Af vettvangi í september 2016

SA fréttabréf header
 

Hóflegar launahækkanir eru almannagæði

     
 

Íslendingar hafa ekki dregið lærdóm af dýrkeyptri og síendurtekinni reynslu af ýktum hagsveiflum þar sem á skiptast ofþensluskeið og langvarandi kreppur. Þetta segir Hannes G. Sigurðsson, framkvæmdastjóri SA, m.a. í leiðaranum þar sem hann fjallar um tillögur Steinars Holdens, prófessors við Oslóarháskóla, um nýtt íslenskt vinnumarkaðslíkan. Steinar skilaði nýverið skýrslu um reynsluna af núverandi ferli við gerð kjarasamninga á Íslandi og hvaða úrbætur geti komið til greina.

Hannes segir almenn varnaðarorð í skýrslunni eiga brýnt erindi til Íslendinga. Að mati Steinars geta launahækkanir sem ekki samrýmst verðbólgumarkmiði Seðlabankans og meðfylgjandi of hröð kaupmáttaraukning leitt til harkalegrar niðursveiflu. Af þeirri ástæðu sé afar brýnt að koma í veg fyrir of miklar launahækkanir.

Sjá nánar

 
Ef skipulagi kjarasamninga verður ekki breytt mun Ísland sitja fast í vítahring ofþenslu og kreppu, með mikilli verðbólgu og háum vöxtum.
 

  FRÉTTIR  
 

Kjarasamningarnir höfðu mikil áhrif 

     
 

Í nýrri könnun Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja sinna kemur fram að síðustu kjarasamningar hafi haft mikil áhrif á rekstur ríflega 80% fyrirtækjanna, óháð því hvort þau starfa á útflutningsmarkaði eða heimamarkaði.



Af fyrirtækjunum gripu 43% til almennrar hagræðingar í rekstri og 18% sögðu upp fólki vegna kjarasamninganna. Algengast var að fækkunin næmi 1-4 starfsmönnum, eða í 77% tilfella, 11% fækkuðu um 5-9, 6% fækkuðu um 10-19 og 6% fækkuðu um 20-40 starfsmenn.

Sjá nánar


   
 

Gengi krónunnar, vextir Seðlabankans og hrávöruverð skipta miklu í rekstri fyrirtækja

     
 

Í könnun SA kemur fram að atvinnulífið skiptist í tvö horn varðandi áhrif styrkingar gengis krónunnar á rekstur fyrirtækja. Þriðjungur fyrirtækja telur áhrifin jákvæð og þriðjungur neikvæð. 71% útflutningsfyrirtækja telur hins vegar áhrif gengisstyrkingarinnar hafa neikvæð áhrif.

Þegar spurt var um áhrif vaxtahækkana Seðlabankans sögðu 58% útflutningsfyrirtækjanna að þau væru neikvæð og 46% fyrirtækja á heimamarkaði svöruðu því sama. Meiri hluti fyrirtækja, eða 56%, taldi lækkun hrávöruverðs hafa haft jákvæð áhrif á reksturinn.

Sjá nánar


   

 

Fyrirtækin skulda einkum innlend óverðtryggð lán

     
 

Í könnuninni kemur ennfremur fram að lánsfjármögnun er í flestum tilvikum (72%) einungis innlend. Einnig kemur fram að 17% útflutningsfyrirtækjanna reiða sig einungis á erlend lán og að önnur 17% þeirra fyrirtækja eru með meiri hluta lána sinna erlend. Lán fyrirtækjanna eru einkum óverðtryggð.

Sjá nánar

   

 

Sjálfboðaliðar koma ekki í stað almenns launafólks

     
 

Samtök atvinnulífsins hafa ásamt Alþýðusambandi Íslands undirritað yfirlýsingu vegna sjálfboðaliða. Tilefnið er sú mikla fjölgun erlendra sjálfboðaliða sem gefið hafa kost á sér í störf sem til þessa hefur verið sinnt af launafólki.

Í yfirlýsingunni er áréttað að það sé andstætt kjarasamningum og meginreglum á vinnumarkaði að sjálfboðaliðar gangi í almenn störf launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja. Launafólk hafi sinnt þessum störfum og verði ekki skipt út fyrir sjálfboðaliða.

Almenn sátt hefur ríkt um aðkomu sjálfboðaliða að samfélagsverkefnum, jafnt á vegum opinberra aðila sem einkaaðila. Undanfarin misseri hafa sjálfboðaliðar hins vegar gefið kost á sér til starfa í daglegum rekstri fyrirtækja og komið í stað almenns launafólks. Yfirlýsingu SA og ASÍ er beint gegn þessari þróun.  

Sjá nánar

 

   

  DAGATALIÐ  

 

Heilbrigð samkeppni - 28. september á Grand

     
 

Samtök heilbrigðisfyrirtækja, SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu og Samtök atvinnulífsins efna til opins morgunverðarfundar miðvikudaginn 28. september um tækifæri og áskoranir í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Heilbrigð samkeppni er yfirskrift fundarins en þar munu fulltrúar stjórnmálaflokka m.a. taka þátt í umræðum um stefnumörkun þeirra í aðdraganda Alþingiskosninga 2016.

Tryggvi Másson, viðskiptafærðingur á efnahagssviði SA og Dr. Stefán E. Matthíasson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja, flytja erindi áður en kemur að stjórnmálaumræðum. Fundarstjóri er Margrét Sanders, formaður SVÞ.

Sjá nánar

 

Hver er stefna stjórnmálaflokkanna? 

 

 

Flutningalandið Ísland 5. október í Hörpu

     
 

Ráðstefnan Flutningalandið Ísland fer fram í þriðja sinn í Hörpu miðvikudaginn 5. október næstkomandi. Ráðstefnan er á vegum Íslenska sjávarklasans en markmið hennar er að ræða og fræðast um þá framtíð sem blasir við íslensku atvinnulífi með hliðsjón af flutningum og samgöngum. 

Í þetta sinn verður kafað í málefni eins og framtíð Íslands sem tengipunktur milli Norður-Ameríku og Evrópu, hraðlest milli Keflavíkur og Reykjavíkur, framtíð Reykjavíkur sem atvinnusvæðis, einkafjárfestingu í samgöngumannvirkjum, áhrif stafrænnar tækni á flutninga, Ísland sem umskipunarhöfn á norðurslóðum, áhrif flutninga á sótspor sjávarafurða hérlendis og hvað það þýðir að stunda viðskipti á sjálfbæran hátt.

Sjá nánar

   

  ÁFANGASTAÐURINN ÍSLAND  

 

Við erum öll landkynnar

     
 

Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, setti opinn umræðufund Samtaka atvinnulífsins um uppgang og áskoranir í íslenskri ferðaþjónustu 7. september. Mikill áhugi var á fundinum og var hvert sæti skipað í Silfurbergi í Hörpu. Greining efnahagssviðs SA á ferðaþjónustunni var kynnt á fundinum og fram fóru umræður stjórnmálaflokka um ferðaþjónustuna. 

Ávarp Björgólfs má lesa í heild á vef SA

 

Nauðsynlegt er að skipta rekstri Isavia upp þannig að rekstur flugstöðvar og tengdrar þjónustu verði sjálfstæður og ríkið beri ekki ábyrgð og áhættu af uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli

 

 

Komið þið fagnandi: Uppgangur og áskoranir íslenskrar ferðaþjónustu

     
 

Greining efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins nefnist "Komið þið fagnandi" og fjallar um mikinn uppgang íslenskrar ferðaþjónustu á undanförnum árum, þýðingu hans fyrir innlent hagkerfi og ekki síst þær áskoranir sem uppganginum fylgja fyrir greinina. Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA og Óttar Snædal, hagfræðingur á efnahagssviði SA, kynntu greininguna.

Sjá nánar

   

 

Ávinningur aðgangsstýringar margfaldur

     
 

Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Bláa Lónsins, flutti áhugavert erindi um aðgangsstýringu á fundi SA. Í erindi hennar kom fram að stærsta áskorun sem Bláa Lónið hefur þurft að glíma við á síðustu árum er mikil fjölgun gesta og miklar sveiflur í eftirspurn innan dagsins. Árið 2013 hófst fyrsti áfangi í átt að aðgangsstýringu að lóninu og stuðlar hún greinilega að ánægju gesta. Mbl.is fjallaði um þann margfalda ávinning sem aðgangsstýringin hefur haft í för með sér.

Sjá nánar umfjöllun mbl.is

   

 

Treystum samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar

     
 

"Verkefnisstjórn um breytingar og umbætur á skattkerfinu hefur skilað af sér tillögum.Þar er meðal annars fjallað um að gjald fyrir nýtingu auðlinda sé hagkvæm tekjuöflun fyrir ríki og sveitarfélög ef hún endurspeglar arðsemi greinarinnar umfram það sem eðlilegt megi teljast. Bent er á að ferðaþjónustan skili miklum gjaldeyristekjum og að þær leiðir sem helst komi til greina séu gjald fyrir bílastæði og gistináttagjald"

Sjá nánar


 

Nauðsynlegt er að ríkið og ferðaþjónustan móti sameiginlega stefnu um uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða. Hluti af þeirri stefnu hlýtur að vera hvernig best sé að stýra aðgangi að helstu stöðum og ferðaleiðum. 

 

  VINNUMARKAÐUR  

 

Straumur út af vinnumarkaði

     
 

Öryrkjum með 75 prósenta örorku fjölgaði um tæplega eitt þúsund á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta kemur fram í gögnum Tryggingastofnunar. Það er fimmtíu prósenta aukning miðað við meðaltal síðustu fimm ára. Hannes G. Sigurðsson, framkvæmdastjóri SA, segir að með því að taka upp starfsgetumat sé hægt að koma í veg fyrir að vinnufært fólk hverfi af vinnumarkaði vegna örorku.

Sjá nánar


   

 

Tryggingagjald lækki um 18 milljarða

     
 

Fyrir Alþingiskosningarnar 2013 var samstaða um það meðal allra stjórnmálaflokka sem sæti áttu á Alþingi að lækka þyrfti tryggingagjaldið. Afstaða þeirra var ítrekuð á opnum umræðufundi Samtaka atvinnulífsins í nóvember 2015 þar sem fjallað var um fjárlög ríkisins.

Gjaldið lækkaði um 0,5 prósentustig þann 1. júlí síðastliðinn, í 6,85%, en svigrúm er til enn frekari lækkunar og hvöttu Samtök atvinnulífsins Alþingi í ágúst til að lækka gjaldið án tafar en það kemur harðast niður á minni fyrirtækjunum vegna hás launahlutfalls í rekstri þeirra. Svigrúm er til að lækka tryggingagjaldið um 1,5 prósentustig til viðbótar eða um 18 milljarða króna og ekki eftir neinu að bíða.

Sjá nánar


   

 

Skýrsla um launaþróun 2006-2015

     
 

Skýrslan Í kjölfar kjarasamninga kom út í júlí en þar er fjallað um launaþróun eftir samningssviðum og viðsemjendum á tímabilinu 2006 til 2015. Skýrslan er samstarfsverkefni þeirra heildarsamtaka á vinnumarkaði sem aðild eiga að Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga (Salek). Skýrslan er sú þriðja í röðinni sem fjallar um viðfangsefnið en þær fyrri báru nafnið Í aðdraganda kjarasamninga og voru gefnar út í október 2013 og febrúar 2015, í þann mund er viðræður voru að hefjast um endurnýjun kjarasamninga.

Sjá nánar

 

 

  EFNAHAGSMÁL  

 

Góð skilyrði fyrir vaxtalækkunarferli

     
 

Samtök atvinnulífsins fögnuðu 50 punkta stýrivaxtalækkun Seðlabankans 25. ágúst. "Þó ákvörðunin hafi komið flestum markaðsaðilum á óvart þá er hún í senn vel skiljanleg og rökrétt. Síðastliðin tvö ár hefur ríkt fádæma verðstöðugleiki hér á landi og gangi verðbólguspár eftir mun verðbólgan fara niður fyrir neðri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.

Verði það raunin þarf bankinn að senda bréf til stjórnvalda og gera grein fyrir því hvernig hann ætlar að auka verðbólgu fremur en að hemja hana svo að hún nálgist markmiðið á ný. Þrátt fyrir þessa fátíðu stöðu eru raunstýrivextir enn háir og breytist raunaðhald peningastefnunnar lítið fyrst um sinn, gangi verðbólguspár greiningaraðila eftir í ágúst. Áfram verða því raunvstýrivextir háir og umtalsvert hærri en gengur og gerist í nágrannalöndum."

Sjá nánar


   

  SKRIFSTOFA SA  

 

Þorsteinn Víglundsson söðlaði um

     
 

Þorsteinn Víglundsson ákvað í ágúst að gefa kost á sér í framboð til Alþingis fyrir Viðreisn. Hann lét samstundis af störfum hjá Samtökum atvinnulífsins. Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, mun stýra starfi samtakanna uns nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn. Þorsteinn var ráðinn framkvæmdastjóri SA í mars 2013.

Sjá nánar
 

   

 

Þorgerður Katrín hætt hjá Samtökum atvinnulífsins

     
 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, lét af störfum fyrir Samtök atvinnulífsins í september, þegar hún lýsti yfir framboði til Alþingis fyrir hönd Viðreisnar. Þorgerður kom til starfa fyrir Samtök atvinnulífsins vorið 2013 en hún hefur gengt starfi forstöðumanns mennta- og nýsköpunarsviðs samtakanna. 

Sjá nánar


   

  MENNTAMÁL  

 

Fundaröð um menntun og mannauð 2016-2017

     
 

Fundaröðin Menntun og mannauður hófst þriðjudaginn 20. september í Húsi atvinnulífsins. Fjallað var um nýjungar í starfsmenntun að þessu sinni. Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Samorka og Samtök verslunar og þjónustu standa að fundaröðinni sem mun standa til vors 2017. Fundirnir fara fram í salnum Kviku í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35 í Reykjavík, þriðja þriðjudag í mánuði.

Kristín Njálsdóttir, framkvæmdastjóri Landsmenntar, sem er sjóður almennra starfsmanna á landsbyggðinni, fjallaði um það sem er efst á baugi hjá Landsmennt. Selma Kristjánsdóttir,sérfræðingur hjá SVS, starfsmenntasjóði verslunar-og skrifstofufólks og Sólveig Snæbjörnsdóttir fagstjóri hjá SVS sögðu frá því hvað ber hæst hjá SVS. Þá ræddi Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri Iðunnar – fræðsluseturs iðnaðarins, um nýjungar hjá Iðunni.

   

  SAMFÉLAGSÁBYRGÐ  

 

Stóraukinn áhugi á samfélagsábyrgð

     
 

Dagana 12.-13. október fer fram ráðstefna norrænna fyrirtækja í Osló sem hafa skrifað undir Global Compact – sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Samtök atvinnulífsins eru tengiliður Íslands við Global Compact.

Ráðstefnan í október er helguð sjálfbærri þróun. Fyrir ári síðan samþykktu ríkisstjórnir víðs vegar um heiminn 17 markmið (e. Sustainable Developement Goals) um að útrýma fátækt, vernda jörðina og tryggja velferð allra. Fyrirtæki leika lykilhlutverk ef þessi háleitu markmið eiga að nást, með öflugu nýsköpunarstarfi og þróun á nýrri tækni og þjónustu. Markmiðin verða til umfjöllunar í Osló en mörg framsæknustu fyrirtæki Norðurlanda taka þátt. Meðal þeirra sem taka þátt er Hákon krónprins Noregs sem hefur látið sig sjálfbær þróunarmarkmið Sameinuðu Þjóðanna sérstaklega varða.

Stóraukinn áhugi er meðal íslenskra fyrirtækja á samfélagsábyrgð og Global Compact. Árið 2009 voru tvö fyrirtæki sem höfðu skrifað undir en í dag eru tuttugu í hópnum, Efla, Vífilfell, Sólar, Marel, Arctic Green Energy, VERT - markaðsstofa, Réttur, Landsvirkjun, Reykjagarður, Ölgerðin, Síminn, ÁTVR, Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð, Össur, Íslandsbanki, Íslandsstofa, Íslandspóstur, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Alta og Landsbankinn.

Áhugasamir um Global Compact, geta haft samband við Hörð Vilberg hjá SA, með tölvupósti á hordur@sa.is eða í síma 591-0005.

Norrænt tengslanet Global Compact

 
Samtök atvinnulífsins | Borgartúni 35 | IS-105 Reykjavík | Sími: 591 0000 | Netfang: sa@sa.is
Email Marketing af Outcome frttabrf