Fréttir - 

04. nóvember 2015

Tækifæri við byggingu nýs sjúkrahúss

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tækifæri við byggingu nýs sjúkrahúss

Rannsóknarstofnun atvinnulífsins við Háskólann á Bifröst leggur til að áform um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut verði endurskoðuð og rekstrarformi á hluta starfsemi spítalans verði breytt. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu stofnunarinnar sem kynnt var í morgun.

Rannsóknarstofnun atvinnulífsins við Háskólann á Bifröst leggur til að áform um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut verði endurskoðuð og rekstrarformi á hluta starfsemi spítalans verði breytt. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu stofnunarinnar sem kynnt var í morgun.

Á nýjum stað
Bent er á að hægt sé að byggja nýtt sjúkrahús á betri stað en við Hringbraut. Það sé hagkvæmara og skynsamlegra út frá skipulagsmálum að byggja nær miðju höfuðborgarsvæðisins. Þar megi byggja sambærileg sjúkrahús og verið er að byggja á Norðurlöndunum um þessar mundir en þau eru hærri en hægt er að byggja við Hringbraut.  Á nýjum stað yrði hægt að byggja nútímalegt sjúkrahús frá grunni sem tekur ekki eins mikið pláss eins og við Hringbraut. Fyrirhugað er að nýr spítali við Hringbraut verði í 17 byggingum sem tengdar verða saman með göngum, ofan- og neðanjarðar.  Við Hringbraut þarf ennfremur að endurbyggja stóran hluta af gömlu og illa förnu húsnæði en bent er á það í skýrslunni að kostnaður við þær framkvæmdir sé að öllum líkindum stórlega vanmetinn.

Þá segir að forsendur fyrir staðsetningu á nýjum spítala við Hringbraut séu ekki lengur fyrir hendi þar sem ekki er gert ráð fyrir nýjum umferðarmannvirkjum líkt og var í upphafi þegar ákvörðun um byggingu nýs spítala við Hringbraut var tekin. Kostnaður við þau hefur verið metinn um 20 milljarðar króna. Með því að byggja á nýjum stað losnar eitt verðmætasta byggingarsvæði landsins sem býður upp á mikla þróunarmöguleika fyrir miðborgina.

Við Hringbraut
Verði það niðurstaða stjórnmálamanna að byggja nýjan Landspítala við Hringbraut má eftir sem áður nýta betur fjármagn en núverandi áætlanir gera ráð fyrir og nýta þjónustu í heilbrigðiskerfinu sem þegar er til staðar í stað þess að auka umfang hins opinbera í samkeppni við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk.

Í skýrslunni er lagt til að byggð verði heilsugæslustöð við hlið nýs sjúkrahúss (óháð staðsetningu þess) sem verði opin allan sólarhringinn. Með því megi minnka álag á bráðamóttökuna og efla heilsugæsluna sem hefur verið brýnt að gera um margra ára skeið. Með þessu mætti mætti spara 100 milljónir á ári en núverandi áform gera ráð fyrir 100 þúsund komum á ári á bráðamóttökuna. Lagt er til að reksturinn verði í höndum sjálfstætt starfandi sérfræðinga en með fjölbreyttari rekstrarformum aukast tækifæri starfsfólks til að velja sér starfsvettvang innan heilbrigðiskerfisins.

Þá má minnka umfang fyrirhugaðra bygginga við Hringbraut um 20-30% en hækka þær um eina hæð í staðinn. Með því móti mætti lækka byggingarkostnað um 6 milljarða án þess að það kæmi niður á gæðum. Hægt væri að spara tvo milljarða til viðbótar með því að sleppa að byggja nýtt opinbert sjúkrahótel en nýta þess í stað þjónustu sem þegar er til staðar. Þá er ónefnt hagræði sem gæti náðst fram með því að útvista verkefnum og bjóða út, t.d. öldrunarþjónustu, endurhæfingu, rannsóknir, dag- og göngudeildarþjónustu, eldhús og þvottahús. Strangar kröfur yrðu gerðar um gæði þjónustunnar og kostnað og Landspítalinn gæti einbeitt sér að dýrari aðgerðum og flóknari aðgerðum – sinni kjarnastarfsemi.

Hver á steypuna og tækin?
Tækjaskortur og skortur á viðhaldi bygginga Landspítalans hefur verið algengt fréttaefni undanfarin misseri en lagt er til að opinbert hlutafélag muni eiga og reka byggingar og tæki sem verða svo leigð nýjum Landspítala (óháð staðsetningu). Þetta mun gefa stjórnendum spítalans aukna möguleika á að einbeita sér að rekstri og þjónustu spítalans í stað þess að nota dýrmætan tíma til að reka og sinna viðhaldi húsnæðis og tækja eða fjármögnun þeirra. Tryggja mætti spítalanum auknar tekjur með því að leigja tækin aðilum utan spítalans þegar þau eru ekki í notkun.

Viðkvæmur tími fyrir stórframkvæmdir
Rannsóknarstofnun atvinnulífsins bendir á að hætta á ofþenslu í hagkerfinu hafi sjaldan verið augljósari en nú. Kostnaður við byggingu ný spítala sé metinn á um 87 milljarða króna á næstu fimm árum en lagt er til að fram fari ítarlegir kostnaðarútreikningar á hverri framkvæmd verkefnisins og framkvæmdir ekki hafnar á einstökum byggingum fyrr en fjármagn hafi verið tryggt og hönnun lokið. Ekki síst þar sem sagan bendi til þess að opinberar framkvæmdir fari nánast alltaf fram úr fjárhagsáætlunum.

Skýrsluhöfundar komast raunar að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast sé að fresta byggingu nýs sjúkrahúss um tvö til þrjú ár og nýta þann tíma til að leita leiða til að minnka umfang fyrirhugaðra bygginga og kanna fýsileika nýrrar staðsetningar. Það eigi ekki að tefja málið, hægt sé að nýta mikið af þeirri vinnu sem unnin hafi verið nú þegar.  Nýtt mat á staðsetningu á nýju sjúkrahúsi þurfi ekki að taka nema 6-12 mánuði. Verði ákveðið í framhaldinu að flytja spítalann þurfi að breyta skipulagi og geti það ferli tekið 2-3 ár. Á þeim tíma væri hægt að hanna nýjan spítala. Hönnunin geti verið tilbúin þegar formlegri skiplagsvinnu lýkur. Í framhaldinu yrði heildarútboð á verkinu og gæti framkvæmdatími verið tvö til þrjú ár. Í heild myndi allt ferlið taka um 5-6 ár sem er svipaður tími og gert er ráð fyrir við Hringbraut.

Skýrsluna má nálgast hér (PDF)

Skýrslan sem var unnin fyrir Samtök atvinnulífsins og Samtök verslunar og þjónustu var kynnt á fjölsóttum umræðufundi Samtaka atvinnulífsins og Háskólans á Bifröst sem fram fór í morgun. Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að málefnaleg umræða fari fram um byggingu nýs  sjúkrahúss og að til svo umfangsmikillar opinberrar framkvæmdar sé vandað. 

undefined

Glærukynningar frá fundinum:

Gunnar Alexander Ólafsson, heilsuhagfræðingur og verkefnastjóri við Háskólann á Bifröst (PDF)

Gunnar Tryggvason, verkefnastjóri hjá KPMG (PDF)

Hilmar Þór Björnsson arkítekt (PDF)

Samtök atvinnulífsins