Þjóðfáninn áberandi á bandarískri vöru

Íslenski fáninn er áberandi á umbúðum fyrirtækisins.
Íslenski fáninn er áberandi á umbúðum fyrirtækisins. Mynd/Vefsíða Trader Joe's

Banda­ríska versl­un­ar­keðjan Tra­der Joe‘s hóf ný­lega sölu á „jóg­úr­ti í ís­lensk­um stíl“ í versl­un­um sín­um vest­an­hafs. Íslenski fán­inn er áber­andi á umbúðum fyr­ir­tæk­is­ins og er bæði á loki og hlið jóg­úr­t­doll­unn­ar.

Þessi notk­un þjóðfán­ans virðist á skjön við ís­lensk fána­lög, enda er var­an ekki fram­leidd hér­lend­is. Þar sem varan er ekki seld innan íslenskrar lögsögu geta stjórnvöld þó ekki brugðist við.

Samtök atvinnulífsins telja „fráleitt“ að erlend fyrirtæki nýti jákvæða ímynd Íslands með jafn afgerandi hætti. Bergþóra Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá SA, segir að samtökin hafi gert utanríkisráðuneytinu viðvart um málið í morgun og að samtökin hafi átt samstarf við stjórnvöld og Íslandsstofu um að vernda hagsmuni íslenskra fyrirtækja.

„Þessi notkun staðfestir að tenging við íslenska ímynd og uppruna er orðin verðmætari en áður og við þurfum að ganga hart fram í að tryggja að sá ávinningur nýtist íslenskum fyrirtækjum, sem selja íslenska vöru, en ekki erlendum fyrirtækjum sem hafa enga tengingu við land og þjóð,“ segir Bergþóra í samtali við mbl.is.

Ólík­legt að hægt sé að bregðast við

Neyt­enda­stofa fer með eft­ir­lit með notk­un al­menna þjóðfán­ans, en virðist þó ekki hafa lög­sögu yfir er­lend­um aðilum, sem nýta ís­lenska þjóðfán­ann til markaðssetn­ing­ar á sín­um heima­markaði.

Í lög­um um þjóðfána Íslend­inga og rík­is­skjald­ar­merkið seg­ir að heim­ilt sé að nota þjóðfán­ann á umbúðir eða aug­lýs­ingu á vöru, sé sú vara eða starf­semi sem í hlut á ís­lensk. Til þess að vara geti tal­ist ís­lensk verður hún að vera fram­leidd hér á landi úr inn­lendu hrá­efni eða fram­leidd hér á landi úr inn­fluttu hrá­efni að hluta eða öllu leyti, en fengið aðvinnslu hér­lend­is.

Þór­unn Anna Árna­dótt­ir, lög­fræðing­ur hjá Neyt­enda­stofu, seg­ist óviss um hvort stofn­un­in geti brugðist við er þjóðfán­inn er notaður á þenn­an hátt og sér­stak­lega ekki í Banda­ríkj­un­um.

„Það væri auðveld­ara að eiga við þetta ef þetta væri Evr­ópa, út af sam­starfi og öðru þess hátt­ar. Við þurf­um að skoða þetta og sjá hvort það sé eitt­hvað sem við get­um gert, en mér finnst það ekki lík­legt, því miður,“ seg­ir Þór­unn Anna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert