennitöluflakki að reka hlutafélög og einkahlutafélög í allt að þrjú ár.

 

  EFNAHAGSMÁL  

 

Íslensk ferðaþjónusta með augum AGS

     
 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur birt skýrslu um stöðu íslenskrar ferðaþjónustu og má með sanni segja að sjóðurinn sé bjartsýnn um framtíð hennar. Ekki er langt síðan að fjöldi ferðamanna tókst á flug á Íslandi og hefur vöxturinn í íslenskri ferðaþjónustu verið gríðarlegur á alla mælikvarða síðan, í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Samhliða þessum öra vexti hefur íslenskt hagkerfi tekið gífurlegum breytingum.

Sjá nánar

   

 

Seðlabankinn lækkaði vexti

     
 

Stýrivextir Seðlabankans voru lækkaðir um 0,25% þann 14. júní og var það önnur vaxtalækkunin á tæplega einum mánuði. Vaxtalækkunin var í takt við væntingar SA enda hnigu sterk rök að vaxtalækkun.

Sjá nánar

   

  UMHVERFISMÁL  

 

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins

     
 

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins verða afhent fimmtudaginn 12. október fyrirtækjum sem staðið hafa sig vel í umhverfismálum. Athöfnin fer fram á Hilton Reykjavík Nordica á Umhverfisdegi atvinnulífsins, sem að þessu sinni er helgaður loftslagsmálum.

Sjá nánar

   

  MENNTAMÁL  

 

Styrkir vegna vinnustaðanáms og starfsþjálfunar

     
 

Vinnustaðanámssjóður veitir styrki til fyrirtækja og stofnana vegna vinnustaðanáms og starfsþjálfunar sem er skilgreindur hluti af starfsnámi samkvæmt aðalnámsskrá framhaldsskóla. Opnað hefur verið fyrir umsóknir í sjóðinn. 

Markmið Vinnustaðanámssjóðs er að hvetja fyrirtæki og stofnanir til að taka við nemendum sem stunda vinnustaðanám sem hluta af námi á framhaldsskólastigi og gera þeim kleift að ljúka tilskildu vinnustaðanámi. 

Sjá nánar á vef Rannís

   
 

Fagháskólanám eflt

     
 

Fagháskólanámssjóður ASÍ, BSRB og SA hefur ákveðið að styrkja þróun þriggja verkefna á sviði fagháskólanáms í samræmi við samkomulag við mennta- og menningarmálaráðuneytið frá síðasta ári. 

Verkefnin sem styrkt verða eru fagháskólanám í verslunarstjórnun sem kennt verður í samstarfi Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst, fagháskólanám í iðn-, verk- og tæknigreinum við Háskólann í Reykjavík og fagháskólanám í öldrunarhjúkrun fyrir sjúkraliða við Háskólann á Akureyri. Heildarfjárhæð styrkja er 50 milljónir króna.

Sjá nánar

   

  SAMFÉLAGSÁBYRGÐ  

 

Nýsköpun og uppbygging

     
 

Norræn ráðstefna Global Compact – sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð verður haldin á Íslandi 31. október - 1.nóvember. Mörg af framsæknustu fyrirtækjum Norðurlanda taka þátt í en meginefni ráðstefnunnar verður eitt af sautján heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um betri heim. Markmið 9, nýsköpun og uppbygging, verður til umfjöllunar frá ýmsum sjónarhornum. Samtök atvinnulífsins eru tengiliður Íslands við Global Compact.

Norrænn vefur Global Compact

   

  ERLEND SAMSKIPTI  

 

Heimsókn utanríkisráðherra Lettlands

     
 

Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands, sótti Ísland heim á dögunum ásamt sendinefnd. Hann kom m.a. í Hús atvinnulífsins og ræddi við Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra SA og Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann efnahagssviðs SA.

Viðskipti á milli landana hafa farið vaxandi og jukust t.d. um 25% á árinu 2016. Edgars Rinkēvičs telur mörg tækifæri til að auka viðskipti á milli landanna enn frekar m.a. á sviði ferðaþjónustu og upplýsingatækni. Fjallað er nánar um heimsóknina á vef utanríkisráðherra Lettlands.

Sjá nánar 

 
 

Heimsókn Eftirlitsstofnunar EFTA

     
 

Sendinefnd frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimsótti nýverið Hús atvinnulífsins. Á fundinum kom skýrt fram hversu mikilvægur EES-samningurinn er íslensku atvinnulífi. EES-samningurinn tryggir Íslandi, Noregi og Liechtenstein aðgang að innri markaði Evrópusambandsins en 68% af útflutningstekjum Íslendinga koma frá ríkjum EES-svæðisins. Frjáls för vöru og þjónustu inn á markaði EES-svæðisins er ein af forsendum samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

 

  FYLGDU OKKUR  
 

SA á samfélagsmiðlunum 

     
 

Allt það nýjasta á Twitter um leið og það gerist. Greiningar, fréttir og viðtöl á Facebook. Myndir af atvinnulífinu og sögur af fólkinu sem bætir lífskjörin á Instagram.

 
Samtök atvinnulífsins | Borgartúni 35 | IS-105 Reykjavík | Sími: 591 0000 | Netfang: sa@sa.is
Email Marketing af Outcome frttabrf