Fréttir - 

10. desember 2014

Verðbólguvæntingar stjórnenda minnka

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Verðbólguvæntingar stjórnenda minnka

Fleiri stjórnendur telja að aðstæður í atvinnulífinu séu góðar en slæmar samkvæmt könnun Capacent meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins. Tæplega helmingur stjórnenda telur að aðstæður batni á næstu sex mánuðum og álíka stór hópur telur þær verða óbreyttar. Nægt framboð er af starfsfólki en helst skortir starfsmenn í iðnaði og byggingarstarfsemi. Stjórnendur gera ráð fyrir fremur lítilli fjölgun starfsmanna næstu sex mánuði. Að jafnaði vænta stjórnendur 2,5% verðbólgu næstu 12 mánuði og hafa verðbólguvæntingar þeirra ekki verið minni síðastliðin fjögur ár. Þetta eru helstu niðurstöður könnunar á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja landsins sem gerð var í desember 2014 fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands.

Fleiri stjórnendur telja að aðstæður í atvinnulífinu séu góðar en slæmar samkvæmt könnun Capacent meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins. Tæplega helmingur stjórnenda telur að aðstæður batni á næstu sex mánuðum og álíka stór hópur telur þær verða óbreyttar. Nægt framboð er af starfsfólki en helst skortir starfsmenn í iðnaði og byggingarstarfsemi. Stjórnendur gera ráð fyrir fremur lítilli fjölgun starfsmanna næstu sex mánuði. Að jafnaði vænta stjórnendur 2,5% verðbólgu næstu 12 mánuði og hafa verðbólguvæntingar þeirra ekki verið minni síðastliðin  fjögur ár. Þetta eru helstu niðurstöður könnunar á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja landsins sem gerð var í desember 2014 fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands.

Aðstæður almennt góðar í atvinnulífinu

Mat stjórnenda á aðstæðum í atvinnulífinu hefur farið batnandi eftir því sem liðið hefur á árið og er nú orðið sambærilegt við mat þeirra haustið 2007. 35% stjórnenda telja aðstæður í atvinnulífinu vera góðar, 10% að þær séu slæmar en 55% að þær séu hvorki góðar né slæmar. Í öllum atvinnugreinum telja fleiri stjórnendur aðstæður vera góðar en slæmar, en stærsti hópurinn telur þær hvorki góðar né slæmar.

Flestir telja að aðstæður verði betri eftir 6 mánuði

Flestir stjórnendanna telja að aðstæður í efnahagslífinu verði betri eftir sex mánuði. Tæpur helmingur, 48%, telur aðstæður verða betri, heldur færri, 46%, að þær verðir óbreyttar en aðeins 8% að þær verði verri. Vísitala efnahagslífsins eftir sex mánuði, sem sýnir mismun á fjölda þeirra sem telja að ástandið batni og þeim sem telja að það versni, fær gildi 172 sem er með því hæsta sem mælst hefur í þessari könnun. Stjórnendur í öllum atvinnugreinum eru bjartsýnir á framvinduna en hún er mest í byggingariðnaði, fjármálaþjónustu og verslun. Meiri bjartsýni gætir á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

undefined

Nægt framboð af starfsfólki

Nægt framboð virðist vera á starfsfólki sem er svipuð staða og undanfarin þrjú ár. 84% stjórnenda telja ekki skort skort á starfsfólki og hækkaði hlutfallið úr 81% í síðustu könnun. Skorturinn er sem fyrr mestur í byggingarstarfsemi og iðnaði, þar sem um fjórðungur stjórnenda telja skort ríkjandi.

Ekki búist við fjölgun starfsmanna á næstunni

Starfsfólk fyrirtækjanna í könnuninni telur tæplega 30 þúsund. 25% stjórnenda sjá fram á fjölgun starfsmanna á næstu sex mánuðum, 11% sjá fram á fækkun en 64% búast við óbreyttum fjölda. Þegar svör stjórnenda eru vegin saman með starfsmannafjölda fyrirtækjanna fæst að starfsmannafjöldi þeirra í heild á næstu sex mánuðum muni aukast um rúmlega 0,2%, sem samsvarar um 250 störfum. Mest starfsmannafjölgun er áformuð í iðnaði, en þar á eftir í þjónustu og byggingarstarfsemi. Það eru einkum meðalstór fyrirtæki, með 40-100 starfsmenn, sem áforma fjölgun starfsmanna.  

undefined

Aukin eftirspurn innanlands og erlendis

Að jafnaði eru stjórnendur bjartsýnir á þróun eftirspurnar innanlands. Rúmlega 40% þeirra búast við aukinni eftirspurn á næstu sex mánuðum, rúmur helmingur að hún standi í stað en einungis 5% að hún minnki. Enn betri horfur virðast vera um eftirspurn á erlendum mörkuðum á næstu sex mánuðum því rúmlega 60% stjórnenda telja að hún aukist en aðrir að hún verði óbreytt.

Væntingar um 2,5% verðbólgu á næsta ári

Verðbólguvæntingar stjórnenda hafa minnkað frá síðustu könnunum og eru nú eins og verðbólgumarkmið Seðlabankans. Verðbólguvæntingarnar eru minni en þær hafa verið í fjögur ár. Miðgildi væntinga stjórnenda um verðbólgu næstu 12 mánuði er 2,5% en að meðaltali búast þeir við 2,3% hækkun vísitölu neysluverðs á næstu 12 mánuðum.

undefined

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Capacent. Einföld könnun með 7 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 10. nóvember til 4. desember 2014 og voru spurningar 7. Í úrtaki voru 450 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 275 þeirra þannig að svarhlutfall var 61%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Iðnaður, (2) sjávarútvegur, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) flutningur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins