Af vettvangi í janúar 2016

SA fréttabréf header
 

Mikilvægur áfangi

     
 

Með undirritun kjarasamninga í gær er tryggður friður á vinnumarkaði til næstu þriggja ára. Með umsömdum launahækkunum og hærri greiðslum í lífeyrissjóði er gengið mjög nærri getu fyrirtækjanna. Það mun reyna mjög á þau og þess vegna eru mótvægisaðgerðir stjórnvalda nauðsynlegar til að kostnaðurinn fari ekki að stórum hluta út í verðlag.

Lykilþættir til að auka samkeppnishæfni atvinnulífsins er að lækka skatta og gjöld, afnema gjaldeyrishöftin og að dregið verði úr reglubyrði sem leggst sérstaklega þungt á lítil fyrirtæki. Sérstaklega mikilvæg eru fyrirheit sem fjármálaráðherra hefur gefið að tryggingagjald sem leggst á öll laun verði lækkað umtalsvert í áföngum á næstu árum.

Sjá nánar
 

 


Samningurinn er lykill að því að taka upp ný vinnubrögð við gerð samninga á íslenskum vinnumarkaði.

 
  FRÉTTIR  
 

Nýr kjarasamningur SA og ASÍ til 2019

     
 

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands skrifuðu undir nýjan kjarasamning síðdegis í gær, fimmtudaginn 21. janúar. Samningurinn fer nú til kynningar hjá samningsaðilum og atkvæðagreiðslu og skulu niðurstöður liggja fyrir eigi síðar en 26. febrúar. Samningurinn gildir til loka árs 2018 og byggir á svokölluðu Rammasamkomulagi frá 27. október sl. og bókun með kjarasamningum SA og aðildarfélaga ASÍ um jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins.

Samningurinn kveður á um breytingar á kjarasamningum sem gerðir voru milli samningsaðila frá maí til september 2015, en með gerð Rammasamkomulagsins í október síðastliðnum var mótaður sameiginlegur kostnaðarrammi kjarasamninga til ársloka 2018. Sá kostnaðarrammi hljóðaði upp á 32% hækkun launakostnaðar að meðaltali á tímabilinu nóvember 2013 til ársloka 2018, að teknu tilliti til breytinga á lífeyrisiðgjöldum, á samningstímanum. 

Sjá nánar
 

   

 

Menntadagur atvinnulífsins 2016

     
 

Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður í kastljósinu á menntadegi atvinnulífsins 28. janúar næstkomandi en þetta er í þriðja sinn sem dagurinn er haldinn. Boðið verður upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá auk þess sem menntaverðlaun atvinnulífsins verða veitt fyrirtækjum sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála.

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Menntadagurinn er haldinn á Hilton Reykjavík Nordica og er vissara að skrá þátttöku tímanlega til að tryggja sér pláss.

Sjá nánar

 

Hvaða fyrirtæki fá menntaverðlaun atvinnulífsins 2016?

Marel, Samskip, Síldarvinnslan og Nordic Visitor hafa hlotið verðlaunin til þessa sem eru nú veitt í þriðja sinn.

 
 

Fyrirbyggjum einelti og áreitni á vinnustöðum

     
 

Ný reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum hefur tekið gildi. Markmið nýrra reglna er að fyrirbyggja einelti og áreitni með forvörnum og áhættumati. Atvinnurekenda ber að  gera starfsmönnum ljóst með skýrum hætti að slík hegðun sé óheimil og grípa  til aðgerða í samræmi við skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi.

Nýja reglugerðin tók gildi í lok árs 2015 og kemur í stað eldri reglugerðar frá árinu 2002. Á öllum vinnustöðum er skylt að framkvæma áhættumat, sbr. lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. 

Sjá nánar

   

  DAGATALIÐ  

 

Ársfundir framundan ...

     
 

19. febrúar. Ársfundur Samorku á Icelandair Hótel Natura.

10. mars. Aðalfundur SI og Iðnþing á Hilton Reykjavík Nordica.

15.-16. mars. Aðalfundur SAF á Hilton Reykjavík Nordica.

17. mars. Ársfundur SVÞ í Húsi atvinnulífsins og opin ráðstefna á Hilton Reykjavík Nordica.

1. apríl. Ársfundur SFS á Hilton Reykjavík Nordica.

7. apríl. Aðalfundur SA og Ársfundur atvinnulífsins í Hörpu.

   

  STARFSUMHVERFI  

 

Kennitöluflakk síbrotamanna þrengi ekki að heiðarlegum rekstri

     
 

Mikilvægt er að stjórnvöld gæti meðalhófs í baráttu sinni við kennitöluflakk. Þó svo um sé að ræða mikinn löst í atvinnulífinu sem nauðsynlegt er að sporna við af festu, verður að hafa í huga að um er að ræða fámennan hóp rekstraraðila sem vísvitandi brjóta gegn lögum og reglum. Að herða á regluverkinu í baráttunni við aðila sem sýna af sér einbeittan brotavilja er ekki til árangurs fallið og mun aðeins bitna á þeim yfirgnæfandi meirihluta atvinnurekenda sem standa heiðarlega að sínum rekstri.

Sjá nánar

  Allt of langt gengið í því að gera litlum fyrirtækjum að skila reikningum sínum til opinberrar birtingar.  

  SAMFÉLAGSÁBYRGÐ  

 

Árangur og ábyrg fyrirtæki

     
 

Árleg ráðstefna um samfélagsábyrgð fyrirtækja verður haldin í þriðja sinn í Hörpu fimmtudaginn 28. janúar. Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð og Samtök atvinnulífsins standa að ráðstefnunni.

Fjölbreytt þekking verður þar borin á borð ásamt því sem stjórnendur deila reynslu sinni um hvernig hægt er að ná árangri í rekstri og hafa jákvæð áhrif á samfélagið.

Sérstakur gestur ráðstefnunnar er Mads Øvlisen, fyrrum stjórnarformaður og forstjóri Novo Nordisk, og stjórnarformaður Lego á árunum 1996-2006.

Øvlisen er formaður ráðgjafanendar UN Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð en Samtök atvinnulífsins eru tengiliður á Íslandi við Global Compact.

Sjá nánar

 

 

  SKATTAR  

 

Skattbyrði nánast hvergi meiri en á Íslandi

     
 

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, hélt erindi á Skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins í janúar. Í erindi Ásdísar var farið m.a. yfir áhrif skattahækkana undangenginna ára á vaxandi hagkerfi. Eðli máls samkvæmt aukast skatttekjur á góðæristímum og hafa tekjur ríkissjóðs vaxið mikið á síðastliðnum árum.

Í stað þess að nýta svigrúmið til að vinda ofan af nýlegum skattahækkunum hefur auknum tekjum fremur verið varið í aukin útgjöld hins opinbera og eftir stendur að tekjuauki vegna nýrra skatta sem lagðir hafa verið á fyrirtækin frá árinu 2008 nemur um 85 ma.kr. Er svo kom komið að skatttekjur hins opinbera nálgast það sem mest var fyrir hrun og eru ekki aðeins háar í sögulegum heldur einnig alþjóðlegum samanburði. Skattbyrði er nánast hvergi meiri meðal þróaðara ríkja og skyldi engan undra því hún stendur undir opinberum útgjöldum sem einnig eru með því hæsta sem þekkist innan OECD.

Sjá nánar

   

  VINNUMARKAÐUR  

 

Árið 2016 gæti orðið mjög gott ár

     
 

Allar forsendur eru fyrir því að árið 2016 geti orðið farsælt ár fyrir Íslendinga en fjölmörg viðvörunarljós hafa kviknað sem stjórnvöld, atvinnulíf og verkalýðshreyfing verða að taka mark á. Samtök atvinnulífsins rýndu í helstu verkefni ársins með fjölmiðlum fimmtudaginn 7. janúar en gögn frá fundinum eru aðgengileg á vef SA.

Sjá nánar 

 

Árið 2016 mun einkennast af vexti á nær öllum sviðum atvinnulífsins. Kaupmáttur er meiri en nokkru sinni og bjartsýni neytenda hefur aukist.

 

 

Lækkun framlags til VIRK í 0,10% af stofni iðgjalds

     
 

VIRK Starfsendurhæfingarsjóður hafði frumkvæði að því við fjármálaráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra að gjöld sem atvinnulífið greiðir til að fjármagna starfsendurhæfingu verði lækkuð tímabundið árin 2016 og 2017 auk þess að áætlað framlag ríkisins til VIRK árið 2016 verði lægra en fyrirhugað var. Ástæðan er m.a sú að fyrirséð er að fjölgun einstaklinga í þjónustu VIRK verði minni á næsta ári en áætlað var vegna þess að upptaka starfsgetumats í stað örorkumats frestast, en upptaka þess mun hafa í för með sér aukna þjónustu við þá sem tímabundið hafa horfið af vinnumarkaði vegna veikinda eða slysa.

Sjá nánar

   

  MENNTAMÁL  

 

Áttin léttir stjórnendum lífið 

     
 

Áttin er ný vefgátt sem greiðir leið fyrirtækja að umsóknum um styrki til fræðslu starfsfólks frá starfsmenntasjóðum og fræðslustofnunum. Fyrirtæki þar sem starfsmannahópurinn er fjölbreyttur og greitt er af í mismunandi stéttarfélög, hafa hingað til þurft að sækja til margra sjóða og fræðslustofnana um styrki. Þau eiga héðan í frá að geta sótt um styrki fyrir nær allt sitt fólk með aðeins einni umsókn í gegnum Áttina. 

Áttin er sameiginlegt verkefni SA, ASÍ og átta fræðslusjóða sem standa að vefgáttinni en hún verður kynnt á menntadegi atvinnulífsins 28. janúar á Hilton Nordica.

Kynntu þér Áttina

 

Aðeins ein umsókn um styrki til fræðslu fyrir starfsfólkið.

 

 

Fáðu fræðslustjóra að láni

     
 

Stjórn starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks (SVS) hefur samþykkt að hrinda af stað átaki með verkefnið "Fræðslustjóri að láni". Átakið er óháð rétti fyrirtækjanna í sjóðinn og einskorðast við fyrirtæki innan Samtaka atvinnulífsins sem greitt hafa til SVS sl. 12 mánuði og eru með heildarfjölda starfsmanna á bilinu 7 til 25. Minni fyrirtæki hafa hingað til ekki átt þess kost að sækja um "Fræðslustjóra að láni" til sjóðsins vegna takmarkaðs réttar þeirra. Sjóðurinn mun að öllu leyti standa straum af kostnaði verkefnisins af hálfu SVS. Átakið stendur til 31. maí 2017.

Sjá nánar

   

  SAMTÖK ATVINNULÍFSINS  

 

Breytingar á skrifstofu SA

     
 

Samtök atvinnulífsins hafa ráðið tvo nýja starfsmenn á skrifstofu samtakanna, Ingibjörgu Björnsdóttur og Hrafnhildi Stefánsdóttur og hafa þær þegar hafið störf. Álfheiður M. Sívertsen sem lét af störfum hjá SA í desember hefur hafið störf hjá Icelandair.

Sjá nánar

   

Samtök atvinnulífsins | Borgartúni 35 | IS-105 Reykjavík | Sími: 591 0000 | Netfang: sa@sa.is
Email Marketing af Outcome frttabrf