Ávinningur aðgangsstýringar margfaldur

100% nýting var alla daga í júlí og ágúst í …
100% nýting var alla daga í júlí og ágúst í Bláa Lóninu. Ljósmynd/Ari Magg

Stærsta áskorun sem Bláa lónið hefur þurft að glíma við á síðustu árum er mikil fjölgun gesta og miklar sveiflur í eftirspurn innan dagsins. Árið 2013 hófst fyrsti áfangi í átt að aðgangsstýringu að lóninu og stuðlar hún greinilega að ánægju gesta.

Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Dagnýjar Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Bláa lónsins á umræðufundi Samtaka atvinnulífsins um ferðaþjónustuna sem fram fór í Hörpu í dag. Í erindi Dagnýjar var farið yfir þann margfalda ávinning sem aðgangsstýring í Bláa lónið hefur haft í för með sér.

Raðir eða aðrir neikvæðir þættir koma ekki til greina

Að sögn Dagnýjar var það í ársbyrjun 2012 sem stjórnendur Bláa lónsins settust niður og gerðu tveggja ára áætlun að því að þróa rafrænt bókunarkerfi þar sem þau sáu fyrir að þau myndu ekki hafa endalaust umframframboð á aðgangi í Bláa lónið.  „Við ætluðum okkur að ráða við þann mikla vöxt sem framundan var því eitt það verðmætasta sem við eigum er orðsporið.  Við erum upplifunarfyrirtæki og raðir eða aðrir neikvæðir þættir í upplifun gesta koma ekki til greina af okkar hálfu,“ sagði Dagný. 

Benti hún á að ferðaþjónusta á Íslandi hefði verið keyrð áfram af forsendum um nægt framboð en núna er staðan önnur. „Við erum í eftirspurn og verðum að taka stjórnina til að koma í veg fyrir slæma upplifun og umtal.“

„Við ætluðum okkur að ráða við þann mikla vöxt sem …
„Við ætluðum okkur að ráða við þann mikla vöxt sem framundan var því eitt það verðmætasta sem við eigum er orðsporið. Við erum upplifunarfyrirtæki og raðir eða aðrir neikvæðir þættir í upplifun gesta koma ekki til greina af okkar hálfu,“ sagði Dagný. Ljósmynd/María Rúnarsdóttir

Mannaflastýring lykill að góðum rekstri

Í búningsklefum Bláa lónsins eru hátt í 750 skápar sem að sögn Dagnýjar er takmarkandi  þáttur á sama hátt og að í hverri flugvél eru ákveðinn fjöldi sæta.  „Mér finnst samanburðurinn úr rekstrarumhverfi flugfélags endurspegla þetta, hvernig það væri ef ekki væri vitað hve margir farþegar yrðu í hverri vél fyrr en búið væri að innrita alla,“ sagði Dagný.

Bætti hún við að nýting rekstrarfjármuna yrði mjög sveiflukennd í slíku umhverfi og þar sem launakostnaður er langstærsti kostnaðarliðurinn í ferðaþjónustu, þ.m.t. hjá Bláa lóninu er mannaflastýring lykillinn að góðum rekstri og til þess þarf mannaflaþörfin að liggja fyrir hverju sinni. 

Voru ekki að finna upp hjólið

Fyrsti áfangi í átt að aðgangsstýringu hjá Bláa lóninu var tekinn í gagnið vorið 2013 þegar  opnað var fyrir einstaklingabókanir á heimasíðu lónsins. 

„Við komum þeim skilaboðum út á markaðinn að nauðsynlegt væri að bóka aðganginn fyrirfram, annars gætum við ekki tryggt gestum aðgang þar sem uppselt væri á álagstímum.  Þetta fór fljótt að spyrjast út á samfélagsmiðlum,“ útskýrði Dagný. „Slíkt fyrirkomulag þekkist vel erlendis á vinsælum ferðamannastöðum, við erum ekki að finna upp hjólið.“

Að sögn Dagnýjar er eftirspurn innan dagsins er misjöfn, sumir tímar dagsins eru mun vinsælli en aðrir.  „Jaðartímarnir, í byrjun og í lok dags voru vannýttir,“ sagði Dagný.  „Til þess að geta með góðu móti tekið á móti öllum þeim gestum sem við bjuggumst við núna í sumar þá sáum við það að við yrðum að ýta upp nýtingu á þessum jaðartímum.“

100% nýting allan júlí og ágúst

Í maí síðastliðinn byrjuðu stjórnendur Bláa lónsins að aðlaga verðlagningu eftirspurn innan dagsins og þannig hvetja fleiri gesti til að nýta jaðartímana sem voru ódýrari.  Að sögn Dagnýjar er árangurinn nánast fullkomin dreifing gesta í sumar og 100% nýting á hverjum einasta degi í júlí og ágúst. 

Dagný segir áhrif aðgangsstýringarinnar sjást greinilega á niðurstöðum reglulegra ánægjukannanna þar sem almenn ánægja, virði heimsóknar og svokallað NPS eða Net promotor score er mælt. 

„Við sjáum greinilega á niðurstöðum þessara kannana að aðgangsstýringin hefur stuðlað að aukinni ánægju gesta og það sem mikilvægara er er að gestir segja að heimsóknin í Bláa lónið sé meira virði núna en í fyrrasumar þrátt fyrir 20% fjölgun gesta,“ útskýrði Dagný. „Þetta er bein afleiðing af þeirri fjárfestingu sem við fórum í við stækkun á lóninu, fjárfestingu í þjónustu og upplifun gesta með mikilli fjölgun í okkar frábæra framlínuteymi sem og aðgangsstýringunni sem tryggir jafna dreifingu innan dagsins sem eyðir biðtíma og biðröðum.“

Vilja vera öðrum í greininni hvatning

Bætti hún við að búið væri að fjárfesta mikið í þjónustu við gesti lónsins og mikilvægt væri að gera  sér grein fyrir því að þeir gestir sem veldu dýrustu pakkana með mestu þjónustunni, væru ánægðastir.

„Við höfum rutt brautina hér á landi með innleiðingu á aðgangsstýringu með jákvæðum árangri.  Við vonum að þetta verði öðrum í greininni hvatning því ávinningurinn er margfaldur,“ sagði Dagný.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka