Af vettvangi í janúar 2015

SA fréttabréf header
 

Góðum árangri stefnt í hættu

     
 

Mikil ólga er á vinnumarkaði og hætta á alvarlegum átökum á næstu mánuðum þrátt fyrir að einstakur árangur hafi náðst á síðasta ári með mikilli aukningu kaupmáttar og hraðri hjöðnun verðbólgu. Ástæðan er sú að ríki og sveitarfélög hafa samið um tugprósenta launahækkanir við einstaka hópa og stefnt þar með langþráðu jafnvægi í efnahagslífinu í hættu. Á þetta bendir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, í leiðaranum og segir það hvergi þekkjast nema á Íslandi að ríki og sveitarfélög leiði launaþróun.

Framkvæmdastjóri SA bendir ennfremur á að ríkisstjórnin hafi horfið frá hefðbundnu þríhliða samstarfi við aðila vinnumarkaðarins þar sem aðilar hafa sammælst um árattugaskeið um ýmis almenn réttindi. Samstarfið lagði m.a. grunninn að Þjóðarsáttinni á sínum tíma en nú eru breyttir tímar sem torvelda samninga. "Síðustu misseri hafa einkennst af vaxandi átökum aðila vinnumarkaðar og ríkisstjórnar."

Sjá nánar

  Kaupmáttur jókst um liðlega 5% á árinu og vextir Seðlabanka lækkuðu um 0,75%. 

 

  FRÉTTIR  
 

Hækkun neðra þreps virðisaukaskatts skilar ekki samsvarandi verðhækkun matvælaverðs

     
 

Í janúar tóku í gildi breytingar á óbeinum sköttum. Lægra þrep virðisaukaskatts var hækkað úr 7% í 11% og það hærra lækkað úr 25,5% í 24%, auk þess sem almenn vörugjöld og sykurskattur voru felld niður. Hækkun virðisaukaskatts á matvæli kemur einkum fram í tveimur undirliðum vísitölu neysluverðs; matur og drykkjavörur og hótel og veitingastaðir. Niðurstaða mælingar Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs í janúar sýnir að hvorugur liðanna hækkaði jafn mikið og breytingar virðisaukaskatts gáfu tilefni til.

Sjá nánar 

   

 

Menntadagur atvinnulífsins 19. febrúar 2015 - skráning hafin

     
 

Menntadagur atvinnulífsins verður haldinn fimmtudaginn 19. febrúar á Hilton Reykjavík Nordica. Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður þar í kastljósinu en að þessu sinni verður fjallað um deigluna í menntakerfinu, breytingar á starfsnámi, framlag fyrirtækja til menntamála og ávinning af menntun. Dagskrá menntadagsins hefur nú verið birt og er skráning hafin hér á vef SA. Það er vissara að tryggja sér sæti sem fyrst en hátt í 400 manns sóttu menntadaginn 2014. Allir eru velkomnir eru velkomnir og er ekkert þátttökugjald. Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni SAF, SFF, SFS, Samorku, SI, SVÞ og SA.

Sjá nánar

   

 

Fjöldi tilnefninga til menntaverðlauna atvinnulífsins

     
 

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent fimmtudaginn 19. febrúar á menntadegi atvinnulífsins 2015. Á þriðja tug tilnefninga bárust og er dómnefnd nú önnum kafin við að vinna úr þeim. Tilnefnd fyrirtæki eru bæði stór og smá og starfa í fjölbreyttum greinum. Verðlaunin eru veitt í tveimur flokkum, annars vegar er menntafyrirtæki ársins verðlaunað og hins vegar menntasproti ársins. Menntaverðlaunin voru afhent í fyrsta skipti fyrir ári. Samskip var valið menntafyrirtæki ársins 2014 og Nordic Visitor menntasproti ársins 2014.

Sjá nánar

   

 

Enginn grundvöllur til að semja við SGS um 50% hækkun launa

     
 

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) afhenti í vikunni Samtökum atvinnulífsins (SA) kröfugerð vegna kjaraviðræðna framundan vegna 16 aðildarfélaga þess annarra en félaga innan Flóabandalagsins (Eflingar, Hlífar og VSFK).  Kröfur SGS gera ráð fyrir að lágmarki 50% hækkun launataxta á næstu þremur árum, sérstökum launahækkanir til viðbótar í gjaldeyrisskapandi greinum (fiskvinnslu og ferðaþjónustu), viðbótarhækkunum vegna reynslu og menntunar, hækkana eingreiðslna og vaktaálaga, auk annarra krafna einstakra aðildarfélaga.

Sjá nánar

   


  AÐILDARFÉLÖG SA  

 

Aðalfundir

     
 


Aðalfundur Samorku
verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 20. febrúar, opin dagskrá kl. 13.30-15.

Iðnþing Samtaka iðnaðarins 2015 verður haldið  á Hilton Reykjavik Nordica fimmtudaginn 5. mars 2015, kl. 13-16.

Aðalfundur SVÞ-Samtaka verslunar og þjónustu verður haldinn fimmtudaginn 19. mars.

Aðalfundur  SAF - Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2015 fer fram á Egilsstöðum fimmtudaginn 26. mars.

Aðalfundur SFS - Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi fer fram föstudaginn 29. maí.

   

  VINNUMARKAÐUR  

 

Skuldir heimilanna gætu hækkað um 500 milljarða

     
 

Ef laun á vinnumarkaði hækka jafn mikið og laun lækna næstu þrjú árin mun það valda mikilli verðbólgu, gengislækkun krónunnar og verulegri hækkun verðtryggðra skulda. Uppsöfnuð verðbólga á tímabilinu yrði 27% og verðtryggð lán heimilanna myndu hækka um 500 milljarða króna. Kaupmáttur launa myndi aðeins aukast um 2%. Þetta eru niðurstöður greiningar Samtaka atvinnulífsins þar sem metin eru áhrif þess að laun á vinnumarkaði hækki til samræmis við kjarasamninga lækna. Aðeins er litið til kaupmáttar launa en ekki ráðstöfunartekna. Mikilli verðbólgu samhliða miklum launahækkunum fylgir mikil hækkun verðbóta og vaxta og myndi almenningur því hafa minna á milli handanna ef þessi leið verður farin.

Sjá nánar

   

 

Viðvörunarljósin loga

     
 

Íslenska þjóðin eldist og viðvörunarljós loga á vinnumarkaði. Á næsta áratug er útlit fyrir að starfsfólki á vinnumarkaði fjölgi aðeins um fjórðung af fjölgun undangengins áratugar. Að óbreyttu tekur við samdráttur á vinnumarkaði eftir þann tíma þó svo að áfram sé gert ráð fyrir umtalsverðum aðflutningi erlendra starfsmanna til landsins. Ástæðan er sú að þeir árgangar sem koma inn á vinnumarkaðinn eru litlu stærri en þeir sem fara út af honum vegna aldurs og mikillar örorkubyrði. Hlutfall fólks á Íslandi sem hefur horfið af vinnumarkaði vegna örorku er meðal þess hæsta sem þekkist.

Sjá nánar

 

Á hverju ári eru 1.200-1.500 manns úrskurðaðir með 75% örorku ...

 

 

Nauðsynlegt að bæta umgjörðina

     
 

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir brýnt að ráðast í umbætur á umgjörð vinnumarkaðarins til að koma á meira jafnvægi í launaþróun. Þorsteinn segir SA hafa horft til nágrannalandanna hvað þetta varðar og þar sé ýmislegt sem taka megi til fyrirmyndar ef horft er á umgjörðina til launahækkana. "Þótt hvert ríki hafi sinn háttinn á er þar samkomulag milli allra stærstu aðila vinnumarkaðar og það svigrúm sem talið er vera til launahækkana á hverjum tíma, og samið er um, er í raun þakið í launaþróun allra launahópa sem á eftir koma."

Sjá nánar

   

  MENNTUN  

 

Námskeið Verkstjórnarfræðslunnar hefst 12. febrúar

     
 

Fyrsta námskeiðið á vegum Verkstjórnarfræðslunnar hefst  12. febrúar nk. Þetta er algjörlega endurnýjað og metnaðarfullt nám sem skiptist í fimm lotur og fer fram í fjarkennslu. Nánari upplýsingar um námið  má finna á vef Nýsköpunarmiðstöðvar

   

  SKATTAR  

 

Of mikil nýsköpun í skattkerfinu

     
 

Skattadagur Deloitte, SA og VÍ var haldinn á Grand Hótel Reykjavík 13. janúar. Þar fjallaði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA um sýn SA á skattkerfið og leiðir til að bæta það. Þorsteinn sagði of mikla nýsköpun hafa átt sér stað í kerfinu á undanförnum árum, fjöldi nýrra skatta hafi verið lagður á atvinnulífið og enginn endir virðist á þeirri þróun.

Glærur Þorsteins má nálgast hér

Nánari umfjöllun um skattadaginn má nálgast á vef Deloitte.
 

  SAMKEPPNISMÁL  
 

Leikreglur samkeppninnar og heimildir eftirlitsaðila

     
 

Samtök atvinnulífsins og LEX lögmannsstofa efndu til morgunverðarfundar þar sem rætt var um samkeppnismál, áhrif samkeppnislaga á efnahagslífið, réttarstöðu fyrirtækja og heimildir eftirlitsaðila. Derek Ridyard, hagfræðingur og sérfræðingur í samkeppnismálum, bar saman eftirlit með markaðsaðilum á Bretlandi og Íslandi og tók dæmi máli sínu til stuðnings. Hann fjallaði sérstaklega um markaðsrannsóknir samkeppnisyfirvalda í Bretlandi þar sem heimilt er að grípa til aðgerða gagnvart skipulagi fyrirtækja án þess að lög hafi verið brotin en slíkar heimildir hafa nýlega verið leiddar í lög hér á landi.

Sjá nánar

   

  SAMFÉLAGSÁBYRGÐ
 

Samfélagsábyrgð og arðbær rekstur eiga samleið

     
 

Samtök atvinnulífsins og Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð efndu til ráðstefnu í Hörpu í morgun þar sem rætt var samfélagsábyrgð og ávinning af ábyrgum stjórnarháttum fyrirtækja. Síðdegisútvarpið á Rás 2 fjallaði um ráðstefnuna í vikunni og ræddi við Þorstein Víglundsson, framkvæmdastjóra SA. Þar sagði hann aðspurður m.a. að samfélagsábyrgð og arðbær rekstur fyrirtækja eigi samleið. Vaxandi áhugi er innan atvinnulífsins á því að taka samfélagsábyrgð föstum tökum og vinna formlega að innleiðingu góðra stjórnarhátta.

Sjá nánar

   

 

Sögur af samfélagsábyrgð

     
 

Festa birtir þessa dagana áhugaverð viðtöl við stjórnendur fyrirtækja um rekstur og samfélagsábyrgð.

Viðtölin má lesa hér.

   

  TAKTU DAGINN FRÁ!
 

Ársfundur atvinnulífsins 16. apríl í Hörpu

     
 

Ársfundur atvinnulífsins 2015 fer fram í Hörpu fimmtudaginn 16. apríl í Silfurbergi. Yfir 500 manns mættu til fundarins sl. vor en þá var  aukin samkeppnishæfni Íslands og leiðir til að bæta lífskjör þjóðarinnar til umfjöllunar. Fundurinn fer fram eftir hádegið en við hvetjum þig til að taka daginn frá nú þegar. Göran Persson mætir og líka þú!

Sjá nánar

   

  SÍÐAST EN EKKI SÍST ...
 

Harmageddon ræðir stöðuna á vinnumarkaði

     
 

Í þættinum Harmageddon á X-inu eru stóru málin oftar en ekki til umfjöllunar. "Hrikalegur útvarpsþáttur sem tekur púlsinn á öllu því helsta sem gerist í þjóðfélaginu í dag." Framkvæmdastjóra SA var boðið í morgunkaffi  til að ræða stöðuna á vinnumarkaði.

Smelltu til að hlusta

 
Samtök atvinnulífsins | Borgartúni 35 | IS-105 Reykjavík | Sími: 591 0000 | Netfang: sa@sa.is
Email Marketing af Outcome frttabrf