Af vettvangi í maí 2013

LEIÐARI

Verkefni nýrrar ríkisstjórnar

"Eitt meginverkefni nýrrar ríkisstjórnar er að bæta starfsumhverfi atvinnulífsins og hvetja til aukinna fjárfestinga. Mikil óvissa og síbreytileg skilyrði á undanförnum árum hafa dregið verulega úr fjárfestingarvilja. Skapa þarf fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum skilyrði til að þau geti og vilji fjárfesta. Til þess þarf að skapa traust og stöðugleika. Stórauknar fjárfestingar eru forsenda öflugs og samkeppnishæfs atvinnulífs sem risið getur undir auknum kaupmætti launa og bættum lífskjörum. Mestu skiptir að fjárfestingar í greinum í alþjóðlegri samkeppni aukist." 

Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA m.a. í leiðaranum, þar sem hann fjallar um viðhorf atvinnulífsins til helstu verkefnanna sem bíða nýrrar ríkisstjórnar og snúa að fyrirtækjunum í landinu.

Sjá nánar »

FRÉTTIR

Jákvætt að flytja til frídaga

Í dag snúa flestir til vinnu á ný eftir fimmtudagsfrí þar sem uppstigningardagur var í gær, en margir taka út orlofsdag og ná þannig fjögurra daga samfelldu fríi. Fyrir tveimur vikum braut sumardagurinn fyrsti vinnuvikuna upp með sama hætti.

Samtök atvinnulífsins hafa lengi talað fyrir tilfærslu þessara daga en með því mætti auka hagræði í rekstri fyrirtækja og stofnana og bæta framleiðni og afköst. Margoft hefur komið fram að slíkar tillögur njóta mikils stuðnings almennings og atvinnulífsins.

Sjá nánar »

Styrking krónu skilar sér í lægra verðlagi

Í yfirlýsingu sem birt er á heimasíðu AS lýsir Gylfi Arnbjörnsson furðu sinni á ummælum Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra SA, í Morgunblaðinu vegna umfjöllunar um verðlagsþróun og gengissveiflur. Virðist forseti ASÍ lesa úr þeim ummælum þá skoðun SA að fyrirtæki eigi ekki að skila styrkingu á gengi krónunnar út í verðlag. Það er fjarri sanni. Í því samhengi er rétt að benda á að verðbólguhraði hefur minnkað umtalsvert á undanförnum mánuðum samhliða styrkingu krónunnar. Afar mikil fylgni er á milli verðlagsþróunar og breytinga á gengi krónunnar og á það ekkert síður við nú.


Sjá nánar »

Orlofsuppbót 2013

Samkvæmt almennum kjarasamningum SA greiðist orlofsuppbót þann 1. júní ár hvert. Full orlofsuppbót á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2013 er kr. 28.700 fyrir flestar starfsgreinar nema verslunarmenn, en þeir fá greiddar kr. 21.600. Við útreikning orlofsuppbótar er litið til starfstíma og starfshlutfalls á síðasta orlofsári, þ.e. frá 1. maí 2012 til 30. apríl 2013, og telst fullt ársstarf í þessu sambandi 45 vikur eða meira fyrir utan orlof. Ekki er greitt orlof ofan á orlofsuppbót.

Sjá nánar »

Vinnustaðaskírteini í fleiri starfsgreinum

SA og ASÍ hafa gert með sér samkomulag um að fella fleiri atvinnugreinar undir samkomulag um vinnustaðaskírteini. Frá 1. maí bættust við samkomulagið ræktun nytjajurta, svína- og alifuglarækt, eggjaframleiðsla, farþegaflutningar á landi og ferðaþjónusta, skrúðgarðyrkja og ýmis þjónustustarfsemi. Eftirlitsfullrúar aðila vinnumarkaðarins munu kynna fyrirtækjum í þessum atvinnugreinum samkomulagið á komandi vikum og mánuðum.

Markmið SA er stuðla að því að samkeppnisskilyrði fyrirtækja séu sem jöfnust og hafa SA því tekið þátt í þessu verkefni. Svört atvinnustarfsemi skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja en eftirlitið hefur m.a. leitt til þess að fjöldi einstaklinga hefur verið felldur af atvinnuleysisbótum sem þeir hafa þegið meðfram svartri vinnu.

Sjá nánar »

SAMKEPPNISMÁL

Frelsi í farþegaflutningum um Reykjanesbraut verði tryggt

Hætta er á að frelsi í flutningi flugfarþega með rútum um Reykjanesbraut verði afnumið og einu fyrirtæki veitt einkaleyfi á að flytja farþega til og frá Leifsstöð að afloknu útboði Vegagerðarinnar og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS). Samtök atvinnulífsins og Samtök ferðaþjónustunnar hafa mótmælt þessu harðlega og hvatt Samkeppniseftirlitið til að skerast í leikinn. Að öðrum kosti verði málið kært til Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem SA og SAF telja að um sé að ræða brot á grundvallarreglum evrópsks samkeppnisréttar.

Sjá nánar »

90 MÍNÚTUR

Samstaða um að örva atvinnulífið

Samtök atvinnulífsins efndu til opins umræðufundar með formönnum fimm stærstu stjórnmálaflokkanna rétt rúmri viku fyrir kosningar til að heyra afstöðu þeirra til helstu hagsmunamála atvinnulífsins. Upptöku af fundinum má nálgast á vef SA.

Mjög ánægjulegt er að á fundinum kom fram mkill vilji til samstarfs við atvinnulífið og aðila vinnumarkaðarins til að tryggja stöðugleika, vinna að breytingum á skattkerfinu, auka fjárfestingar, móta peningastefnu til framtíðar og afnema gjaldeyrishöftin. Formennirnir sögðust fúsir til að vinna saman að lausn viðfangsefna til að örva atvinnulífið og bæta lífskjör almennings.


Sjá nánar » 

EFNAHAGSMÁL

Vaxtalækkun nauðsynleg til að örva fjárfestingu

Á síðasta einu og hálfu ári hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti sex sinnum, úr 4,25% í 6,0%, eða um 1,75%. Ákvarðanir peningastefnunefndar bankans byggja jafnan á spá bankans um stöðu og horfur í efnahagsmálum. Eins og fram kemur í yfirliti Samtaka atvinnulífsins sem birt var 23. apríl hafa þessar vaxtaákvarðanir byggst á því að umtalsverður vöxtur væri í efnahagslífinu og fjárfestingum, einkum fjárfestingum atvinnulífsins. Ákvarðanirnar hafa byggst á áætlunum bankans að samanlagður hagvöxtur áranna 2012 og 2013 yrði 4,7%-5,5% og fjárfestingar ykjust samtals um 15-30%.

Sjá nánar »

VINNUMARKAÐURINN

80% hækkun launa skilaði 3% aukningu kaupmáttar

Mikilvægt er að líta til annarra norrænna ríkja, sér í lagi Svíþjóðar og Danmerkur, við gerð næstu kjarasamninga, þar sem áhersla hefur verið lögð á að móta samræmda launastefnu í kjaraviðræðum fyrir allan vinnumarkaðinn og halda verðbólgu í skefjum. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í umfjöllun Morgunblaðsins. Samanburður milli landanna er sláandi.

Sjá nánar »

SAMFÉLAGSÁBYRGÐ

Ölgerðin skrifar undir Global Compact

Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefur skrifað undir Global Compact - sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Í því felst skuldbinding til að framfylgja tíu viðmiðum um samfélagsábyrgð. Þau viðmið snúa að mannréttindum, starfsmannamálum, umhverfi og aðgerðum gegn spillingu. Árlega verður gefin út skýrsla um framgang þeirra viðmiða ásamt ítarlegu samfélagsábyrgðarverkefni Ölgerðarinnar.

Að sögn Svanhildar Sigurðardóttur hjá Ölgerðinni hefur verið unnið að því undanfarin ár að marka félaginu skýra stefnu í samfélagsábyrgð. Í tilefni af eitt hundrað ára afmæli Ölgerðarinnar var ákveðið að ráðast í 100 verkefni.

Sjá nánar »

Viltu kynna þér Global Compact?

Samtök atvinnulífsins eru tengiliður á Íslandi við Global Compact. Sameinuðu þjóðirnar hleyptu verkefninu af stokkunum í júlí árið 2000 en um er að ræða 10 viðmið sem fyrirtæki setja sér að fara eftir. Fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu geta notað Global Compact til að gera viðskiptavinum sínum, birgjum og opinberum aðilum grein fyrir samfélagsstefnu sinni.


Meira en sjö þúsund fyrirtæki hafa skrifað undir Global Compact í heiminum en alls hafa yfir yfir 10.000 aðilar hafa skrifað undir sáttmálann í 145 löndum. Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sér það markmið að 20 þúsund fyrirtæki hafi skrifað undir sáttmálann árið 2020 með það að markmiði að auka sjálfbærni efnahagslífs heimsins.

Áhugasamir geta haft samband við Hörð Vilberg hjá SA í síma 591-0005.

 
 Hús atvinnulífsins
Hús atvinnulífsins 
Borgartúni 35 - 105 Reykjavík
 
 
 
 
 
 
Hefurðu lesið tímarit SA?

 

 

Samtök atvinnulífsins | Borgartúni 35 | IS-105 Reykjavík | Sími: 591 0000 | Netfang: sa@sa.is
Smelltu hér til að afskrá þig.
Email Marketing af Outcome frttabrf