LEIÐARI
Ærin verkefni
"Í aðdraganda kjarasamninga lögðu aðilar vinnumarkaðarins mikla áherslu á breytt vinnubrögð. Í orði kveðnu ríkir samstaða um að í stað mikilla launahækkana verði markmiðið að tryggja aukinn kaupmátt til lengri tíma án þess að hrinda af stað nýrri verðbólguskriðu. Verðbólgan rýrir kaupgetu fólks og fyrirtækja, vextir verða hærri en ella og skuldirnar hækka."
Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins m.a. í leiðaranum þar sem hann fjallar um stöðu kjaraviðræðna og áskoranir framundan í efnahagsmálum Íslendinga. Hann segir hvorki atvinnurekendur, launamenn né stjórnvöld ráða við verkefnin án hvers annars. Samstarf og sameiginleg framtíðarsýn sé forsenda farsællar niðurstöðu.
Sjá nánar »
FRÉTTIR
Áríðandi tilkynning til fyrirtækja: Höldum aftur af verðhækkunum ...
SA hafna verðbólgusamningum
Markmið Samtaka atvinnulífsins í yfirstandandi samningalotu er að leggja grunn að stöðugu verðlagi og betri lífskjörum. Stöðugt verðlag er skilgreint með 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Í því felst að launabreytingar í heild á hverjum 12 mánuðum verða að vera innan marka sem samrýmast verðstöðugleika. Heildar launabreytingum má skipta í fernt, þ.e. launabreytingar sem ákveðnar eru í kjarasamningum, framkvæmd kjarasamninga innan fyrirtækja og stofnana, innbyggðar breytingar í kjarasamningsbundnum og óformlegum launakerfum, t.d. starfsaldurshækkanir, og loks launaskrið sem á sér markaðslegar forsendur.
Sjá nánar »
Stjórnendur 400 stærstu: Aðeins 7% telja aðstæður góðar
Mat stjórnenda á aðstæðum í atvinnulífinu hefur heldur farið versnandi á síðari hluta ársins eftir að hafa batnað nokkuð síðastliðið vor. Einungis 7% stjórnenda telja aðstæður góðar, tæplega helmingur telur þær slæmar og álíka stór hópur telur aðstæður hvorki góðar né slæmar.
Þetta eru helstu niðurstöður ársfjórðungslegrar könnunar Capacent á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja landsins sem gerð var í nóvember 2013. Nægt framboð er af starfsfólki og í heild er búist við nokkurri fækkun starfsmanna á næstu sex mánuðum. Verðbólguvæntingar hafa minnkað örlítið en haldast háar því búist er við 3,9% verðbólgu á næstu 12 mánuðum.
Sjá nánar »
Beinar erlendar fjárfestingar
Samtök atvinnulífsins efna til opins morgunfundar um beinar erlendar fjárfestingar fimmtudaginn 16. janúar kl. 8.30-10 á Hótel Reykjavík Natura.
Annar frummælenda er Karim Dahou, framkvæmdastjóri skrifstofu fjárfestinga og atvinnulífs hjá Efnahags- og framfarastofnuninni - OECD. Hann mun gera grein fyrir stefnumörkun OECD á þessu sviði, hvernig henni hefur verið beitt og hvaða árangri hún hefur skilað í aðildarríkjum OECD.
Þá mun Frank Barry, prófessor í alþjóðaviðskiptum við Trinity háskólann í Dublin, segja frá reynslu Íra en hann hefur skrifað fjölda greina um beina erlenda fjárfestingu á Írlandi.
Sjá nánar »
VINNUMARKAÐUR
Svigrúm til launahækkana og áhrif krónutöluhækkana
Svigrúm atvinnulífsins til launahækkana hefur lítið borið á góma í umræðu sem nú fer fram í tengslum við endurnýjun kjarasamninga. Þá sjaldan það gerist eru nefnd dæmi um einstök fyrirtæki sem ganga vel sem sýni að vel sé hægt að hækka laun verulega. Það er miður að umræður um mögulegar launabreytingar fari ekki fram á grundvelli efnahagslegs bolmagns atvinnulífsins, því svigrúmið er það sem öllu skiptir um það hvort launahækkanir leiði til varanlegra kjarabóta eða gufi upp í verðbólgu. Kjarasamningar snúast ekki um að skipta því öðruvísi sem þegar hefur verið skipt heldur að skipta þeim auknu verðmætum sem verða til í nánustu framtíð. Svigrúm atvinnulífsins til að taka á sig aukinn kostnað fram í tímann markast fyrst og fremst af því að það
takist að auka verðmætasköpunina. Í grein á vef SA er fjallað um áhrif launastefnu síðustu sex ára þar sem hefur verið lögð sérstök áhersla á hækkun lægstu launataxta.
Sjá nánar »
Miklar launahækkanir eru meginástæða verðbólgunnar á Íslandi
Áratugum saman hefur verðbólga verið miklu meiri og sveiflukenndari hér á landi en í viðskiptalöndum okkar, að undanteknum fáeinum árum á fyrri hluta tíunda áratugarins. Mikil verðbólga veldur margvíslegu tjóni. Verðskyn brenglast, aðhald að verðlagi og samkeppni minnkar og fjárhagsáætlanir bregðast. Síðast en ekki síst veldur mikil og óstöðug verðbólga háum vöxtum. Verðbólgan dregur þannig úr skilvirkni og samkeppnishæfni atvinnulífsins og heldur niðri lífskjörum fólksins í landinu.
Sjá nánar »
Auglýsing um betri lífskjör
Samtök atvinnulífsins frumsýndu þann 20. nóvember auglýsingu sem hefur vakið mikið umtal og umræðu um lífskjör Íslendinga. Í auglýsingunni er það ástand sem við höfum búið við á Íslandi gagnrýnt og bent á leiðir til úrbóta. Það bera allir sína ábyrgð og eru hvorki atvinnurekendur, ríki né sveitarfélög þar undanskilin.
Í engu er verið að varpa ábyrgð á ákveðinn hóp fólks og ljóst að allir þurfa að taka höndum saman til að hægt sé að bæta lífskjör á Íslandi á næstu árum. Í auglýsingunni er settur fram kjarni þriggja ítarlegri innslaga um sama efni sem m.a. má nálgast má á Vimeo-síðu SA og á Facebook-síðunni Betri lífskjör.
Auglýsingin, sem nálgast má hér, var birt í ljósvakamiðlum í fimm daga en efni hennar er mikilvægt því versti óvinur skuldugra fyrirtækja og heimila er verðbólga og orðið tímabært að kveða hana niður. Í auglýsingunni eru settar fram staðreyndir sem byggðar eru á opinberum gögnum um launa- og verðlagsþróun hér á landi og á Norðurlöndunum. Þar er einnig sett fram á myndrænan hátt greining Seðlabanka Íslands á því hver þróunin gæti orðið hér á landi ef árlegar launahækkanir væru minni en hingað til hefur verið raunin. Skaðsemi verðbólgunnar er jafnframt dregin fram með skýrum hætti.
EFNAHAGSMÁL
Vinna hafin við úttekt á stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið
Í lok september sl. var tilkynnt að Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands hygðust standa fyrir úttekt á aðildarviðræðum við Evrópusambandið, þróun ESB og valkostum í efnahagsmálum. Samtökin undirrituðu í nóvember samning við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands um ritstjórn og umsjón úttektarinnar.
Markmið verkefnisins er að leggja mat á stöðu aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins, að greina þau álitaefni sem eru til staðar og þá kosti sem eru í stöðunni. Þá verður fjallað um þróun Evrópusambandsins síðan aðildarviðræðurnar hófust með sérstakri áherslu á gjaldmiðilssamstarfið. Sérstakt mat verður einnig lagt á hvernig hefja mætti aðildarviðræður við ESB að nýju ef vilji stendur til þess. Þá verður lagt mat á EES samninginn og þá möguleika og takmarkanir sem í honum felast.
Sjá nánar »
AÐILDARFÉLÖG SA
Kristrún Heimisdóttir nýr framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins
Kristrún Heimisdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, er nýr framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Hún er mörgum kunn innan samtakanna frá því hún var lögfræðingur þeirra í nærri fimm ár, 2001 til 2006. Kristrún var valin af stjórn SI úr hópi 45 umsækjenda um starfið.
"Ég er full tilhlökkunar að taka til starfa með félagsmönnum í SI sem fyrirliði í sterku liði starfsmanna," segir Kristrún m.a. á vef samtakanna.
Ársrit SFF 2013 er komið út
Ársrit Samtaka fjármálafyrirtækja er komið út. Ritið ber titilinn Fjármálaþjónusta - mikilvæg forsenda framþróunar. Í ár er fjallað um mikilvægi fjármálafræðslu í ritinu auk þess er í því að finna ítarlega umfjöllun um stöðu mála á íslenskum fjármálamarkaði.
Ritið má nálgast á vef SFF ásamt umfjöllun um SFF daginn sem fram fór 5. desember.
HIÐ OPINBERA
Brýnt að samræma eftirlit og einfalda
Sveitarfélögin eru í þeirri stöðu að veita eigin starfsemi starfsleyfi og hafa síðan eftirlit með henni. Það skapar hættu á hagsmunaárekstrum og stangast á við allar góðar stjórnsýsluvenjur, segir Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið. Hann vill að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga verði stokkað upp.
Sjá nánar »
SAMFÉLAGSÁBYRGÐ
Fyrirtæki sýni frumkvæði á sviði samfélagsábyrgðar
Hrafnhildur Stefánsdóttir, yfirlögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, segir mikilvægt að fyrirtæki taki frumkvæði í að sýna samfélagsábyrgð frekar en að stjórnvöld gefi út tilskipanir um slíkt. Það sé fyrirtækjanna að haga rekstri sínum og vinnubrögðum umfram það sem lög og reglur fyrirskipa og eðlilegt að áherslurnar séu þá í samræmi við hagsmuni fyrirtækisins. Rætt er við Hrafnhildi í Viðskiptablaði Morgunblaðsins þar sem er að finna ítarlega umfjöllun um samfélagsábyrgð.
Sjá nánar »
UMSAGNIR TIL ALÞINGIS
Samtök atvinnulífsins veita umsagnir um mikinn fjölda þingmála sem snerta hagsmuni atvinnulífsins.
Allar umsagnir samtakanna um þingmál eru birtar á vef SA. Þar er hægt að sjá umsagnarferlið allt; hvenær mál barst samtökunum, hver er ábyrgðarmaður þess og hvenær það er afgreitt.
Umsagnir SA
ATVINNULÍF OG SKÓLI
Verkefnamiðlun tengir fyrirtæki og nemendur
Á hverju ári leita hundruð háskólanemenda að spennandi og hagnýtum lokaverkefnum. Til að auðvelda leitina hafa Samstök atvinnulífsins skrifað undir samstarfssamning við Íslenska sjávarklasann um að taka þátt í að byggja upp hugmyndabanka um lokaverkefni á vefnum. Þar geta fyrirtæki sett inn verkefni sem þau vilja gjarnan láta vinna og nemendur komist í bein tengsl við fyrirtæki sem þau hafa áhuga á að vinna fyrir.
Sjá nánar »
|
Share with Your Friends