Efnahagsmál - 

14. júní 2017

Seðlabankinn lækkar vexti

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Seðlabankinn lækkar vexti

Stýrivextir Seðlabankans voru lækkaðir í morgun um 0,25% og er þetta önnur vaxtalækkunin á tæplega einum mánuði. Vaxtalækkunin er í takt við væntingar SA enda hnigu sterk rök að vaxtalækkun.

Stýrivextir Seðlabankans voru lækkaðir í morgun um 0,25% og er þetta önnur vaxtalækkunin á tæplega einum mánuði. Vaxtalækkunin er í takt við væntingar SA enda hnigu sterk rök að vaxtalækkun.

Vegur þar þyngst að verðbólguhorfur hafa batnað lítillega milli funda samhliða styrkingu krónunnar  auk þess sem verðbólguvæntingar til skamms og langs tíma hafa lækkað. Af því leiðir að helsti mælikvarði á aðhald peningastefnunnar, raunvextir Seðlabankans, hækkuðu milli funda. Telja má líklegt að peningastefnunefnd telji núverandi aðhald nægjanlegt og muni því hnika nafnvöxtum eitthvað niður ef verðbólguhorfur batna enn frekar, án þess þó að lækka raunvexti.

Raunvextir á Íslandi eru mun hærri en í viðskiptalöndunum og breytir vaxtalækkunin í morgun litlu þar um þar sem raunvaxtastigið helst nánast óbreytt.

Þrátt fyrir að núverandi uppsveifla hafi varað í á sjöunda ár er þjóðhagslegur sparnaður enn mikill á Íslandi og hefur ekki mælst meiri í 50 ár. Í 40 mánuði samfleytt hefur verðbólga verið við markmið en ársverðbólga mælist í dag 1,7%. Verðbólgan er að stærstum hluta vegna framboðsskorts á húsnæði en  hátt vaxtastig eykur vandann. Ef horft er framhjá áhrifum verðhækkana á húsnæði þá mælist 2,6% verðhjöðnun á Íslandi.

Það má með sanni segja að Íslendingar eru í undarlegri stöðu og er Seðlabankinn að máta sig við breyttan veruleika. Það er óumdeilt að á tímum góðæris þarf peningastefnan að vera aðhaldssöm, þó umdeilanlegt sé að hvaða marki. Raunvextir á Íslandi eru mun hærri en í viðskiptalöndunum og breytir vaxtalækkunin í morgun litlu þar um þar sem raunvaxtastigið helst nánast óbreytt.

Þrátt fyrir tvær vaxtalækkanir í röð þá er vaxtamunur við útlönd enn mikill. Svo mikill vaxtamunur skapar vanda, fjármagn streymir til landsins sem ýtir undir styrkingu krónunnar. Þó svo Seðlabankinn hafi reynt að girða fyrir innstreymið með innflæðishöftum þá er vaxtamunurinn enn orsakavaldur í styrkingu krónunnar.

Hættan af verulegri gengisstyrkingu er öllum ljós. Útflutningsgreinar eru grunnur heilbrigðrar gjaldeyrisöflunar en mikil styrking krónunnar veikir samkeppnisstöðu þeirra á erlendri grundu. Það er lykilatriði fyrir sjálfbæran hagvöxt hér á landi að hlúa vel að þessum greinum og nýleg merki um hratt versandi stöðu margra útflutningsfyrirtækja má ekki hunsa. Það væri mikið áfall fyrir Ísland ef greinarnar sem landsmenn byggja velsæld sína á myndu bíða varanlegan skaða.

Samtök atvinnulífsins fagna því að stýrivextir Seðlabankans voru lækkaðir í dag. Vonandi verður unnt að lækka þá enn frekar á komandi mánuðum, minnka þannig vaxtamun við útlönd og skapa innlendu hagkerfi samkeppnishæfara og stöðugra rekstrarumhverfi.

Tengt efni:

Yfirlýsing peningastefnunefndar 14. júní 2017

Samtök atvinnulífsins