Af vettvangi í nóvember 2016

SA fréttabréf header
 

Verkefni nýrrar ríkisstjórnar

     
 

"Stjórnvöld verða að taka upp viðræður við Seðlabankann og fá hann til að lækka vexti. Gengi krónunnar er allt of hátt og fer að óbreyttu hækkandi á næstu mánuðum og misserum þar til komið er í óefni, tekjur af ferðamönnum taka að minnka og gengið að falla." Þetta segir framkvæmdastjóri SA, m.a. í leiðaranum og segir afleiðingarnar ljósar.

"Ný ríkisstjórn verður að taka mið af þenslunni í efnahagslífinu, hagvöxtur er mikill, atvinnuleysi í lágmarki og hætta er á að efnahagslegur stöðugleiki raskist. Í lögum um opinber fjármál er kveðið skýrt á um að stefna í opinberum fjármálum skuli stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum. Undan þeirri skyldu getur ný ríkisstjórn ekki vikist. Því verða fjármál hins opinbera að hamla á móti efnahagsþenslunni sem nú stendur yfir."

Sjá nánar

 

Stjórnvöldum ber að efna fyrirheit sem SA voru gefin um lækkun tryggingagjaldsins ...

 

  FRÉTTIR  
 

Hávaxtastefna Seðlabankans þrengir að atvinnulífinu

     
 

Ákvörðun Seðlabanka Íslands um óbreytta vexti veldur atvinnulífinu miklum vonbrigðum. Ákvörðunin vekur einnig undrun í ljósi hagspár bankans um minni framleiðsluspennu en áður og að verðbólga verði undir markmiði bankans fram til ársloka 2018.

Þetta segir m.a. í ítarlegri umfjöllun á vef Samtaka atvinnulífsins en í niðurlagi hennar segir: "Endurskoða verður þá stefnu að Ísland verði áfram eitt mesta hávaxtaríki heims þegar verðbólguvæntingar eru við verðbólgumarkmiðið og Seðlabankinn og aðrir spáaðilar spá minni verðbólgu en 2,5% fram til ársloka 2018. Ef ekki er óhætt að lækka vexti nú, þá hvenær?"

Sjá nánar

   

 

Óskað eftir tilnefningum til Menntaverðlauna atvinnulífsins 2017

     
 

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 2. febrúar 2017. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála fyrir 12. desember nk.

Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum, menntafyrirtæki og menntasproti ársins 2017, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

Sjá nánar


 

Tilnefningar sendist í tölvupósti á sa@sa.is - eigi síðar en 12. desember

 

 

Desemberuppbót 2016

     
 

Samkvæmt almennum kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins greiðist desemberuppbót eigi síðar en 15. desember. Desemberuppbót fyrir fullt starf er nú kr. 82.000. Uppbótin greiðist hlutfallslega m.v. starfstíma og starfshlutfall en fullt ársstarf telst a.m.k. 45 unnar vikur fyrir utan orlof.

Starfsmenn sem eru í starfi í fyrstu viku desember eiga ávallt rétt á uppbót, hlutfallslega m.v. starfstíma, en aðrir þurfa að hafa unnið a.m.k. 12 vikur á síðustu 12 mánuðum til að eiga rétt á uppbót.

Sjá nánar á vinnumarkaðsvef SA


   

 

Látum ekki ofbeldi viðgangast á vinnustöðum

     
 

Vinnueftirlitið hefur gefið út nýtt fræðslu- og leiðbeiningarefni sem nýtist stjórnendum. Með góðri stjórnun og skjótum viðbrögðum má koma í veg fyrir alvarleg vandamál á vinnustöðum eins og einelti, áreitni og ofbeldi.

Bæklingarnir eru byggðir á fræðilegu efni, lögum um vinnuvernd og reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Bæklingunum er ætlað að leiðbeina stjórnendum og styðja þá og aðra á vinnustöðum í að fyrirbyggja og bregðast við hvers kyns óviðeigandi hegðun sem getur komið upp við mismunandi aðstæður á vinnustöðum.

Sjá nánar

   

 

Munu börnin þekkja kynbundinn launamun?

     
 

Samtök atvinnulífsins vöktu athygli á því, 24. október, að fyrirtæki sem mismuna fólki í launum eftir kynferði brjóta lög, sóa verðmætum og standa sig verr í samkeppni á markaði. "Það er mikilvægt að stjórnendur haldi vöku sinni og mismuni ekki starfsfólki af gáleysi heldur nýti krafta allra jafnt," segir í auglýsingum samtakanna sem birtust í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu.

Sjá nánar

   

 

4% launagreiðenda með 50 eða fleiri launþega

     
 

Hagstofan birti í nóvember áhugaverðar upplýsingar um fjölda launagreiðanda á Íslandi. Á 12 mánaða tímabili, frá október 2015 til september 2016, voru að jafnaði 16.456 launagreiðendur á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 599 (3,8%) frá síðustu 12 mánuðum á undan. Frá október 2015 til september 2016 greiddu launagreiðendur að meðaltali um 177.600 einstaklingum laun sem er aukning um 7.600 (4,5%) samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr.

Launagreiðendur með færri en 10 launþega á sínum vegum voru tæplega 14 þúsund í september síðastliðnum. Til samanburðar voru launagreiðendur með 10 eða fleiri launþega ríflega 2.600.

Sjá nánar á vef Hagstofunnar

   

  DAGATAL ATVINNULÍFSINS  

 

Fundir og ráðstefnur framundan ...

     
 

23. nóvember. SFF dagurinn: Getum við aðstoðað?

Árlegur dagur SFF er að þessu sinni helgaður þeim miklu breytingum sem hafa orðið á neytendavernd á fjármálamarkaði á undanförnum árum og fjallað verður um þær áskoranir og þau tækifæri sem fjármálafyrirtæki og viðskiptavinir þeirra standa frammi fyrir í þeim efnum.

Sjá nánar á vef SFF

6. desember. Morgunfundur um samfélagsábyrgð


Fjallað verður um Global Compact - sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð og markmið um betri heim. Fundurinn fer fram í Húsi atvinnulífsins og er samstarfsverkefni SA og Festu.

Sjá nánar

8. desember. Hvaða áhrif hafa loftslagsmálin?

Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, flytur erindi um þróun alþjóðlegra samninga og löggjafar á sviði loftslagsmála og metur áhrifin á íslensk fyrirtæki. Fundurinn fer fram í Húsi atvinnulífsins.

Sjá nánar

12. janúar. Skattadagurinn 2017

Árlegur Skattadagur Deloitte, í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins, verður haldinn fimmtudaginn 12. janúar 2017. Nánari dagskrá auglýst þegar nær dregur.

17. janúar. Menntun og mannauður

Morgunfundur um fjarnám og verkstjórnarfræðslu í Kviku í Húsi atvinnulífsins.

Dagskrá verður birt á nýju ári.

26. janúar. Janúarráðstefna Festu í samstarfi við SA

Árleg ráðstefna um samfélagsábyrgð og ábyrg fyrirtæk. Georg Kell er aðalræðumaður á ráðstefnunni.

Sjá nánar á vef Festu


2. febrúar. 
Menntadagur atvinnulífsins 2017 

Á Hilton Reykjavík Nordica kl. 8.30-12. Forseti Íslands afhendir menntaverðlaun atvinnulífsins. Þetta er í fjórða sinn sem dagurinn er haldinn. Íslensk máltækni, menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður í kastljósinu.
 

30. mars. Ársfundur atvinnulífsins 2017


Yfirskrift og dagskrá verður birt þegar nær dregur en vissara er að skrá þátttöku strax á vef SA, setja fundinn í dagbókina og tryggja sér sæti! Fundurinn fer fram í Hörpu kl. 14-17.

Fundurinn hefur fest sig í sessi meðal stjórnenda, stjórnmálamanna, skólasamfélagsins, aðila vinnumarkaðarins og álitsgjafa. Fundurinn er opinn vettvangur þar sem brýn mál samfélagins eru rædd hverju sinni með það að markmiði að benda á leiðir til að bæta lífskör á Íslandi

Smelltu til að skrá þig

   

  VINNUMARKAÐUR  

 

Kjararáð stuðlar að upplausn

     
 

Framkvæmdastjórnir Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands samþykktu þann 1. nóvember ályktun þar sem Alþingi er  hvatt til þess að grípa tafarlaust til ráðstafana vegna ákvarðana kjararáðs sem stuðla að upplausn á vinnumarkaði.

"Ákvörðun kjararáðs um launahækkanir þingmanna og ráðherra er í engu samhengi við almenna þróun á vinnumarkaði, hvort sem horft er til skemmri eða lengri tíma. Standi ákvörðunin er vinnumarkaðurinn settur í fullkomið uppnám með tilheyrandi tjóni fyrir almenning og atvinnulíf."

Sjá nánar

 

Ef Alþingi ætlar sér að stuðla að auknu trausti og sátt á vinnumarkaði þá er endurskoðun á ákvörðunum kjararáðs óumflýjanleg. 

 

 

Ófriðarbál á vinnumarkaði?

     
 

Það er þrennt sem gæti sett áform um nýtt íslenskt vinnumarkaðslíkan í uppnám og kveikt ófriðarbál á vinnumarkaði. Óvissa um jöfnun lífeyrisréttinda á vinnumarkaði, ákvörðun Kjararáðs um að hækka laun þingmanna og kröfur kennara um að að laun þeirra hækki meira en gert er ráð fyrir í kjarasamningum eða svokölluðu Salek-samkomulagi. Átök eru í kortunum og hætta er á að kjarasamningum verði sagt upp og að þeir verði lausir næsta vor. Fjallað var um málið í Spegli RÚV.

Sjá nánar

   

  SJÁVARÚTVEGSDAGURINN 2016  

 

Góð staða í sjávarútvegi en miklar áskoranir framundan

     
 

Skuldir sjávarútvegsins hafa minnkað verulega frá árinu 2009 þegar þær náðu hámarki og fjárfestingar vaxið undanfarin fjögur ár. Þetta er meðal þess sem fram kom á Sjávarútvegsdeginum 2016 sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica í samstarfi Samtaka atvinnulífsins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Deloitte.

Sjá nánar

   

 

Stolt siglir fleyið mitt ... krónuna á

     
 

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, flutti erindi á Sjávarútvegsdeginum og bar það heitið " Stolt siglir fleyið mitt … krónuna á." Í erindinu fjallaði Ásdís m.a. um þann árangur sem náðst hefur í íslenskum efnahag síðustu ár. Ásdís segir miklar breytingar hafa orðið á innlendu hagkerfi á síðustu árum ekki síst vegna tilkomu nýrrar útflutningsatvinnugreinar sem styrkt hefur gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins.

Sjá nánar

   

  NÝSKÖPUN  

 

Nýsköpunarverðlaun SAF 2016

     
 

Óbyggðasetur Íslands er handhafi nýsköpunarverðlauna Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2016. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Óbyggðasetrinu verðlaunin við fjölmenna og hátíðlega athöfn á KEX Hostel föstudaginn 11. nóvember.

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda árlega nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar. Verðlaununum er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu.

Sjá nánari umfjöllun á vef SAF

   

 

MH vann Boxið

     
 

Lið Menntaskólans við Hamrahlíð vann Boxið – framkvæmdakeppni framhaldsskólanna í ár, eftir harða keppni. Átta lið frá jafnmörgum framhaldsskólum kepptu til úrslita síðastliðinn laugardag í Háskólanum í Reykjavík. Lið Kvennaskólans Í Reykjavík varð í öðru sæti og lið Menntaskólans í Reykjavík í því þriðja. Vinningsliðið skipuðu Magdalena Guðrún Bryndísardóttir, Jessý Jónsdóttir, Ásmundur Jóhannsson, Unnar Ingi Sæmundarson og Ívar Dór Orrason. Að keppninni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Samband íslenskra framhaldsskólanema.

Sjá nánar á vef SI

   

Samtök atvinnulífsins | Borgartúni 35 | IS-105 Reykjavík | Sími: 591 0000 | Netfang: sa@sa.is
Email Marketing af Outcome frttabrf
[ + ] [ + ]