Af vettvangi í október 2015

SA fréttabréf header
 

Það birtir til

     
 

"Allt frá því að stjórnvöld kynntu áform sín um losun fjármagnshafta í júní síðastliðnum hafa slitabú gömlu bankanna unnið að því að uppfylla þau skilyrði sem stjórnvöld settu fyrir svonefndu stöðugleikaframlagi búanna ef þau ættu að komast hjá stöðugleikaskatti. Afhendi Glitnir ríkinu allt hlutafé sitt í Íslandsbanka virðist Seðlabanki Íslands geta staðfest að skilyrðin verði uppfyllt sem gerir búunum kleift að ljúka nauðasamningum.

Þetta er afar mikilvægur áfangi við losun fjármagnshafta sem hafa hvílt eins og mara á þjóðarbúinu undanfarin 7 ár. Stjórnvöld eiga hrós skilið fyrir meðferð þessa máls til þessa. Lagður hefur verið grunnur að lausn á málefnum slitabúanna sem ekki mun raska þjóðhagslegum stöðugleika og varða veginn áfram til losunar hafta. Það verður að vera forgangsmál hjá stjórnvöldum að losa um höftin sem fyrst.

Næstu skref eru ekki síður mikilvæg," segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, í upphafi leiðarans.

Sjá nánar

 



Fyrirtæki verða að fá tækifæri til að fjárfesta erlendis og nýta tækifæri sem þar bjóðast til að efla nýsköpun, vöruþróun og markaðssókn. 

 

  FRÉTTIR  
 

Meðaltekjur á Íslandi næst hæstar á Norðurlöndum

     
 



Ísland er hálaunaland samkvæmt alþjóðlegum samanburði OECD, Efnahags- og þróunarsamvinnustofnunarinnar í París. Í umræðu um kjaramál er því hins vegar sífellt haldið fram að Ísland sé láglaunaland, einkum í samanburði við Norðurlönd. Samkvæmt gögnum OECD eru  meðaltekjur á Íslandi næst hæstar á Norðurlöndunum og því er nær sanni að segja að Ísland sé hálaunaland. Við samanburð launa milli landa er algengast að látið sé nægja að umreikna þau í sama gjaldmiðil. Sá einfaldi útreikningur dregur upp skakka mynd af mismun á kaupmætti launa og þar með lífskjörum í viðkomandi löndum.

Sjá nánar

 

Þegar litið er á árstekjur eftir skatta og bætur voru meðaltekjurnar orðnar 39 þúsund USD, eða 8% lægri en í Noregi en 2% hærri en í Svíþjóð og 17% hærri en í Finnlandi og 20% hærri en í Danmörku.

 

 

Almannavarnir fjármagnaðar með þjónustugjöldum?

     
 

Samtök atvinnulífsins mótmæla því að lagður verði á nýr skattur, s.k. netöryggisgjald, á veltu tiltekinna tegunda fyrirtækja eins og gerð er tillaga um í frumvarpsdrögum innanríkisráðuneytis. Skatturinn á að renna í ríkissjóð og er ótengdur rekstri nýrrar netöryggissveitar sem á að stofna. Nauðsynlegt er að ákvæði frumvarpsins um s.k. netöryggisgjald falli brott ásamt öðrum skattahugmyndum sem tengjast því að halda uppi eðlilegri löggæslu í landinu og tryggja öryggi almennings.

Sjá nánar

 

 

 

Fasteignaskattar hækka

     
 

Þjóðskrá Íslands hefur birt nýtt fasteignamat sem taka á gildi í janúar 2016. Hækkun mats á atvinnuhúsnæði er 2,4%. Á síðasta ári hækkaði fasteignamat atvinnuhúsnæðis um 12,4% en ennþá meira á stórum hluta verslunar- og skrifstofuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu eða um 18%. Fasteignagjöld hefðu hækkað um sambærilegt hlutfall, eða alls um 1.300 milljónir króna á landinu öllu, en vegna þess að ákveðið var að hækkun síðasta árs taki gildi í áföngum  munu fasteignaeigendur ekki finna að fullu fyrir hækkuninni fyrr en með álagningu gjaldanna á árinu 2016.

Sjá nánar

 

 

 

Fjárfestir þú í bestu hönnun ársins 2015?

     
 

Fyrirtæki sem hefur með eftirtektarverðum hætti fjárfest í hönnun og arkitektúr eða innleitt aðferðir hönnunar í grunnstarfsemi sína verður verðlaunað við afhendingu Hönnunarverðlauna Íslands 2015. Besta fjárfesting í hönnun 2015 er ný viðurkenning verðlaunanna sem Hönnunarmiðstöð Íslands veitir í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins. 

Sjá nánar

 

 

  FUNDIR OG NÁMSKEIÐ  

 

Sá á fund sem finnur ...

     
 

29. október
Málstofa um baráttuna gegn mútum í alþjóðlegum viðskiptum í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Aðalgestur málstofunnar verður Drago Kos, formaður Vinnuhóps OECD,  sem fylgir eftir innleiðingu alþjóðlegs sáttmála á þessu sviði, gagnvart Íslandi og fjörutíu öðrum ríkjum.

Sjá nánar

5. nóvember
Staðlaráð býður upp á námskeið um stjórnun upplýsingaöryggis í fyrirtækjum.

Sjá nánar

12. nóvember
Samtök atvinnulífsins, UN Women á Íslandi og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð standa fyrir morgunfundi um Jafnréttissáttmála UN Women og Global Compact í Húsi atvinnulífsins. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans og Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, flytja m.a. erindi um hvernig Jafnréttissáttmálinn var innleiddur í fyrirtækjum þeirra.

Sjá nánar


 

 

  AÐILDARSAMTÖK SA  
 

Samorka flytur í Hús atvinnulífsins

     
 

Samorka – samtök orku og veitufyrirtækja flytja í Hús atvinnulífsins í fyrri hluta nóvember. Starfsemi Samorku mun taka verulegum breytingum á næstunni í kjölfar stefnumótunarvinnu, meðal annars með flutningi skrifstofunnar í Hús atvinnulífsins og ráðningu tveggja sérfræðinga á sviðum greiningar og upplýsingamála. 

Samtök atvinnulífsins og starfsfólk í Húsi atvinnulífsins bjóða Samorku velkomin í húsið. Öll aðildarsamtök SA eru því komin undir eitt þak eins og stefnt var að við stofnun samtakanna árið 1999, en Samorka er eitt sex aðildarsamtaka Samtaka atvinnulífsins.

   

 

Vegvísir í ferðaþjónustu

     
 

Undanfarin ár hefur fjölgun ferðamanna verið langt umfram spár og væntingar eru um áframhaldandi vöxt greinarinnar. Til að stuðla að farsælli þróun í ferðaþjónustu á Íslandi tóku iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem jafnframt er ráðherra ferðamála, og Samtök ferðaþjónustunnar höndum saman um mótun stefnu í ferðaþjónustu til lengri tíma með áherslu á sjálfbæra þróun. Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra ferðamála og Grímur Sæmundsen formaður Samtaka ferðaþjónustunnar kynntu nýverið  nýja ferðamálastefnu.

Sjá nánar á vef SAF

   

  UMHVERFISMÁL  

 

Umhverfisdagur atvinnulífsins 2015

     
 

Umhverfisdagur atvinnulífsins var haldinn í fyrsta sinn þann 30. september á Hilton Reykjavík Nordica. Ríflega 200 manns úr atvinnulífi, stjórnmálum og stjórnkerfi komu saman og ræddu sjálfbæra nýtingu auðlinda auk þess sem boðið var upp á fjölda málstofa þar sem samspil umhverfismála og einstakra atvinnugreina voru  til umfjöllunar. Forseti Íslands afhenti umhverfisverðlaun atvinnulífsins en þau hlutu Orka náttúrunnar og Steinull á Sauðárkróki.

Að deginum stóðu Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Svipmyndir frá deginum eru nú aðgengilegar á vefnum auk þess sem hægt er að nálgast upptökur frá sameiginlegri dagskrá ráðstefnunnar.

Sjá nánar

   

 

Forseti Íslands: Nauðsynlegt að rétta umræðuna

     
 

"Mér finnst tími til kominn að við förum að rétta aðeins umræðuna í áttina að því sem vel er gert, og sendum unga fólkinu á Íslandi þau skilaboð að hér er fullt fang af góðum hlutum og árangri sem þessi litla og fátæka þjóð hefur náð á einni mannsævi." Þetta sagði forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, m.a. á Umhverfisdegi atvinnulífsins.

Ólafur sagði ánægjulegt að verða vitni að því að Íslendingum hafi tekist, þrátt fyrir að það hafi verið á brattann að sækja, að bæta svo umgengni við orkulindir landsins að aðrar þjóðir sæki hingað fyrirmyndir.

Sjá nánar

   

  SVEITARFÉLÖGIN  

 

Innistæðulausir kjarasamningar 

     
 

Sveitarfélög kvarta undan því að þau hafi ekki efni á þeim kjarasamningum sem þau hafa gert og kalla eftir auknum skatttekjum frá ríkinu til að fjármagna þá. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir það algjört ábyrgðarleysi að semja um launahækkanir fyrir hönd sveitarfélaga sem vitað er fyrirfram að þau hafi ekki efni á að greiða. "Mér finnst mjög furðulegt að sveitastjórnarmenn hagi sér með þessum hætti og komi svo og heimti auknar skatttekjur til að borga fyrir ábyrgðarleysið."

Sjá nánar


   

 

Skattlagning út yfir gröf og dauða

     
 

Sveitarfélögin krefjast nú aukinna skatttekna eins og fram kom á fjármálaráðstefnu þeirra Framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga rakti þar fjölmargar hugmyndir um hvernig sveitarfélögin geti fengið auknar skatttekjur. Það er þó fátt sem bendir til þess að þau búi við tekjuvanda. Vandi þeirra liggur fyrst og fremst í of háum rekstrarkostnaði og óábyrgum kjarasamningum. Sérstaka athygli í tillögum sambandsins vakti hugmynd um nýjan skatt á "lönd fyrir greftrunarstaði manna" eins og það er orðað. 

Sjá nánar


   

  SJÁVARÚTVEGSDAGURINN 2015  

 

Mikill kraftur og gerjun í íslenskum sjávarútvegi

     
 

Það eru spennandi tímar í íslenskum sjávarútvegi en það kom glöggt fram á Sjávarútvegsdeginum sem fram fór 8. október.  Yfirskrift dagsins var Hvað er að frétta? og ljóst að það er engin gúrkutíð í sjávarútvegi. Fjárfestingar í greininni aukast mikið milli ára í skipum, fasteignum og búnaði auk þess sem sjávarútvegsfyrirtæki vinna að fjölbreyttum nýsköpunarverkefnum út um allt land. Á ráðstefnunni kom fram að ný og gjöful humarmið fundust nýverið við Ísland og byltingarkennd tækni frá Marel var kynnt. Einnig var sagt frá framsækinni vöruþróun og markaðsstarfi, mikilvægi stöðugs og fyrirsjáanlegs rekstrarumhverfis, jákvæðum áhrifum vaxandi ferðaþjónustu og rætt um ábyrgð sjávarútvegsfyrirtækja.

Sjá nánar

   

  MENNTAMÁL  

 

Auðveldari leið til að sækja um styrki til starfsmenntunar

     
 

Áttin - ný vefgátt sem greiðir leið fyrirtækja að umsóknum að starfsmenntasjóðum og fræðslustofnunum hefur verið opnuð. Áttin er sameiginlegt verkefni atvinnurekenda og launafólks á almennum vinnumarkaði.

Fyrirtæki þar sem starfsmannahópurinn er fjölbreyttur og greitt er af í mismunandi stéttarfélög, hafa hingað til þurft að sækja til margra sjóða og fræðslustofnana um styrki. Þau eiga héðan í frá að geta sótt um styrki fyrir nær allt sitt fólk með aðeins einni umsókn.

Sjá nánar

   

  VINNUMARKAÐUR  

 

Verðtryggð lán heimilanna gætu hækkað um hundruð milljarða

     
 

Höfuðstóll verðtryggðra skulda heimilanna gæti hækkað um allt að 335 milljarða króna til ársloka 2018 samkvæmt nýrri sviðsmynd Samtaka atvinnulífsins. Forsendur hennar gera ráð fyrir því að niðurstaða gerðardóms fyrir BHM og FÍH gangi yfir allan vinnumarkaðinn. Það felur í sér um 30% hækkun kauptaxta frá ársbyrjun 2015 til ársloka 2018. Til viðbótar kemur launamyndun vegna starfaldurshækkana, starfsþróunar og fleira. Verði gengi krónunnar haldið föstu gæti verðbólga orðið allt að 6% á tímabilinu, en ef gengi krónunnar sígur gæti verðbólga farið upp í  9% og verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað mikið á skömmum tíma.

Sjá nánar

 

 Vaxtabyrði á 15 milljóna óverðtryggðu láni gæti hækkað um 77 þúsund krónur á mánuði á tímabilinu.

 

 

Vinnutími viðfangsefni kjarasamninga

     
 

"Afstaða Samtaka atvinnulífsins er sú að vinnutími er viðfangsefni kjarasamninga. Ef löggjafinn fer að breyta einstökum köflum kjarasamninga, t.d. þeim sem fjalla um vinnutíma, tekur hann yfir hlutverk og verkefni samningsaðila á vinnumarkaði að semja um kaup og kjör og meta hvert svigrúm atvinnulífsins er til hækkunar launakostnaðar." Þetta segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, um frumvarp um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku sem fjórir þingmenn hafa lagt fram.

Í frumvarpinu er lagt til að vinnuvikan verði stytt í 35 stundir og vinnudagurinn úr 8 stundum í 7 stundir. Hannes segir að samþykkt frumvarpsins myndi hafa alvarlegar afleiðingar. Þá bendir hann á að í greinargerð með frumvarpinu sé að finna villandi upplýsingar um lengd vinnutíma á Íslandi. Umsaminn ársvinnutími á Íslandi er einn sá stysti sem þekkist meðal þeirra landa sem við berum okkur saman við. Umsaminn ársvinnutími er einungis styttri í Frakklandi. 

Sjá nánar

 

Í raun er viku­leg vinnu­skylda 37 stund­ir og í ýms­um kjara­samn­ing­um jafn­vel minni

 

  EFNAHAGURINN  

 

Fram af hengifluginu

     
 

Íslenskt efnahagslíf er komið á skrið eftir hrunið haustið 2008 og uppsveifla hefur staðið yfir í allmörg ár. Mikill árangur hefur náðst og þrátt fyrir meiri samdrátt árin 2009 og 2010 en í öðrum ríkjum er staðan að mörgu leyti góð í alþjóðlegum samanburði. Þrátt fyrir góða efnahagslega stöðu glímum við enn við gamalkunnug vandamál sem reynist erfitt að vinna bug á. Í gegnum tíðina hefur íslensk hagstjórn reynst hamfarasaga útflutningsgreina og ekki að undra að útflutningur Íslendinga er að mestu bundinn við náttúruauðlindir landsins.

Sjá nánar

   

  SAMFÉLAGSÁBYRGÐ  

 

Nýr framkvæmdastjóri Global Compact

     
 

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kynnti í haust nýjan framkvæmdastjóra Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Lise Kingo heitir hún og er dönsk en Lise starfaði um árabil í framkvæmdastjórn Novo Nordisk. Samtök atvinnulífsins eru tengiliður við Global Compact á Íslandi en um er að ræða öflugasta framtak heimsins á sviði sjálfbærni. Áhugavert viðtal við Lise birtist nýverið í Deutsche Welle. Þar líkti hún Global Compact við hund – þó ekki varðhund …

Sjá nánar

   

  UMSAGNIR SA  

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

     
 

Samtök atvinnulífsins leggjast eindregið gegn því að frumvarpið nái fram að ganga en með því er vegið að rótum farsællar uppbyggingar lífeyrisréttinda á almennum vinnumarkaði án þess að huga að afleiðingunum. Ætlunin er að framvegis muni þeir sem réttindi eiga í lífeyrissjóðum kjósa stjórnir þeirra og marka þeim stefnu. Þannig eru rofin tengsl sem lífeyrisréttindi eiga við kjarasamninga á almennum markaði. Hlutverk samningsaðila verður ekkert og greiðslur í lífeyrissjóði verða ekki samningsatriði í kjarasamningum. Iðgjöld munu fá einkenni hefðbundins skatts og á endanum mun ríkissjóður sitja uppi með ábyrgð á öllu lífeyriskerfinu.

Sjá nánar


   

  SJÓNVARP ATVINNULÍFSINS   

 

Bylting með nýsköpun

     
 

Í Sjónvarpi atvinnulífsins má sjá margt skemmtilegt. M.a. nýja tölvustýrða bitaskurðarvél frá Marel en Vísir tekur tvær vélar í notkun í Grindavík fyrir lok ársins. Fiskifréttir fjalla um málið en vélarnar munu framleiða samtals 500 fiskbita á mínútu sem jafngildir 250 matarskömmtum miðað við tvo bita á hvern disk. Það samsvarar fjórum matarskömmtum á sekúndu! Komið hefur í ljós að hægt er að auka verðmæti flakanna sem skorin eru í vélinni um 10% miðað við að skera þau með hefðbundnum hætti. "Þetta er í mínum huga ekkert annað en bylting," segir Pétur Hafsteinn Pálsson.

Kíktu á vélina í Sjónvarpi atvinnulífsins, en þar er líka fullt af skemmtilegu fólki að fjalla um spennandi hluti í atvinnulífinu.

Kveiktu hér!

   

Samtök atvinnulífsins | Borgartúni 35 | IS-105 Reykjavík | Sími: 591 0000 | Netfang: sa@sa.is
Email Marketing af Outcome frttabrf